Erdogan og fasisminn í Tyrklandi

eftir Gestahöfundur

Tjáningarfrelsið hefur verið nefnt sem eitt af hornsteinum lýðræðis í þjóðfélaginu. Í frelsinu felst m.a. að fjölmiðlar og almenningur geti veitt ríkisvaldinu aðhald með hvers konar gagnrýni og jafnvel mótmælum. Hlutverk fjölmiðla er þannig gríðarlega mikilvægt og hefur verið talað um fjölmiðla sem varðhund almennings og fjórða valdið.

Fyrr á árinu fór þýski grínistinn Jan Böhmerman með ljóð í þýska sjónvarpinu þar sem hann gerði grín að forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan. Erdogan hefur sætt mikilli gagnrýni sl. ár, m.a. fyrir að brjóta gegn tjáningarfrelsi þegna sinna og fyrir óhóflega valdbeitingu gegn Kúrdum í Tyrklandi. Tilgangur ljóðsins sem Böhmerman fór með var að sýna muninn á því sem honum væri heimilt að segja og hvað honum væri ekki heimilt að segja, samkvæmt þýskum lögum.

Erdogan, sem er ekki þekktur fyrir að taka gagnrýni vel, fór fram að það við kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, að Böhmerman yrði ákærður á grundvelli forns ákvæðis sem felur í sér að óheimilt sé að móðga erlendan þjóðarleiðtoga. Það er skemmst frá því að segja að  ríkisstjórn Þýskalands féllst á að málið yrði rannsakað (þó einnig væri upplýst að ákvæðið yrði afnumið úr þýskum lögum). Í rökstuðningi Þýskalands kom fram að ljóð það sem grínistinn fór með hefði verið ,,viljandi meiðandi“ en grínistinn sagði m.a. að Erdogan hefði átt kynferðislegt samneyti við dýr og var það dæmi um það sem honum væri óheimilt að segja.

Þýsk yfirvöld hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir þessa ákvörðun og hefur hún verið tengd við samning Evrópusambandsins við Tyrki en Tyrkir hafa samþykkt að taka við þeim flóttamönnum sem leita til Evrópu héðan af. Bruno Kramm, leiðtogi þýska Pírataflokksins, sagði meðal annars að almenningur mætti búast við að tapa tjáningarfrelsi sínu ef stjórnvöld gerðu samninga við einræðisherra. Bruno var handtekinn í lok apríl fyrir að endurtaka línu úr ljóði Böhmermans á mótmælafundi vegna Böhmerman og var mótmælunum slitið af hálfu lögreglu.

Fasískir tilburðir

Erdogan varð forsætisráðherra Tyrklands árið 2003 og var svo kosinn forseti árið 2014. Frá því að hann tók við völdum í Tyrklandi hefur hann farið í mál við nær 2000 manns fyrir að móðga sig. Hefur hann m.a. stefnt manni fyrir að líkja sér við fyrrum hobbitann Gollum úr Hringadróttinssögu og konu fyrir að líka við færslu á Facebook  sem hann taldi fela í sér móðgun við hann. Þó þetta kunni að virðast hjákátlegt er þetta ekkert spaug.

Í mars sl. hótaði Erdogan æðsta dómstóli Tyrklands eftir að dómstólinn sleppti tveimur blaðamönnum, sem fjallað höfðu um vopnasölu tyrkneska ríkisins til uppreisnarmanna í Sýrlandi, úr varðhaldi. Voru skilaboðin á þá vegu að tilvist dómstólsins kynni að vera í hættu ef hann úrskurðaði með sama hætti aftur. Þýskur blaðamaður var handtekinn í fríi í Tyrklandi vegna Twitter-færslu sem fól í sér gagnrýni á Erdogan og tyrkneska sendiráðið í Hollandi sem átti að hafa hvatt Tyrki í Hollandi að tilkynna þá sem móðga Tyrkland eða Erdogan til sendiráðsins þar í landi. Að lokum hafa svo tyrknesk stjórnvöld iðulega lokað á samfélagsmiðla, svo sem Twitter, til þess eins að hafa áhrif og afvegaleiða fjölmiðlaumfjöllun í landinu, til að mynda var allur fréttaflutningur af sprengjuárás á friðargöngu til stuðnings Kúrdum í Ankara seinasta sumar ritskoðaður.

Tyrkland á hraðri leið í ESB?

Það er ekkert launungamál að Erdogan hefur leitast við að styrkja embætti forseta Tyrklands eftir að hann tók við völdum og lét forsætisráðherra Tyrklands m.a. af störfum á dögunum vegna þessa. Það sem staðið hefur í vegi fyrir fyrirætlunum Erdogan er sterk stjórnarandstaða á tyrkneska þinginu þar sem hann hefur ekki lengur þingmeirihluta en síðasta sumar vann flokkur Kúrda í Tyrklandi ákveðinn kosningasigur. Í vikunni var hins vegar samþykkt á tyrkneska þinginu að svipta suma þingmenn þinghelgi sinni vegna stuðnings þeirra við réttindabaráttu Kúrda. Á fjöldi tyrkneska þingmanna því nú hættu á ákæru fyrir þann stuðning sinn.

Tjáningarfrelsi þegna Tyrklands og að því er virðist þegna annarra ríkja á því heldur betur undir högg að sækja og virðist Tyrkland á hraðleið með að gerast fasistaríki í Evrópu en Evrópusambandið hefur samþykkt að flýta ESB-umsókn þeirra og að Tyrkjum verði heimilt að ferðast til aðildarríkja ESB nú í sumar án vegabréfsáritunar, í skiptum fyrir flóttamannasamninginn.

Þegar allt hér að ofan er lagt saman er nánast galið að sjá fyrir sér að ESB skuli hreinlega taka það í mál að Tyrklandi eigi möguleika á inngöngu í Evrópusambandið. Ógnarstjórnun, harðræði, ritskoðun á fjölmiðlum og veruleg kúgun gagnvart stórum hópi Kúrda er eitthvað sem evrópusamruninn á ekki að snúast um. Virðist Tyrkjum því vera veittur umtalsverður afsláttur af þeim skilyrðum sem ríki ESB verða að uppfylla hvað varðar mannréttindi og tjáningarfrelsi.

Nú er bara að vona að útsendarar Erdogan forseta lesi ekki þennan pistil.

 

12376156_10207880831719901_8622509622938471540_nHöfundur: Jóhann Már Helgason. Jóhann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og starfar í dag hjá Knattspyrnufélaginu Val sem framkvæmdastjóri félagsins. Áður fyrr starfaði Jóhann hjá Ungmennafélaginu Aftueldingu og Creditinfo á Íslandi. Á háskólaárunum var Jóhann virkur í starfi Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta þar sem hann sat m.a. í Stúdentaráði og gegndi m.a. stöðu framkvæmdastjóra Stúdentaráðs. Skrif Jóhanns á Rómi munu almennt beinast að málefnum líðandi stundar sem og stjórnmálum, innlendum sem erlendum.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.