Fækkum lögbundnum frídögum

eftir Kristófer Már Maronsson

Í lok apríl, maí og fyrri part júní var önnurhver vinnuvika sundurslitin, vegna lögbundinna frídaga, sem oft hitta ekki á föstudag eða mánudag til að lengja helgar. Heppni var í ár að 17. júní hitti á mánudag sem varð að öllum líkindum til þess að sú helgi varð meiri ferðahelgi en oft áður. Væru ekki miklu meiri lífsgæði fólgin í því ef við gætum fækkað þessum lögbundnu frídögum og haft aukið frelsi um hvenær við nýtum okkur þá? Lögbundnir frídagar árið 2019 eru:

 • Nýársdagur (1. janúar)*
 • skírdagur (fimmtudagur)
 • föstudagurinn langi*
 • páskadagur* 
 • annar í páskum (mánudagur)
 • sumardagurinn fyrsti (fimmtudagur)
 • alþjóðlegur frídagur verkafólks (1. maí)
 • uppstigningardagur (fimmtudagur)
 • hvítasunnudagur*
 • annar í hvítasunnu (mánudagur)
 • þjóðhátíðardagur Íslendinga (17. júní)*
 • frídagur verslunarmanna (mánudagur)
 • aðfangadagur, frá 12 á hádegi*
 • jóladagur*
 • annar í jólum
 • gamlársdagur, frá 12 á hádegi*

*stórhátíðardagur

Persónulega væri ég til í meira frelsi (ekki með mercedes club þó) um hvenær ég gæti nýtt þessa frídaga. Það eru auðvitað nokkrir dagar sem ekki er hægt að hrófla við í þessum tilgangi, eins og sunnudagsfrídagar, nýársdagur og svo framvegis. Það eru hinsvegar frídagar sem eru ekki jafn “heilagir”, ef svo má að orði komast. Ef ég mætti ráða, þá myndi ég velja 6 frídaga og breyta þeim í orlofsdag. Þá hefði hinn almenni launamaður 30 daga orlof á hverju ári – eða 6 vinnuvikur, en þeir sem mestan réttin hefðu ættu 36 daga orlof. Miklu meiri stöðugleiki yrði í þjónustu fyrirtækja við neytendur og launþegar hefðu 25% meira frelsi en áður. Dagarnir sem ég myndi velja eru:

Skírdagur, föstudagurinn langi og annar í páskum
Já, ég myndi aflýsa dymbilvikunni og páskafríinu. Páskarnir eru góð stund, en þeir eru ekki allra. Íslendingar eru kristnitrúuð þjóð og því höldum við uppá páskana með tilheyrandi fríi. En fæstir halda í alvöru uppá páskana er það ekki? Flestir borða jú páskaegg og góðan mat, en ég er ekki viss um að öll leggjum við leið okkar í kirkju til að minnast Jesú Krists. Þvert á móti virðumst við aldrei ferðast jafn mikið erlendis og um páskana, frétt um full bílastæði við flugvöllinn fyrir páska er að verða jafn árlegur viðburður og páskarnir sjálfir. Svo árlegt að öll flugfélög og ferðaaðilar geta hækkað verð á þessum tíma, vegna fyrirsjáanlegrar umframeftirspurnar, sem er skynsamleg og eðlilegt hegðun hjá þeim fyrirtækjum. Ég hef lítið út á það að setja. Hinsvegar gætu hlutirnir verið öðruvísi, ef fjölskyldur gætu fært “páskafríið” sitt og fengið þá flug og annað á mun hagstæðara verði.

Sumardagurinn fyrsti
Segir það sig ekki sjálft? Þetta er einn af okkar tilgangslaustu frídögum, stundum er bara ekkert gott veður. Hann er á fimmtudegi, sem brýtur upp vikuna. Ég væri mun frekar til í að geta nýtt þennan dag þegar það spáir góðu veðri og jafnvel lengt eina helgi.

Uppstigningardagur
Ég veit ekki hver fann upp þessi fimmtudagsfrí, en mér þykja þau ekkert sérlega frábær hugmynd. Nema sá hinn sami hafi séð langt inn í framtíðina þar sem föstudagur væru orðnir partur af helgarfríi. Af svipuðum rökum og að ofan, þá myndi ég sleppa uppstigningardegi. 

Annar í hvítasunnu

Ég þarf að nota mátt internetsins til að komast að því hvað hvítasunna er og hversvegna við höldum uppá hana. Ég ætla að leyfa þér að gera slíkt hið sama því þetta er ekki pistill um tilgang helgidaga. Hér er þó um mánudagsfrí að ræða sem er talsvert betra en fimmtudagsfríin. Hvítasunnuhelgin er einnig oft kölluð fyrsta ferðahelgi sumarsins, þetta staðfesti vísindavefurinn fyrir mér í leit minni að tilgangi hvítasunnunnar“Nú á dögum hefur hvítasunnan misst mikið af heilagleika sínum í huga fólks og er orðin að langri helgi og fyrstu ferðahelgi ársins ef vel viðrar.” Við lifum í von um að gott veður sé hvítasunnuhelgina, ef svo er þá tekur 1-2 tíma að komast út úr höfuðborginni seinnipartinn vegna fækkun úr tveimur akreinum í eina í gegnum Mosfellsbæ, en ef illa viðrar þá tekur það ekki nema 30 mínútur.

Þetta eru þeir sex dagar sem ég myndi velja að frelsa. Jólin eru haldin hátíðlegri en páskar svo ég myndi ekkert hrófla við þeim. Við tökum flest þátt í jólaboðum ennþá, jafnvel á jóladag og annan í jólum. Æ fleiri leggja þó land undir fót og skoða heiminn um jólin. 

Ferðalög verða ódýrari
Breytingar sem þessar myndu gera ferðalög ódýrari fyrir fólk og gera fleirum kleift að ferðast í fríinu. Umframeftirspurn á ákveðnum tímum yrði sennilega enn til staðar, en hún væri minni og ófyrirsjáanlegri. Hægt væri að skipuleggja áfangastaðinn út frá fjárhagi og áhuga – en ekki bara finna það sem er ódýrast um páskana. Kannski vill fjölskyldan fara saman og fagna stórafmæli í febrúar. Þá gætu allir tekið páskafrí, uppstignignardag og jafnvel haldið sumardaginn fyrsta heilagan í sólarlandi í febrúar – búið til 9 daga frí saman á góðu verði. Meira fyrir minna sagði einhver, ég ætla að leyfa mér að segja meira fyrir það sama.

Smáatriðin
Hvað með skólafrí, kaup á helgidögum og svo framvegis? Það er til fullt af fólki sem vill örugglega gagnrýna þessa hugmynd. Gott og blessað. Ef þessir auka orlofsdagar ættu að vera meira en dagdraumar um betra og skilvirkara líf þá er það sennilega ekki ég sem fæ að eiga lokaorðið í slíkum smáatriðum. Það verður verkefni fyrir 63 launaða einstaklinga við Austurvöll auk þeirra hundruða sem fá borgað fyrir að reyna að hafa áhrif á þá. 

Skólafríum yrði ekkert hróflað í mínum huga, það má alveg gera ráð fyrir því að fólk haldi páskana ennþá og svo framvegis og miða skólafrí við það. Varðandi kaup og kjör, þá myndi fólk í fullu starfi geta valið um frí þessa daga eða frí aðra daga, en hjá vaktavinnufólki er alveg hægt að horfa á þessa daga sem góða leið til að stækka budduna. 

En hvað með kennara, fá þeir þá bara ekki að velja? Auðvitað eru sumar starfsgreinar sem þyrftu að lúta áfram að páskafríi og svo framvegis. Það er því miður þannig að hlutirnir koma fólki stundum misvel. Það má þó ekki gleyma því að kennarar fá ansi langt sumarfrí nú þegar. Ég á þó erfitt með að sjá að tillögur um lengra orlof komi mörgum einstaklingum illa, þó það komi öðrum betur en sumum. Það verður að vera í lagi að breytingar henti stundum sumum betur en öðrum, annars yrðu engar breytingar ásættanlegar.

Hvað sem því líður, þá vona ég að þessir dagdraumar eigi sér stað í einhverri mynd, sem fyrst. 

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.