Erum við á réttri leið með neyslustýrandi sköttum?

eftir Ritstjórn

Nú þegar nýtt ár er gengur í garð ætla margir að snúa við blaðinu, byrja að mæta í ræktina og taka matarræðið í gegn. Það er gömul saga og ný að ekki ná allir að standa við stóru orðin og fara aftur í sama gamla farið. Þó að viljinn sé til staðar í upphafi er ekki víst að allir nái að breyta sinni hegðun og neyslu um ókomna tíð.

Til þess að reyna að hjálpa að stuðla að heilsusamlegra líferni eru fjölmörg dæmi þess að hið opinbera nýti þau verkfæri sem það hefur t.d. með skattlagningu, ívilnunum, boðum og bönnum. Slíkum verkfærum er beitt hér á landi en í gegnum árin hefur verið mikið deilt um að hvort og að hve miklu leiti þeir séu æskilegir og hvort þeir skili í raun og veru árangri.

Neyslustýrandi skattar hafa einmitt verið töluvert í umræðunni í nýliðinni viku. Annars vegar kom það í ljós að hinn svokallaður sykurskattur sem var á sykruðum matvælum á árunum 2013-2015 hafði áhrif á neyslu gosdrykkja, þ.e. að fyrir hvert prósentustig sem verð á gosi hækkaði dróst neysla á gosi saman um 1%. Hins vegar var það 60% hækkun verði á neftóbaki núna um áramótin á meðan skattahækkanir á annað tóbak voru mikið lægri.

Hvar liggja mörkin?

Það má hins vegar velta því upp hvar mörkin liggja, það er hversu langt má hið opinbera ganga þegar það íhlutast um neyslu borgarans. Við því er ekki endilega eitt rétt svar, líta má á spurninguna frá mörgum sjónarhornum. Sé horft á neyslustýrandi skatta út frá lýðheilsu eru þeir rökrétt viðbrögð hins opinbera við vörum sem hafa neikvæð áhrif á heilsuna sé þeirra neytt í óhófi. Annað sjónarmið væri að sanngjarnt sé að þeir sem með hegðun sinni auka líkurnar á því að veikjast greiði meira.

Veikindum fylgir kostnaður fyrir þann veika sem og samfélagið. Samkvæmt þeirri röksemdafærslu væru hærri skattar á heilsuspillandi vörum einskonar tryggingagjald fyrir hið opinbera. Mótrök gegn því sjónarmiði eru þau að allir greiða skatta og greiði þannig fyrir sinn hluta í samneyslunni sem hið opinbera hefur ákveðið að bjóða upp á. Er þá rétt að hið opinbera leggi enn meiri kostnað á ákveðnar vörur, hafa þeir aðilar ekki nú þegar lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Þá er ólíklegt að hægt sé að telja upp með tæmandi talningu alla þá áhættuvalda sem geta valdið auknum kostnaði fyrir samfélagið vegna neikvæðra áhrifa þeirra. Hér á landi er jafnræðisreglan í hávegum höfð, það að taka aðeins fyrir ákveðnar vörur samræmist henni illa. Þá má einnig benda á það að við höfum rétt til þess að taka góðar ákvarðanir og slæmar ákvarðanir, það eru réttindi okkar, innan skynsamlegra marka laganna. Með neyslustýrandi sköttum er hið opinbera að hafa áhrif á ákvarðanatöku neytandans. En er það ekki neytandans að fá að taka sínar ákvarðanir sjálfur, og á hann að þurfa að bera þungan af því með hækkuðu vöruverði.

Við getum líklegast ekki dregið skýra línu um hvar mörkin liggja þegar það kemur að hlutverki hins opinbera til að stýra neyslu einstaklingsins. Forræðishyggja og frelsi mannsins til þess að taka eigin ákvarðanir fara illa saman. Það má því gera ráð fyrir að þetta verði enn eitt þrætuepli stjórnmálanna um ókomna tíð.