Eru nýliðnar kosningar í Bretlandi fyrirboði um það sem koma skal?

eftir Tryggvi Másson

Um miðjan apríl boðaði Theresa May óvænt til almennra þingkosninga þann 8. júní næstkomandi. Það kom flestum að óvörum því aðeins mánuði fyrr sagði aðstoðarmaður hennar skýrum orðum að það yrði ekki boðað til snemmbúinna þingkosninga. Fylgi Íhaldsflokksins hafði þá mælst í sögulegum hæðum og traust til May langt umfram fylgi flokksins. Helsti keppinautur þeirra, Verkamannaflokkurinn var í mikilli lægð og leiðtogi þeirra, Jeremy Corbyn alveg gífurlega óvinsæll meðal almennings.

Þannig skapaðist kjörið tækifæri fyrir May til að styrkja stöðu flokksins í forystu og fá með því ótvírætt umboð kjósenda til þess að leiða þjóðina áfram í gegnum Brexit. Allt bendir til þess að þetta hafi verið klókur leikur af hennar hálfu og gáfu nýliðnar sveita- og bæjarstjórnarkosningar ágæta vísbendingu um það sem koma skal þann 8. júní.

Síðastliðinn fimmtudag, 5. maí, voru kosningar til sveita- og bæjarstjórna víðsvegar um Bretland. Aðeins var kosið í 88 sveitar- og bæjarfélögum af þeim 314 sem eru í öllu landinu. Ólíkt því sem gerist hér á landi er aðeins kosið um hluta sveita- og bæjarfélaga hverju sinni og sitja kjörnir fulltrúar í 5 ár í senn. Þó slíkar kosningar séu í eðli sínu ólíkar þingkosningum þá voru úrslit kosninganna það afgerandi að erfitt mun reynast fyrir Verkamannaflokkinn og Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) að snúa vörn í sókn.

Íhaldsflokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna og bætti við sig 563 fulltrúum. Náði flokkurinn meirihluta í 28 sveita- og bæjarstjórnum sem eru 11 fleiri en fyrir þessar kosningar. Það verður að teljast óvenjulegt þar sem oft á tíðum er sitjandi ríkisstjórnarflokki refsað í sveitastjórnarkosningum, en ekki í þessu tilfelli.

Íhaldsflokkurinn sótti því verulega í sig veðrið í sveitarfélögum þar sem flokkurinn hefur legið lengi í dvala. Sem dæmi má nefna, Skotlandi þar sem flokkurinn jók fjölda fulltrúa um 164 sem er yfir tvöföldun á fjölda fulltrúa frá fyrra kjörtímabili. Til marks um þennan árangur er vert að nefna að Íhaldsflokkurinn náði kjöri í Copeland sem hefur verið vígi Verkamannaflokksins í yfir 80 ár. Flokkurinn getur álitið þetta sem gott veganesti fyrir komandi kosningar.

Verkamannaflokkurinn beið afhroð og tapaði 382 fulltrúum og meirihluta í 7 sveitastjórnum. Þá ber helst að nefna að flokkurinn tapaði meirihluta í Glasgow í fyrsta skipti í 40 ár.

Flokknum tókst þó að sigra bæði í Liverpool og Manchester sem verður að teljast ákveðinn varnarsigur miðað við flest önnur úrslit. Þar urðu Steve Rotherham (Liverpool) og Andy Burnham (Manchester) borgarstjórar. Þeir voru þó báðir vinsælir þingmenn Verkamannaflokksins og því þarf að fylla þeirra skarð með skömmum fyrirvara fyrir 8. júní.

Úrslitin gera Jeremy Corbyn enn valtari í sessi, þrátt fyrir vinsældir meðal flokksmanna þarf hann að snúa taflinu við ef hann ætlar að eiga sér framtíð sem leiðtogi flokksins.

Frjálslyndir Demókratar hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar Theresa May boðaði til þingkosninga. Þeir voru með skýra afstöðu gegn Brexit, ólíkt Íhalds- og Verkamannaflokknum, og vilja nú vera áfram hluti af innri markaði Evrópu þrátt fyrir útgönguna úr sambandinu.

Miðað við niðurstöðu sveita- og bæjarstjórnarkosninganna hefur flokkurinn ekki náð sér á strik en hann missti alls 43 fulltrúa. Frjálslyndir demókratar náðu þó að bæta við sig sætum í stærri þéttbýlum en mátti þola stór töp í strjálbýlli svæðum.

Þrátt fyrir að flokkurinn staðsetji sig mitt á milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins á hinu pólitíska rófi virðist hann ekki hafa náð að krafsa í Verkamannaflokkinn þrátt fyrir ófarir þeirra. Flokkurinn verður að halda í þá von að þingkosningarnar snúist fyrst og fremst um Brexit ef hann ætlar að eiga sér viðreisnar von.

UKIP tapaði öllum sínum sitjandi bæjar- og sveitastjórnarfulltrúum eða 146 talsins. Flokkurinn náði þó einum manni inn í Lancashire, þar sem hann hafði engan fyrir. Það var því aðeins einn fulltrúi frá UKIP sem náði kjöri í þessum kosningum.

Úrslitin eru verulegt áhyggjuefni fyrir flokkin í komandi þingkosningum en hann hefur misst öll vopn úr höndum sér eftir Brexit þjóðaratkvæðagreiðsluna. Flokksmenn telja flokkinn fórnarlamb eigin árangurs (Brexit) á meðan stjórnmálaskýrendur telja að Theresa May hafi náð kjósendum UKIP yfir í Íhaldsflokkinn með harðlínustefnu sinni í garð Brexit. Til marks um það hefur ein setning sem hún sagði á tröppum Downingstrætis 10, þegar hún boðaði til kosninga, að öllum líkindum verið ætluð UKIP kjósendum: ,,Það [Brexit] þýðir að við munum endurheimta stjórn yfir okkar eigin peningum, okkar eigin lögum og okkar eigin landamærum, ásamt því að við vera frjáls til samninga við gamla vini sem og nýja um allan heim.” (Lausleg þýðing)

Það verður að teljast áhugavert í ljósi þess að atkvæði UKIP frá fyrri kosningum komu ekki einungis frá Íhaldsflokknum heldur einnig Verkamannaflokknum. Ef marka má úrslit þessara kosninga þá hafa flest þeirra atkvæða endað hjá Íhaldsflokknum, til viðbótar við töluvert fylgi beint frá Verkamannaflokknum. Theresa May hefur því náð að breikka ásýnd flokks síns og koma sér vel fyrir sem álitlegum kost þvert á flokkslínur, með dyggri hjálp bitlausra leiðtoga hinna fyrrnefndu flokka.

Það virðist vera fátt sem geti stöðvað hennar vegferð núna þegar rétt tæpur mánuður er til kosninga. Þrátt fyrir að sveita- og bæjarstjórnarkosningar miðist að staðbundnum málefnum sem eru ótengt landsmálunum þá eru niðurstöðurnar vissulega sláandi og ættu að gefa ágæta vísbendingu um það sem koma skal ef minnihlutinn nær ekki vopnum sínum fyrir 8. júní.

 

 

 

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.