Erdoğanismi

eftir Snorri Sigurðsson

Það er föstudagskvöld um miðjan júlímánuð síðastliðinn. Tyrkneskir hermenn loka brúm yfir Bosporussund í Istanbul, herþotur fljúga yfir höfuðborginni Ankara og skothvellir heyrast í myrkrinu. Hluti hersins hefur fengið nóg af ríkisstjórn landsins með Erdogan í fararbroddi og telur sig knúinn til að grípa inn í og steypa stjórnvöldum af stóli til varnar stjórnarskrá Tyrklands og lýðræði í landinu. Tilraunin sem slík er ekki umfjöllunarefni pistilsins heldur það sem leiddi til hennar og eftirmálarnir, sem engan endi virðast ætla að taka.

Einræðistilburðir

Recep Tayyip Erdogan komst til valda árið 2002, ári eftir að AKP flokkurinn var stofnaður. Næstu 11 ár var hann forsætisráðherra landsins og var síðan kosinn forseti Tyrklands í ágúst 2014. Áður en Erdogan tók við hafði forsetaembættið að mestu verið staða þjóðhöfðingja, svipað og við þekkjum hérlendis en það átti fljótt eftir að breytast. Hann hefur, sem forseti, ýtt undir breytingar á forsetaembættinu í átt til eiginlegra valda sem svipa um margt til einræðistilburða. Til að setja hlutina í samhengi er rétt að taka nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.

Árið 2013, þegar hann var enn forsætisráðherra, vakti það athygli heimsbyggðarinnar þegar Erdogan skipaði lögreglumönnum að ganga fram af gríðarlegri hörku gegn mótmælendum sem, til að byrja með, voru að mótmæla áætlaðri lokun almenningsgarðs . Fljótlega spruttu þó upp mótmæli um allt land gegn stjórn Erdogans, harðræðinu og stjórnarháttum hans. Á endanum tókst stjórnvöldum að berja niður mótmælin og hafði Erdogan orð á því eftir að allt var yfirstaðið að hann myndi eyða Twitter en mótmælendur notuðu samskiptamiðilinn til skipulagningar. Honum tókst að einhverju leyti ætlunarverk sitt en þegar á móti blæs lokar forsetinn fyrir samfélagsmiðilinn eins og raunin var í valdaráninu.

Stjórnarskrá Tyrklands tryggir trúfrelsi og þrátt fyrir að yfir 90% Tyrkja séu múslimar er þar engin ríkistrú. Andstæðingar Erdogans hafa þó bent á að hann gerði mislukkaða tilraun til að setja lög sem gerðu framhjáhald refsivert og að koma á svæðum þar sem áfengi væri bannað sem er augljóslega skref í átt til aukinna áhrifa Íslam.

Erdogan þóttu vistarverur sínar auk þess full lítilfjörlegar fyrir mann í hans stöðu og afréð því að ráðast í byggingu hallar á friðlýstu svæði í Ankara, sem hann sagði upphaflega að ætti að vera bústaður forsætisráðherrans.  Mánuði eftir að hann sjálfur varð forseti tilkynnti hann að höllin yrði forsetahöll eftir allt saman en kostnaður við byggingu hallarinnar er ráðgáta og neita tyrknesk stjórnvöld að gefa hann upp vegna þess að „upplýsingarnar gætu skaðað efnahag landsins.“ Fjölmörg dómsmál voru höfðuð til að stöðva framkvæmdirnar sem enduðu með því að höllin var dæmd „ólögleg.“  

Evrópumet

Mannréttindi í Tyrklandi eru vernduð af stjórnarskrá landsins, margskonar alþjóðlegum lögum, skuldbindingum og samningum en raunveruleg staða mannréttinda í Tyrklandi hefur vakið athygli og gagnrýni innanlands sem utan.

Sá samningur sem hvað flestir þekkja er Mannréttindasáttmáli Evrópu frá 1954. Tyrkland, er samningsaðili en viðurkenndi ekki lögsögu Mannréttindadómstóls Evrópu til að dæma í málum gegn ríkinu fyrr en árið 1990. Það hefur ekki komið í veg fyrir það að Tyrkland hafi ítrekað trónað á toppnum yfir flest brot árlega og sitja öruggir í efsta sæti með 2812 dóma þar sem ríkið hefur verið fundið sekt um a.m.k. eitt brot en auk þess bíða um 8250 mál gegn Tyrklandi eftir afgreiðslu hjá dómstólnum.

Hreinsunareldur Erdogans

Þrátt fyrir að um 300 manns hafi látist í valdaráninu er það jafnvel verra hvernig Erdogan hefur nýtt valdaránstilraunina til að auka enn frekar við völd sín og bola andstæðingum sínum í burtu. Örfáum dögum eftir valdaránið lýsti Erdogan yfir neyðarástandi sem vara á í að minnsta kosti 3 mánuði. Ef til vill er eðlilegt að lýsa yfir neyðarástandi en eftir yfirlýsingar Erdogans um endurvakningu dauðarefsingar eru margir uggandi að hann geti gert það einhliða án aðkomu þingsins.

Einhverjir hafa haldið því fram að Erdogan sjálfur hafi skipulagt valdaránið til að geta komið andstæðingum frá. Ég ætla ekki að dvelja við samsæriskenningar en staðreyndin er þó sú að á einungis viku var búið að fjarlægja tugi þúsinda ríkisstarfsmanna úr stöðum sínum. Hér er ekki verið að tala um einhver möppudýr heldur dómara, lögreglumenn, kennara og hátt setta meðlima hersins. Fjölmiðlar hafa verið sviptir starfsréttindum sínum og mörgum blaðamönnum bannað að starfa í Tyrklandi. Ljóst er að hreinsunin nær langt út fyrir þá sem eiga beinan þátt í valdaráninu og margt bendir til að þetta sé bara byrjunin. Blaðamenn eru hræddir við að tjá sig af ótta við að verða næstir í röðinni en forsetinn heldur því fram að lýðræðið hafi sigrað í Tyrklandi.

Aðgerðarleysi alþjóðasamfélagsins er eitthvað sem þarf að líta alvarlegum augum. Það að eitt af stærstu iðnríkjum heims, sem er í umsóknarferli að ganga í ESB, komist upp með að brjóta eins alvarlega á mannréttindum í nafni Erdoganisma án raunverulegra aðgerða er ekki í lagi.

Snorri Sigurðsson

Pistlahöfundur

Snorri er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var gjaldkeri Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í stjórn Vöku, sat í Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands auk þess að vera varamaður Vöku í Stúdentaráði. Skrif Snorra í Rómi snúa aðallega að lögfræði og öðru henni tengdu.