Fé, um fé, frá fé, til fjármálaáætlunar

eftir Ritstjórn

Í vikunni sem leið lagði ríkisstjórnin fram fjármálaáætlun sína til áranna 2019-2023. Töluverð eftirvænting var vegna hennar enda sú fyrsta sem smíðuð er af ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fyrirséð var að nokkuð yrði um skattalækkanir í fjármálaáætluninni, en nú þegar hefur ríkisstjórnin fest í lög þær skattahækkanir sem fram komu í stjórnarsáttmálanum.

Fyrir vikið stóð ríkisstjórnin frammi fyrir erfiðu verkefni, útbúa fjármálaáætlun þar sem skattar væru lækkaðir en útgjöld aukin á sama tíma. Þegar fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlunina á miðvikudag virtist sem verkefnið hefði verið leyst. Að því er fram kom í máli hans stendur til að lækka tekjuskatt, tryggingagjald og bankaskatt á sama tíma og á að stórauka framlög til heilbrigðismála, háskóla, byggja hjúkrunarheimili og hefja stórsókn í vegaframkvæmdum. Meðalgreindur maður skyldi ætla að þessum aðgerðum fylgdu hagræðingaraðgerðir til að fjármagna útgjaldavöxtinn. Svo er þó ekki.

Fögur fyrirheit fyrir bí?

Ekki þarf að kafa djúpt ofan í fjármálaáætlunina til að sjá að ríkisstjórnin hyggst treysta á áframhaldandi hagvöxt á næstu árum til þess að standa undir hinum miklu útgjöldum. Ef forsendur fjármálaáætlunar ganga eftir má sjá fram á þrettán ára samfellt hagvaxtarskeið, sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að slíkt hefur aldrei gerst áður í sögu þessa lands. Það má því lítið út af bregða svo ekki verði hægt að standa við þau fögru fyrirheit sem sjá má í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Ef ef svo „ólíklega“ vill til að hagvöxtur dragist hér saman eða verðbólga aukist munu stjórnvöld þurfa að bregðast við með einhverjum hætti. Annað hvort verður farið í hagræðingaraðgerðir eða hætt verður við fyrirheit ríkisstjórnarinnar. Með því einu að líta um öxl og rannsaka hegðun íslenskra stjórnmálamanna gegnum tíðina verður talið líklegt að síðari valkosturinn verði fyrir valinu. Þá verður áhugavert að sjá hvaða verkefni fýkur fyrst út af borðinu. Verða það aukin framlög til háskólastigsins eða lækkun tekjuskatts einstaklinga? Gæti efnahagurinn jafnvel tekið slíka dýfu á næstu árum að t.d. verði hætt við byggingu nýs Landspítala?

Hver fær ekkert fyrir sinn snúð?

Þrátt fyrir að fjármálaáætlunin bjóði upp á bland skattalækkana og útgjaldaaukningar virðast flestir sem hafa látið sína skoðun í ljós vera ósáttir með áætlunina, ef af mjög ólíkum ástæðum. Svo virðist vera sem að fólk sé ekki að lesa sama plaggið. Forkólfar þeirra vinstri flokka sem ekki sitja í ríkisstjórn hafa sumir kallað áætlunina hægra plagg og finnst ekki nægu veitt til hinna efnaminni. Hægri menn telja aftur á móti að plaggið sé glannalegt líkt og vísa til svipaðra atriða og hér að ofan.

Hefðbundin hægri/vinstri-stjórnmál fá nýja merkingu þegar þau eru iðkuð í Stjórnarráðinu. Katrín Jakobsdóttir er í forsvari fyrir ríkisstjórn þriggja flokka þvert á hið pólitíska róf. Óhætt er að segja að djúpstæður hugsjónarlegur ágreiningur ríki milli flokkanna þriggja auk hefðbundinna átaka á vegasalti valdastjórnmálanna.

Á síðari hluta kjörtímabilsins gæti það komið í bakið á ríkisstjórninni að hafa spennt bogann of hátt í heimilisbókhaldinu. Ef svo fer að á hagvextinum hægir eða verðbólga lætur á sér kræla munu einhverjir að líkindum verða fyrir vonbrigðum. Kannski þeir sem hafa þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, t.d. eldri borgarar að ævikvöldi eftir annasama ævi, ungt fólk sem kemur til með að nýta sér heilbrigðiskerfið síðar meir og foreldrar sem vilja sjá börnum sínum fyrir sem allra bestri heilbrigðisþjónustu. Kannski íbúar á landsbyggðinni og standa frammi fyrir því að vegir í sveitarfélögum þeirra standast ekki öryggiskröfur 21. aldarinnar. Hver sem það verður sem verður svikinn um fjármagn úr ríkissjóði, þá er ljóst að hætt er við fylgistapi sem þessum kjósendum nemur í næstu alþingiskosningum.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.