Fær íslenska þjóðin bara 19% af hagnaði sjávarútvegs?

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Bjartar sumarnætur eru að baki, trén hafa afklæðst litskrúðugu laufi og sjávarútvegur er á milli tannanna á fólki – haustið er sannarlega gengið í garð. Í þetta sinn var kveikja umræðunnar áhugavert myndband sem Stjórnarskrárfélagið gaf út í vikunni og ber heitið „Auðlindirnar í eigu þjóðarinnar, ekki ókeypis gullnáma örfárra einstaklinga! Ný stjórnarskrá.“[1]. Í myndbandinu koma saman kunnugleg andlit og hrópa ýmsar staðhæfingar um sjávarútveg. Sagt er að þjóðin fái aðeins „19% af hagnaðinum“ og að það séu „sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í höndum örfárra fjölskyldna“ sem „hafa hagnast að meðaltali um 44,7 milljarða á ári af fisknum eftir hrun“. Í kjölfarið koma ýmsar hugmyndir um hvað væri hægt að gera við þá upphæð – meðal annars væri hægt að byggja 2 Hörpur á ári og halda Eurovision 10 sinnum á ári. Ef við látum ágæti þessara hugmynda liggja á milli hluta (Guð almáttugur, við skulum ekki byggja tvær Hörpur á ári, við eigum fullt í fangi með eina), þá verður það að teljast nokkuð afrek að geta á einni mínútu búið til eitthvað svo samhengislaust og hlaðið rangfærslum að það þyrfti væna ritröð til að bregðast við öllu því sem þar kemur fram með fullnægjandi hætti.

Í þessari grein mun ég hins vegar afmarka mig við þá staðhæfingu að íslenska þjóðin fái aðeins 19% af hagnaði sjávarútvegsins, enda tel ég þá staðhæfingu vera afvegaleiðandi og svo fráleita að ekki sé hægt að láta hana óátalda. Hið rétta er að sjávarútvegsfyrirtæki greiða 33% af hagnaði í formi veiðigjalds, auk hefðbundins 20% tekjuskatts af hagnaði. Samanlögð skattlagning á sjávarútvegsfyrirtæki hefur þannig legið á bilinu 35-65% af hagnaði á seinustu árum.[2] Veiðigjaldið og önnur séríslensk gjöld á sjávarútveg, sem ég hef ekki einu sinni nefnt, eru óumdeilanlega verulega íþyngjandi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.[3]

En bíddu – skiptir það máli hvort það sé 19%, 30% eða 40%? Er þetta ekki bara smámunasemi? Nei. Álitið sem fólgið er í myndbandinu er að íslenska þjóðin fái ekki nægilega mikið út úr fiskveiðiauðlindinni. Það er auðvitað álitamál sem getur aldrei leitt til svars sem er „rétt“, en hins vegar getur engin heilbrigð umræða átt sér stað ef villandi, eða beinlínis rangar, upplýsingar liggja til grundvallar.

Hugtakanotkun skiptir máli

Kjarni málsins er sá að í myndbandinu er hugtökunum „hagnaður“ og „auðlindarenta“ blandað saman með grófum hætti.

Hvað er hagnaður?
Hagnaður er það sem eftir stendur af tekjum hjá fyrirtæki eftir búið er að greiða allan rekstrarkostnað, fjármagnskostnað og skatta. Þetta er afkoma fyrirtækisins á einu fjárhagsári.

Hvað er auðlindarenta?
Auðlindarenta er fræðilegt hugtak, sem lýsir umframhagnaði sem verður til þegar náttúruauðlindir (t.d. demantar, gull, fiskur, olía, skógar o.s.frv.) eru nýttar. En ókei – hvað þýðir þá umframhagnaður? Hugmyndin að baki því hugtaki er þessi: Vegna þess að náttúruauðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar og oft ekki nægar til þess að seðja eftirspurn markaðarins, þá getur orðið til umframeftirspurn – þ.e. eftirspurn umfram það sem framboðið getur annað – og verðið verður hærra heldur en ef full samkeppni væri í framleiðslunni. Þetta mun þá leiða til þess að verð, og þ.a.l. hagnaður, hækkar – en þessi aukni hagnaður er þá einungis vegna takmarkaðs eðli náttúruauðlindar. Þessu er stillt upp á móti „eðlilegum“ rekstri, þar sem fyrirtæki geta brugðist við umframeftirspurn með því einfaldlega að framleiða meira, eða þá að nýir aðilar koma inn á markaðinn með meira framboð. Þetta myndi þá keyra verðið, og þ.a.l. hagnaðinn, aftur niður – eitthvað sem gerist ekki í tilfelli auðlindanýtingar. Þetta er það sem er átt við með „umframhagnaði“.

Auðlindarenta: Ekki klippt og skorið

Gott og vel – góð pæling. En þá vandast málið aðeins. Í raunveruleikanum er mjög vandasamt að reikna út auðlindarentu. Raunar má segja að það ríki yfir höfuð alls ekki einhugur um gildi þessarar hugmyndar fyrir sjávarútveg hjá fræðimönnum. Í viðtali fyrir áramótablað Frjálsrar Verslunar frá árinu 2012 hafði Þráinn Eggertsson, prófessor Emeritus hjá HÍ, þetta um málið að segja: „Sjávarútvegsfyrirtæki og starfsfólk þeirra eru ekki sendlar þjóðarinnar sem sækja fyrir hana gullmola í greipar Ægis gegn hóflegu gjaldi. Fyrirtækin skapa auðlindarentuna með nýjungum í veiðum, vinnslu og markaðssetningu, ef umhverfi þeirra hvetur til slíks framtaks. Hugtakið auðlindarenta er úrelt hugmynd frá fyrri öldum þegar hagfræðingar gerðu sér ekki grein fyrir eðli áhættu og mikilvægi stofnanna og athafnasemi fyrir verðmætasköpun.“ [4]

Fjarsjóðurinn í hafinu er því fjarri því að vera einhver föst stærð sem aðeins útvaldir fá að sækja. Auðlindarenta er breytileg stærð og byggist á hverjum tíma á fyrirliggjandi markaðsaðstæðum, tæknistigi og fleiri ytri aðstæðna. Enn fremur eru gæði og umfang gagna misjöfn, ásamt því að það þarf að meta hvað „eðlileg“ ávöxtun raunverulega er. Ef meiri hagnaður er til staðar heldur en að meðaltali í öðrum óskyldum atvinnugreinum, hvernig má aðgreina hvað kemur raunverulega til vegna takmarkaðs eðlis auðlindar og hvað er vegna nýsköpunar, aukinnar framleiðni eða einhverra annarra þátta? Þetta er gífurlegur mælingarvandi og það er ekki auðséð að það sé með góðu móti mögulegt að aðgreina þetta með snyrtilegum hætti. Ef reikna á út auðlindarentu þarf að gefa sér ógrynni af forsendum um alla ofangreinda þætti, og verða flestar af þeim talsvert einfaldaðar og ekki endilega viðeigandi í raunveruleikanum. Eins og komist er að orði í ritgerð frá árinu 2019 um auðlindarentu í íslenskum sjávarútvegi: „Measuring the RR [Resource Rent – Auðlindarenta] that was generated in fisheries can be very problematic, with the first issue being the definition of RR…A second issue concerns the calculations of input costs, in particular, the opportunity costs of capital and labor…Finally, the reinvestment necessary to maintain the operations of the industry must be assessed. “[5]

Tilgangurinn með þessu er alls ekki að rengja fræðimenn eða niðurstöður þeirra, heldur að varpa ljósi á gildi hugtaksins auðlindarenta. Og rétt er að hafa í huga að fræðimenn viðurkenna fúslega að því fylgir mikill vandi að reikna út auðlindarentu.[6] Rannsóknir á auðlindarentu í sjávarútvegi geta gefið mikilvæga innsýn í virkni og afleiðingar kvótakerfa (ITQ-kerfa sem íslenska kvótakerfið er), en útreikningar á fjárhæð eða skiptingu hennar eru ekki staðreyndir.

En hvaðan koma 19%?

Nú þarf ég að taka mér það bessaleyfi að gera ráð fyrir hver heimild myndbandsins er, þar sem heimilda er þar hvergi getið. Svo vill til að nú á árinu birtist fræðigrein í tímaritinu Marine Resource Economics eftir Stefán B. Gunnlaugsson (HA), Hörð Sævaldsson (HA), Daða Má Kristófersson (HÍ) og Svein Agnarsson (HÍ). Ber hún heitið „Resource Rent and its Distribution in Iceland‘s Fisheries“.[7] Þar kennir ýmissa grasa, en megin viðfangsefnið er að reyna að meta skiptingu auðlindarentunnar á milli hinna ýmsu hagaðila, en þeir skilgreina þrjá: Íslenska ríkið, „kvótasala“ (aðila sem hafa selt sig út úr greininni) og fyrirtæki sem eftir eru.[8] Það er óþarft að kafa ofan í aðferðafræði, en ég hef þegar tæpt á hvað felst í slíkum útreikningum, sem eru háðir annmörkum sem höfundarnir fjalla sjálfir um. Samandregið má segja að niðurstöður útreikninganna felist í myndunum tveim hér að neðan.

Efri myndin sýnir hina metnu auðlindarentu frá 1997 til 2017. Aðrar fræðigreinar um sama málefni hafa komist að svipuðum niðurstöðum: Lítil sem engin renta var til staðar fram til ársins 2008, en það er talið vera vegna stöðugs samdráttar í afla frá upptöku kvótakerfisins auk sterkar krónu. Renta hafi svo myndast eftir árið 2008 eftir því sem hagræðingin sem fylgir kvótakerfinu, jókst, framleiðsluþættir voru betur nýttir, aflinn tók að aukast á ný með uppbyggingu fiskistofna að ógleymdri mikilli veikingu íslensku krónunnar vegna bankahrunsins.

Með aðferðarfræði sinni meta höfundarnir að hlutdeild íslenska ríkisins af rentunni sem skapaðist á öllu tímabilinu 1997-2017 hafi verið 19%, kvótasala hafi verið 39% og starfandi fyrirtækja 42%. Jafnframt er tímabilunum skipt í þrennt, 1997-2003, 2004-2010 og 2011-2017. Það má draga myndina sem máluð er upp með þeim hætti að ódýrt fjármagn um og eftir aldamót og döpur afkoma hafi leitt til þess að margir seldu sig út úr greininni og tóku rentu (þ.m.t. vænta framtíðarrentu, sem felst þá í söluverðinu) með sér. Umtalsverð renta hafi myndast eftir árið 2008, sem fór að miklu leyti til sjávarútvegsfyrirtækja þar til að veiðigjaldið var hækkað ríflega frá og með árinu 2012. Í annarri ritsmíð hefur verið metið að á árinu 2016 hafi hlutdeild ríkisins í rentunni verið mun hærri, eða um 26-29%.[9]

Staðreyndir málsins

Ef við tökum umdeilanlegt gildi útreikninga á auðlindarentu og skiptingu hennar út fyrir sviga, þá er af ofangreindri umfjöllun ljóst að myndband stjórnarskrárfélagsins afskræmir sannleikann. Það er fjarri því að vera rétt að íslenska þjóðin fái aðeins 19% af hagnaði sjávarútvegs, heldur meta höfundar greinarinnar sem liggur til grundvallar í myndbandinu að á tímabilinu 1997-2017 hafi íslenska ríkið fengið til sín 19% af útreiknaðri auðlindarentu – sem er, aftur, ekki það sama og hagnaður. Samanlögð skattlagning á sjávarútvegsfyrirtæki hefur þannig legið á bilinu 35-65% af hagnaði á seinustu árum.[10]

Viljum við drepa gullkálfinn?

Að lokum er vert að víkja að þeirri ásökun sem fólgin er í myndbandinu: Að íslenska þjóðin fái ekki nægilega mikið út úr fiskveiðiauðlindinni. Í því samhengi er mjög mikilvægt að hafa hugfast að ávinningur þjóðarinnar af íslenskum sjávarútvegi er mun meiri en bara það sem kemur í ríkiskassann frá sköttum og gjöldum sem leggjast beint á greinina, þó það sé óneitanlega drjúgur hluti.

Íslenskur sjávarútvegur er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og fjöldi fyrirtækja á líf sitt undir fjárfestingum sjávarútvegs. Beint framlag atvinnugreinarinnar til landsframleiðslu hefur verið uppundir 10% undanfarin ár, en óbeint framlag hefur verið metið allt að tvisvar til þrisvar sinnum meira en það.[11] Ekki þarf að líta lengra en til fyrirtækja á borð við Marel, Völku og Skagann 3X til að sjá sannleiksgildi þessara talna. Þessi fyrirtæki væru ekki svipur hjá sjón nema fyrir fjárfestingargetu og -vilja íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Sjávarútvegur er fjarri því að vera í „höndum örfárra fjölskyldna“; hátt í 1.000 lögaðilar hafa greitt veiðigjald árið 2020. Atvinnugreinin stendur undir atvinnulífi og byggð um allt land, en í því samhengi má ekki gleyma að íslenska ríkið nýtir 5,3% veiðiheimilda ár hvert í ýmis byggðamál. Sjávarútvegur er okkar tryggasta uppspretta gjaldeyris og sú atvinnugrein sem fremst stendur í alþjóðlegum  samanburði. Mikilvægi sjávarútvegs, og sér í lagi sveigjanleiki hans, hefur aldrei verið augljósara en nú á tímum COVID-19. Það vill gleymast að kvótakerfið, og sér í lagi hið frjálsa framsal, er forsenda og lykilástæða þess að þetta hefur er mögulegt.

Fær íslenska þjóðin nægilega mikið úr fiskveiðiauðlindinni? Eiga sjávarútvegsfyrirtæki að greiða 40% af hagnaði, 60%, 80%? Sitt sýnist hverjum um það og er reglulega deilt um það á Alþingi. En réttar upplýsingar skulu liggja fyrir, og allt tekið með í reikninginn, þegar rætt er um að gera stórtækar eðlisbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í öllu falli ætti öllum nú að vera ljóst að það er ekki rétt að íslenska þjóðin fái bara 19% af hagnaði sjávarútvegs.


[1] https://www.youtube.com/watch?v=RSvvKVpYpbQ

[2] Deloitte

[3] Gjaldstofn veiðigjalds miðast við hagnað (EBT) sjávarútvegs tveim árum áður þegar til álagningar kemur. Þetta leiðir til þess að breytileiki skapast í hvaða hlutfall er greitt af hagnaði árlega.

[4] Viðtal við Þráinn Eggertsson, jólablað Frjálsrar Verslunar 2012

[5] https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0165783619300505

[6] http://www.old.sjavarutvegsradstefnan.is/files/Dadi2014.pdf?fbclid=IwAR3j8_ZsX5uokl1LYdUQ82l41BsywKw3wqhjmoXiwPZSVFg9lQQNiaZC9fE

[7] https://www.journals.uchicago.edu/doi/10.1086/708507

[8] Vegna ákveðinna tæknilegra atriða sem ekki er unnt að fara út í hér segja þeir að hlutdeild “kvótasala” kunni að vera vanmetin með aðferðafræði þeirra.

[9] https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0165783619300505

[10] Deloitte

[11] https://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3677

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.