Feta Frakkar hinn gullna meðalveg?

eftir Ritstjórn

Tíðindamikil vika er nú að baki, þar sem forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, tókst að stórauka völd sín með því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Orðrómur er uppi um að átt hafi verið við kjörskrá kosninganna og kemur hann ekki á óvart í ljósi þeirra einræðistilburða sem Erdoğan hefur sýnt undanfarin ár. Theresa May, forsætisráðherra Breta (sem enga einræðistilburði hefur sýnt), boðaði til almennra þingkosninga í skyndi, öllum að óvörum. Þetta þykir klóklega gert hjá May og telja má ljóst að hún muni með þessu styrkja stöðu sína sem leiðtogi landsins.

Í dag ganga Frakkar að kjörkössunum. Að þessu sinni verður það til þess að velja sér nýjan forseta, eða öllu heldur þá tvo frambjóðendur sem komast í seinni hluta kosninganna. Frakkar búa við svonefnt hálf-forsetaræði, sem kunnugt er og forsetinn er því mun valdameiri en t.d. forseti Íslands.

Fylgishrun forseta

Núverandi forseti François Hollande verður ekki á kjörseðlinum en hann sóttist ekki eftir endurkjöri. Viðhorfskannanir hafa sýnt stuðning við hann falla hratt og mældist hann einungis 4% í lok árs 2016. Það er fáheyrt í Frakklandi að sitjandi forseti sækist ekki eftir endurkjöri, en Hollande hefur á kjörtímabili sínu átt erfitt uppdráttar, m.a. vegna mikils atvinnuleysis og fjölda hryðjuverkaárása. Þar að auki var stærsta baráttumál hans, að leggja á 75% hátekjuskatt, dæmt ólöglegt af dómstólum þar í landi.

Arftaki Hollande sem forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins, Benoit Hamon, hefur einnig átt erfitt uppdráttar og má að líkindum rekja það til óvinsælda Hollande. Hamon hefur enn ekki tekist að hífa fylgið upp í fyrri hæðir og mælist hann nú með undir 10% fylgi í skoðunarkönnunum. Talið er ljóst að valdatíð Sósíalistaflokksins sé liðin undir lok, í bili að minnsta kosti.

Áfram gakk!

Fyrrverandi flokksbróðir þeirra beggja, Emmanuel Macron sá tækifæri í hrakförum síns eigin flokks og sagði skilið við hann árið 2015. Sat Macron áfram í ríkisstjórn sem óháður ráðherra, en stofnaði svo nýjan flokk í apríl árið 2016. Ber hann nafnið Hreyfingin (En Marche!). Um svipað leiti og Hollande mældist með 4% stuðning sem forseti tilkynnti Macron um framboð sitt til forseta og hlaut samstundis mikla athygli og meðbyr. Macron hyggst efla efnahaginn með því að lækka fyrirtækjaskatta og skatta á láglaunafólk á sama tíma og hann eykur útgjöld hins opinbera (jafna sem gengur ekki upp). Mælist hann nú hæstur í skoðanakönnunum með 23-25%.

Meðbyr Macron er ekki einungis á kostnað Hollande og Hamon, því Franoçis Fillon, frambjóðandi Repúblikanaflokksins hefur bakað sér vandræði síðustu mánuði. Meðal annars komst upp að hann hefði haft nána fjölskyldumeðlimi á launaskrá þegar hann sat sem forsætisráðherra undir forystu Nicolas Sarkozy, þáverandi forseta. Hneykslið hefur orðið til þess að fylgi Fillon er nú í kringum 20% í skoðunarkönnunum.  

Turnunum tveimur, Repúblikanaflokknum og Sósíalistaflokknum, sem haldið hafa forsetaembættinu svo áratugum skiptir, hefur svo gott sem tekist að útiloka möguleika sína á að sigra kosningarnar. Í stað þeirra hafa tveir aðrir frambjóðendur, auk Macron, gert sig líklega í embættið. Þau Jean-Luc Mélenchon og Marine Le Pen hafa komið sér fyrir vel fyrir á sitthvorum væng hins pólitíska rófs. Þau endurspegla öfgar stjórnmálanna og hafa náð hylli fjölda fólks um allt Frakkland með popúlískum yfirlýsingum sínum. Segja má að þróunin í Frakklandi, hvað fylgi við öfgafulla frambjóðendur, sé í takt við almenna þróun í stjórnmálum á Vesturlöndum eftir efnahagshrunið 2008. Í því samhengi má nefna kjör Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og ágætt gengi Bernie Sanders í forvali Demókrataflokksins í Bandaríkjunum.

Öfgar úr báðum áttum

Jean-Luc Mélenchon er frambjóðandi La France insoumise, stjórnmálavettvangs sem hann stofnaði sjálfur árið 2016. Þótti hann ekki líklegur til afreka framan af, en frá því hann tilkynnti um framboð sitt hefur hann nýtt sér samfélagsmiðla og nýjustu tækni vel. Mélenchon hefur þannig náð að koma fram á mörgum stöðum samtímis með hjálp almyndar (hologram) ásamt því að marka sér ákveðna sérstöðu lengst til vinstri á hinum stjórnmálalega ási. Mélenchon vill ganga enn lengra en núverandi forseti Hollande og leggja 100% tekjuskatt á tekjur yfir 400.000 evrur. Með tækninni og öðrum leiðum hefur hann náð að höfða til ungu kynslóðarinnar sem hefur á síðustu mánuðum flykkt sér á bakvið hann og hefur hann verið kallaður hinn franski Bernie Sanders. Þannig hefur fylgið hans yfir tvöfaldast frá því hann tilkynnti framboð og er nú rétt undir 20 prósentum.

Marine Le Pen, formaður Front National (Frönsku þjóðarfylkingarinnar), hefur stimplað flokkinn rækilega inn sem popúlískan þjóðernisflokk sem vill úr Evrópusambandinu og stöðva komu flóttamanna til landsins. Samfara uppgangi þjóðarernishyggju í Evrópu hefur Le Pen náð að afla sér vinsælda fyrir einarða afstöðu sína gegn flóttamönnum og nýlega reyndi hún að nýta sér hamfarir sér til framdráttar. Síðastliðinn fimmtudag var lögreglumaður skotinn til bana á Champs Elysées götunni og stuttu síðar lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams yfir ábyrgð á morðinu. Sama dag lýsti Le Pen því yfir að ef hún hefði verið forseti, hefði árásin, auk annarra árása ekki átt sér stað. Ummælin féllu misjafnlega í kjósendur í Frakklandi en ómögulegt er að sjá fyrir hvaða afleiðingar hörmulegur atburður sem þessi mun hafa á kosningarnar, aðeins 72 tímum áður en kjörstaðir opna en fylgi Le Pen hefur mælst í kringum 22-23% síðustu daga.

Eins og sakir standa eru Emmanuel Macron og Marine Le Pen leiðandi í skoðanakönnunum. Morðið á Champs Elysées götunni og sókn Mélenchon varpar þó óvissublæ á kjörið í dag og mjótt er á munum.

Er þjóðernispopúlisminn kominn til að vera?

Eitt þykir líklegra en annað, og það er að endanleg úrslit kosninganna verði söguleg. Miðað við skoðanakannanir er líklegast að Macron, óháð því hverjum hann mætir í síðari umferð kosninganna, beri sigur úr býtum. Það verða að teljast tíðindi þar sem hann hefur engan eiginlegan stjórnmálaflokk á bakvið sig. Ef hins vegar Le Pen og Mélenchon mætast í síðari umferð kosninganna er ómögulegt að segja til um hvernig fer.

Tengt því sem áður sagði um Frönsku þjóðfylkinguna, má nefna að uppgangur þjóðernishyggju í Evrópu er hvergi nærri hættur, jafnvel þó Frelsisflokkur Geert Wilders í Hollandi hafi ekki komist í ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkur Bretlands (UKIP) sé ekki líklegur til afreka í komandi kosningum. Ef litið er til Norðurlandanna má sjá þá styður Danski þjóðarflokkurinn (Danske Folkepartiet) minnihlutastjórn Venstre og Finnaflokkurinn situr í ríkisstjórn í Finnlandi. Það er því ljóst að þjóðernispopúlismi hefur náð varanlegri kjölfestu í mörgum evrópskum ríkjum sem verður að teljast verulegt áhyggjuefni.

Jafnvel þótt Frakkland sé ekki stórveldið sem það áður var, eru áhrif Frakka í Evrópu og á alþjóðavísu óumdeild. Það þarf því ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að Marine Le Pen komist ekki í síðari umferð kosninganna. Hugmyndir hennar eru hættulegar frönsku þjóðinni og álfunni allri. Ekki þarf að leita langt aftur til að finna dæmi um skelfilegar afleiðingar þjóðernishyggju í Evrópu og flestir hljóta að sammælast um að slíkir tilburðir séu ekki til heilla. Því síður er æskilegt að vinstrimaðurinn Mélenchon nái framgangi enda eru sósíalískar hugmyndir hans, m.a. um stóraukna skattheimtu, til þess fallnar að veikja efnahag Frakka með tilheyrandi bágindum og frelsisskerðingum fyrir franskan almenning.

Á ólgutímum hefur það reynst kjósendum á vesturlöndum erfitt að feta hinn gullna meðalveg. Það verður því spennandi að sjá hvort Frakkar verði fyrstir stórþjóða til að höggva á hnútinn og vinna bug á hinni meinillu öfgaöldu sem riðið hefur yfir á þessum árum.