Eygló Harðardóttir

eftir Ritstjórn

Húsnæðis- og félagsmálaráðherra hefur á undanförnum árum verið á skjön við stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hún tilheyrir. Eygló hefur þannig haft aðra forgangsröðun þegar kemur að húsnæðismálum bróðurpart kjörtímabilsins en samstarfsmenn hennar í ríkisstjórn. Eftir klaufalegar tilraunir til þess að fá húsnæðisfrumvörp sín samþykkt tókst henni loksins að berja þau í gegn en þó í töluvert breyttri mynd.

Framganga hennar fyrri hluta kjörtímabilsins hefði mátt hringja ákveðnum viðvörunarbjöllum hjá forystu Framsóknarflokksins en hvorki Sigmundur Davíð né Sigurður Ingi báru gæfu til þess að skipta um ráðherra. Húsnæðis- og félagsmálaráðherra hefur því haldið ótrauð áfram í stjórnarandstöðu innan ríkisstjórnarinnar. Í sumar lýsti hún efasemdum um gagnsemi þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem hefur þó verið helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar þegar kemur að fjármálum hins opinbera. Í því samhengi segist Eygló hafa sett töluverða fyrirvara við ríkisfjármálaáætlun til fimm ára og vildi öllu heldur leggja meira fé í vaxta- og barnabætur.

Efnislega stórgallað hugarfar

Á Rómi hefur áður verið skrifað um húsnæðisfrumvörp Eyglóar og gallann á þeirri hugmynda- og aðferðafræði að vilja bótavæða almenning. Góð vísa er hins vegar aldrei of oft kveðin. Eins og fjármálaráðuneytið benti á í síðustu umferð af bótavæðingu Eyglóar er alls kostar óvíst hvort bæturnar skili tilætluðum árangri og hagfræðin bendir öllu frekar til þess að hækkanir bóta sem þessara renni beint í vasa leigusala, en nýtist ekki þeim sem eru verst staddir.

Þá er nauðsynlegt að benda á að þær upphæðir sem Íslendingar greiða á ári hverju í vaxtagjöld, í gegnum ríkið, eru áætluð 77,4 milljarðar á árinu 2016. Til samanburðar er áætluð fjárúthlutun til Landspítala um 50 milljarðar. Árleg vaxtagjöld eru því ríflega 50% hærri en framlög til Landspítala. Menn hljóta því að geta sammælst um að niðurgreiðsla skulda og tilheyrandi lækkun vaxtagjalda sé ein besta leiðin til þess að skapa varanlegt svigrúm til þess að auka aðstoð við þá sem minnst mega sín. Efnislega mælir því fátt með annarri ferð í bótarússíbana Eyglóar.

Maður getur ekki átt kökuna og borðað hana líka

Botninn sló þó algerlega úr í vikunni sem leið þegar Eygló steig skrefinu lengra og ákvað að greiða ríkisstjórninni ekki atkvæði sitt við afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar á þingi. Það má ekki rugla þessu saman við það þegar stjórnarþingmaður kýs gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, því óbreyttur þingmaður á ekki sæti í ríkisstjórninni. Hegðun Eyglóar samsvarar því að þingmaður greiði ekki frumvarpi atkvæði sitt, sem hann sjálfur leggur nafn sitt við sem meðflutningsmaður.

Nú er það svo að ráðherrar þurfa vissulega ekki alltaf að vera sammála og ólíkar skoðanir við afgreiðslu mála geta verið jákvæðar. Slíkur ágreiningur á fyrst og fremst heima innan ríkisstjórnarinnar, þó hann leiti stundum upp á yfirborðið. Það hlýtur hins vegar að teljast ótækt, hvar sem menn standa í stjórnmálum, að ráðherrar reyni eftir hentisemi að velja hvenær þeir ætli að vera hluti af ríkisstjórn og hvenær ekki.

Almennt hlýtur að þykja eðlilegt að ef að ráðherra í ríkisstjórn treystir sér ekki til þess að styðja ríkisstjórnina þá segi viðkomandi af sér. Ekki þarf að leita lengra en til Ögmundar Jónassonar sem sagði sig úr ríkisstjórn árið 2009 vegna Icesave málsins en einnig er hægt að benda til afsagnar Ian Duncan Smith sem sagði sig úr bresku ríkisstjórninni vegna niðurskurðar til örorkukerfisins þar í landi.

Ráðherraembætti er mikið ábyrgðarhlutverk. Ef fólk ætlar að taka að sér stjórn landsins verður að vera hægt að treysta því að það leiði mál til lykta og miðli málum, ekki bara í sínum eigin málum heldur einnig þegar kemur að öðrum málum ríkisstjórnarinnar. Það er í góðu lagi ef Eygló Harðardóttir ætlar sér að standa á sínu, hún getur bara ekki verið hluti af ríkisstjórn sem hún styður ekki, það er ekki ærlegt. Hún getur ekki átt kökuna og borðað hana líka.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.