Erfiðir hveitibrauðsdagar

eftir Ritstjórn

Nú í vikunni birtist ný skoðanakönnunnsem sýnir að fylgi ríkisstjórinnar hefur dalað á sama tíma og Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur sótt í sig veðrið með svo miklu afli að flokkurinn mælist nú stærstur. Fylgi Viðreisnar fellur um rúmt prósent og Samfylkingin bætir við sig tæpu prósenti.

Tölurnar eru athyglisverðar en segja þó ekki sérlega mikið. Ljóst var frá því að ríkisstjórnin þriggja flokka var mynduð að ekki yrðu allir sáttir. Til dæmis fagna ekki allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórninni þar sem þeir hefðu heldur viljað íhaldssamari ríkisstjórn með Vinstri grænum.

Ljóst er að af hinum svokölluðu umbótasinnuðu flokkunum þá voru Vinstri grænir næst því að komast í ríkisstjórn og hafa þannig áhrif. Það er því ekki úr vegi að draga þá ályktun að nú strax eftir kosningar hafi mikið fylgi frá Pírötum fært sig yfir á þann stjórnarandstöðuflokk sem nýtur sterkustu stöðunnar.

Ekki er heldur hægt að segja að skoðanakönnunin sýni fram á óvinsældir með gjörðir ríkisstjórnarinnar þar sem afar skammt er liðið á kjörtímabilið. Einhverjir gætu sagt að af þeim málum sem lögð hafa verið fyrir þingið, þá séu þau mörg lítil eða tilgangslaus. En þá er gott að spyrja sig hvaða gríðarstóru breytinga kjósendur hafi kallað eftir í síðustu kosningum? Það er vonandi að þetta kjörtímabil verði rólegra en það síðasta, og að núverandi ríkisstjórn fari ekki að boða stór og kostnaðarsöm frumvörp líkt og gert var á síðasta kjörtímabili með leiðréttingunni.

Ríkisstjórnir hafa oft fengið betri hveitibrauðsdaga en þessi sem situr nú og ljóst er að óánægjufylgi er strax farið á hreyfingu. En þá er líka gott að rifja það upp að um mitt síðasta kjörtímabil mældust Píratar með nærri 40% fylgi. Fylgi sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum skilaði sér svo ekki í kosningunum. Nóg er eftir af kjörtímabilinu og á alþjóðavísu ríkir talsverður óróleiki. Kannski er betra að fara hægt í sakirnar.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.