Færeyjar og fokking fiskurinn

eftir Ritstjórn

Fáar atvinnugreinar eru jafnoft til umræðu í heitapottum, á kaffistofum og kommentakerfum landans og sjávarútvegurinn, sem er ekki skrítið í ljósi mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskan efnahag. Fiskurinn hefur verið meginstoð samfélagsins í hundruði ára og voru nær öll okkar pláss upphaflega byggð upp í kringum fiskeríið. Efnahagurinn reis og féll með fisknum: ef illa gekk að veiða var kreppa, og þegar vel gekk var góðæri. Það er eðlilegt að Íslendingum sé ekki sama um fiskinn.

Umræðan vill þó oft þróast á mjög ómálefnalegan hátt – afvegaleiðandi, gífurmælt og persónuleg. Ítrekað er fullyrt að útgerðarmenn séu upp til hópa glæpamenn og þeir séu að ræna þjóðina. Síðan virðist þessi orðræða eiga einhverjar rætur að rekja til nokkurs konar andúðar fólks á peningum. Arðgreiðslur eru þýfi, hagnaður verður aðeins til vegna brots á neytendum og fjármagn er alltaf illa til fengið.

Hlutdrægni fjölmiðla hjálpar „baráttunni um málefnalegri og skynsamlegri umræðu“ ekki neitt, heldur þvert á móti. Fjórða valdið skiptist algjörlega í tvö lið þegar kemur að útgerðinni og fær aðeins önnur hliðin að hljóða hvoru megin. Lengi þarf að leita til að finna jákvæðar fréttir um sjávarútveginn á Fréttatímanum og í Stundinni og jafnlengi þarf að leita að neikvæðum fréttum hjá Morgunblaðinu. Þess til viðbótar heldur fólk sig oft við ákveðna fjölmiðla án þess að leita yfir lækinn og umkringir sig frekar fólki sem er sömu skoðunar. Þetta verður til þess að Facebook „newsfeed“ fólks, sem samanstendur af vinum og fjölmiðlum sem viðkomandi „lækar“, verður afar einsleitt og hin hliðin verður fyrir umræddan aðila órökrétt – ómöguleg.

Þá má segja að munur andstæðra póla stjórnmálanna hér á landi kristallist í umræðunni um sjávarútveginn. Til að mynda er umræðan um eignarfyrirkomulag auðlinda (ríki eða einstaklingar), byggðarþróun, skattlagningu, hagkvæmni og auðskiptingu, allt eitthvað sem viðkemur atvinnugreininni. Þegar svo mikið af aðalþrætieplum pólitískrar umræðu koma saman á einum stað verður auðvelt fyrir hagsmunaaðila, með eða á móti, að skapa eitthvað ósætti í hvert sinn. Þannig má oft rökstyðja sitt mál að því virðist með sannfærandi hætti án þess að segja alla söguna, taka til alla möguleika og tala um hvers vegna hlutirnir urðu eins og þeir eru.

Fær sjávarútvegurinn nokkurn tímann frið?

„Stöðugt rekstrarumhverfi skiptir miklu fyrir öll atvinnufyrirtæki. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að glíma við meiri óstöðugleika en þekkist í flestum öðrum greinum vegna náttúrulegra sveiflna í stofnstærðum. Vart getur talist heppilegt að bæta pólitískri óvissu þar á ofan.“ 

Þetta skrifuðu fjórir hagfræðingar Hagfræðistofnunar árið 2001 og óhætt er að segja að síðan þá hafi nefndur óstöðugleiki greinarinnar ekki minnkað. Meira segja dúkkar enn upp sú umræða að kvótakerfið sjálft (fyrirkomulagið þar sem aðgengi að auðlindinni er takmarkað til að koma í veg fyrir ofveiði sem við Íslendingar höfum sannarlega kynnst) sé skaðlegt.

Barnalegt væri hins vegar að koma með rök með eða á móti hverju þrætuatriði sem varðar sjávarútveginn í þessum pistli, rétt eins og athugasemdir við fréttir Fréttatímans eða skoðanir Fréttablaðsins verða aldrei tæmandi umfjöllun þar sem allir pólar fá að njóta sín.

Sú þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum er þó til marks um að kvótakerfið hafi verið betri en óbreytt kerfi. Framleiðni í íslenskum sjávarútvegi er með hinu mesta móti sem fyrir finnst, nýting íslenska fisksins er einstök í heiminum og á meðan greitt er með sjávarútveginum í nálægum ríkjum er íslenski sjávarútvegurinn skattlagður aukalega í formi veiðigjalds (hér verður ekki tekin afstaða til auðlindagjaldsins). Þróunin í kjölfar kvótakerfisins hefur óhjákvæmilega ekki verið án kostnaðar. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í útgerðinni og fólki hefur fækkað í mörgum sjávarplássum. Með öðrum orðum hefur hagkvæmni aukist og auður safnast á færri hendur á kostnað byggðar, vinnufólks í greininni og sögulegrar rómantíkar. Kostir og gallar þessa er efni í fjölda pistla.

Fiðrildablaðkið í Færeyjum sem varð að fellibyl á Íslandi

Nýjasti ólgusjór íslenska fiskiðnaðarins er uppboð á hluta af kvóta Færeyinga á nokkrum fisktegundum. Þetta er tilraunaverkefni byggt á kosningaloforðum vinstri flokka nágrannaeyju okkar og hefur vægast sagt gengið vel þegar litið er til markmiðsins: að fá sem mestan arð af auðlindinni í ríkiskassann. Til að mynda var boðið 63,9 krónur í kílóið af 3.500 tonnum af makrílkvóta samanborið við að hér á landi eru greiddar 2,8 krónur fyrir kvótann. Þetta er mikill munur og skiljanlegt að allir hagsmunaaðilar hafi ræst út sín bestu teymi til að reyna að ná yfirhöndinni í umræðunni.

Fljótlega varð hins vegar ljóst að þetta væri ekki samanburðarhæft við íslenskar aðstæður enn sem komið er. Aðeins er um tilraunaverkefni að ræða og lítill hluti af kvóta hverrar tegundar boðinn út. Svo hátt verð hefði ekki fengist fyrir heildarkvóta þar sem í þessu uppboði er aðeins um að ræða jaðarkostnað fyrir fyrirtækin. Útgerðarfyrirtækin þurfa ekki að kaupa ný skip eða tæki til að veiða þennan aukakvóta og geta þá boðið miklu hærra verð. Ef um heildarkvóta væri að ræða þyrfti að taka allan fjármagns- og rekstrarkostnað og áhættu inn í reikninginn, sem minnkar svigrúmið til þess að bjóða hátt verð. Þá var kvótinn aðeins afhentur til eins árs og ef það ætti við um allan kvótann myndi rekstraróvissan vera mjög mikil. Erfiðara væri að fá lán og minni hvatar væru til hagræðingar og tækniþróunar. Sömuleiðis lentu andstæðingar kvótakerfisins vegna aukinnar samþjöppunnar snögglega á vegg þegar í ljós kom að aðeins stærstu og fjársterkustu aðilarnir unnu uppboðið (eins og við var að búast). Síðan mætti lengi tala um mun íslenska og færeyska fiskveiðistjórnunarkerfisins, kosti og galla þeirra beggja – það verður gert síðar.

Staðreyndin er þó sú að íslenski sjávarútvegurinn stendur mjög vel. Þá verður eftirsóknarvert fyrir ýmsa stjórnmálamenn að vilja fá meira til úthlutunar í misgáfuleg verkefni. Þetta er sérstaklega auðvelt núna á tímum peningaandúðarinnar en óstöðugleiki og sífelld afskiptasemi stjórnvalda af atvinnulífinu verður þó að halda í lágmarki. Kröftug fyrirtæki er eitt sterkasta aðdráttarafl sem Ísland getur átt til að fá ungt fólk aftur heim og byggja sterkt samfélag til framtíðar, með bestu lífskjör sem völ er á. Með þessi markmið að leiðarljósi er hlutverk stjórnvalda að tryggja hagfellda umgjörð atvinnulífsins í alþjóðlegu samhengi en ekki bæta stöðugt við nýjum hlekkjum.

Ekkert kerfi er hins vegar óbreytanlegt og ef vilji er til þess að ráðast í breytingar verða þær að vera úthugsaðar, byggðar á rannsóknum og tilraunum. Róttækar breytingar byggðar á einni tilraun í ólíku kerfi eru mjög skammsýnar aðgerðir sem hefur verið djöfull okkar Íslendinga. Nú hefur fyrsta skref í tilraun Færeyinga verið stigið, og erum við svo lukkuleg að geta fylgst með þróun kerfisins þar í landi, útgerðanna og byggð, á meðan okkar sjávarútvegur getur haldið áfram að blómstra.

Með kosti og galla þessa tilraunar undir beltinu getum við í kjölfarið tekið yfirvegaðri ákvörðun um framtíð okkar kerfis. Ef það reynist betra þegar allt vatn er runnið til sjávar, er þetta einfalt dæmi.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.