Feður skildir útundan

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á föðurhlutverkinu. Áður fyrr var þátttaka feðra í barneignarferlinu fremur lítil og var helsta hlutverk feðra að vera fyrirvinna á heimilinu og skapa þannig öryggi fyrir fjölskylduna. Nú hefur aukin atvinnuþátttaka kvenna hins vegar skapað bæði aukna þörf og tækifæri fyrir karla að taka meiri þátt í heimilishaldi og uppeldi barna sinna. Á Íslandi var ljósmóðirin Hulda Jensdóttir brautryðjandi í að leiða verðandi feður inn í barneignarferlið en hún bauð verðandi feðrum upp á foreldrafræðslunámskeið árið 1964 og hvatti síðar feður til að vera viðstadda fæðingu barna sinna. Nú þegar gerðar eru meiri kröfur um aðkomu feðra í umönnun og uppeldi barna sinna er oft sem að ekki er nægilega vel hugað að líðan feðra og þörfum þeirra í gegnum barneignarferlið.

Áhyggjur feðra

Eftirvænting og tilhlökkun verðandi feðra á meðgöngu er oft mikil. Þó geta hugsanir og tilfinningar í garð þungunarinnar verið breytilegar og ábyrgðin sem fylgir litlu barni  virkað yfirþyrmandi. Á meðgöngu hafa karlmenn oft áhyggjur af praktískum hlutum eins og húsnæði, bíl og fjárhag þar sem fæðingarorlof minnkar oftast tekjur heimilisins á sama tíma og útgjöld aukast vegna barnsins. Menn finna því gjarnan fyrir aukinni ábyrgðartilfinningu gagnvart konunni sinni, heimilinu og stækkandi fjölskyldu. Einnig hafa þeir oft áhyggjur af heilsu móður og barns og geta fundið sjálfir fyrir ýmsum líkamlegum breytingum, svo sem þyngdaraukningu, ógleði og meltingartruflunum á meðgöngu.

Útundan, en vilja taka þátt

Verðandi feður upplifa sig oft útundan á meðgöngunni og hefur fagfólki ekki alltaf tekist nógu vel að gera þá að þátttakendum svo þeim finnist þeir vera hluti af fjölskyldunni. Þeim finnst þungunin oft óraunveruleg þar til þeir heyra hjartslátt barnsins í fyrsta skiptið, finna hreyfingar þess eða sjá barnið í sónar. Þess vegna getur þeim reynst erfitt að sýna þunguninni áhuga fyrstu vikurnar og fer það gjarnan í taugarnar á konunni sem upplifir meðgönguna á allt annan hátt.

Rannsóknir sýna að feður vilja meiri fræðslu um föðurhlutverkið og vilja vera virkir þáttakendur á meðgöngunni. Því miður er upplifun margra þó ekki alveg nógu góð. Þeir upplifa sig oft á hliðarlínunni þegar þeir mæta á foreldrafræðslunámskeið eða í eftirlit með konunni sinni þar sem hvorki spurningum né fræðslu er beint sérstaklega til þeirra. Það leiðir til þess að þeir eru síður undirbúnir fyrir foreldrahlutverkið en verðandi mæður. Það er slæmt þar sem lélegur undirbúningi getur haft neikvæð áhrif á getu feðra til að tengjast barninu.

Feður vilja einnig oftast taka þátt í umönnun barna sinna en telja sig oft ekki hafa þekkingu, getu eða stuðning til að gera það. Þarna skipta eigin viðhorf, reynsla úr æsku og fræðsla og andlegur stuðningur frá maka miklu máli. Flestir sem eru að verða feður í fyrsta skipti hafa afar litla reynslu af barneignarferlinu og umönnun barna og hafa jafnvel aldrei haft afskipti af börnum fram að þessu. Um 80% karla í hinum vestræna heimi verða þó á einhverjum tímapunkti feður. Stuðningur við verðandi feður snertir því stærstan hluta karla og í reynd fjölskylduna alla þar sem sýnt hefur verið fram á að þátttaka feðra hafi jákvæð áhrif á vöxt og þroska barnanna, andlega heilsu þeirra og vitsmunaþroska.

Mikilvægi fæðingarorlofs

Fæðingarorlofskerfið hefur tekið miklum breytingum frá árinu 2000 en þá voru gerðar miklar breytingar á kerfinu sem höfðu það markmið að tryggja samvistir barna við báða foreldra sína, auk þess sem feður fengu aukin réttindi til fæðingarorlofstöku (lög nr. 95/2000). Nokkrum árum síðar var sett þak á þá upphæð sem greidd var úr sjóðnum sem miðaðist við 500.000 krónur á mánuði en eftir efnahagshrunið var þakið lækkað niður í 300.000 krónur ,með því skilyrði að það yrði hækkað aftur um leið og efnahagur ríkissjóðs leyfði. Kerfið hefur enn ekki verið leiðrétt að fullu og hefur lækkunin orðið til þess að draga úr töku fæðingarorlofs hjá báðum kynjum, og þá sérstaklega hjá körlum.

Þann 15. október s.l. tóku í gildi breytingar á fæðingarorlofsgreiðslum þar sem hámarksgreiðslur hækkuðu aftur úr 370 þúsund krónur á mánuði í 500 þúsund krónur. Breytingarnar voru að öllum líkindum hugsaðar sem hvatning til feðra til aukinnar fæðingarorlofstöku þar sem einungis 20% kvenna eru með tekjur yfir 500 þúsund krónur á mánuði en 44% karla. Verður forvitnilegt að sjá hvort breytingarnar verði til þess að auka fæðingarorlofstöku feðra.

Þörf á viðhorfsbreytingu

Ljóst er að bæta þarf stuðning til verðandi feðra til þess að heildarhugmyndin um þátttöku þeirra í barneignarferlinu gangi upp. Fræðsla um meðgöngu og fæðingu eru oft of kvenmiðaðar og þeim getur reynst erfitt að sækja félagslegan stuðning frá öðrum sem eru í svipuðum aðstæðum. Þá væri hægt að breyta ýmsu í umhverfinu til þess að auðvelda körlum að taka þátt í barneignarferlinu. Má þar til dæmis nefna enn frekari breytingu á fæðingarorlofskerfinu en með því að afnema eða draga úr frjálsri skiptingu hluta fæðingarorlofsins væri staða feðra bætt til muna. Einnig mætti huga að því að breyta verklagi í mæðravernd, en það væri t.a.m. ráðlegt að beina sumum spurningum til karla sérstaklega, sem og að spyrja þá út í líðan þeirra og áhyggjur líkt og gert er við konur.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.