Er þetta svona leiðinlegt?

eftir Steinar Ingi Kolbeins

Ég er menntaskólanemi og sit í stjórn Heimdallar, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég flæktist inn í þetta starf þegar tveir efnilegir ungir menn hringdu í mig og buðu mér á fund. Þetta þótt mér undarlegt þar sem ég náði átján ára aldri aðeins tveimur dögum áður en þeir höfðu samband við mig. Ég var í vafa hvort þeir væru að leita eftir mínum persónulegu kostum eða hvort einungis væri um að ræða stefnu hjá flokknum sem fælist í að hafa samband við ungt fólk sem hefði nýlega náð sjálfræðisaldri.
Ég var á þessum tíma hrikalega skeptískur á allt sem kallaðist pólitík og hvað þá ungmennastarf í pólitík. Þegar ég heyrði um ungmennastarf flokkanna sá ég fyrir mér svona 10-15 manna klúbb sem hittist á tveggja vikna fresti og kvartaði. Ég sá fyrir mér hóp af leiðinlegu fólki sem hittist og talaði um leiðinlega hluti. Ég ákvað samt að kíkja á þessa menn sem hringdu í mig enda gaman fyrir ungan framapotara eins og mig að vera boðaður á „fund“. Ég hitti þessa stráka og það kom mér satt best að segja á óvart að þeir voru ekki skrítnir og hreint ekki leiðinlegir. Ég sló til og fór í framboð með þeim, var kosinn í stjórn og hef verið að snáðast í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins síðan.

Hvar er umræðan?

Það sem hefur komið mér mest á óvart eftir að ég byrjaði í þessu starfi er ört vaxandi áhugi minn á pólitík en þessi áhugi var svo sannarlega ekki til staðar áður en ég fór og hitti þessa stráka sem höfðu samband við mig en þetta voru núverandi formaður og framkvæmdastjóri Heimdallar.
Fyrir þennan atburð hafði ég aldrei þurft að móta mér skoðun á pólitík því það var engin stjórnmálaumræða í kringum mig. Í þau fáu skipti sem ég heyrði umræðu um pólitík var hún langt frá því að vera málefnaleg og ég er ekki sá eini sem hefur þessa upplifun. Það virðist því miður vera að staðan sé sú að hinn almenni menntaskólanemi veit fátt um pólitík. Við fáum kosningarétt þegar við erum hálfnuð með menntaskólann og margir hverjir vita ekki einu sinni hvað „hægri“ og „vinstri“ merkir á stjórnmálaskalanum. Hvers vegna er þetta svona? Hvers vegna hefur ekki einn einasti stjórnmálaflokkur komið upp í skóla á allri minni menntaskólagöngu til að kynna sitt starf og stefnu. Hvar er umræðan í menntaskólunum?

Hversvegna er þetta leiðinlegt?

Það liggur ljóst fyrir að menntaskólanemar fá enga fræðslu frá flokkunum. Það er lítil sem engin umræða hjá unglingum og fyrir þá sem búa ekki á heimilum þar sem stjórnmál eru rædd stendur veraldarvefurinn eftir sem eini augljósi staðurinn þar sem menntaskólanemar verða vitni að pólitískum umræðum.
Það þarf ekki að vera sálfræðingur né félagsfræðingur til að sjá að pólitísk umræða á netinu, hvort sem er á facebook eða kommentakerfum, er oftast ekki á jákvæðum nótum. Umræðan á netinu er almennt ekki málefnaleg, ekki fræðandi og umfram allt ekki skemmtileg. Þar er algengt að fara í manninn fremur heldur en málefnið og ber umræðan þess merki. Sem dæmi má nefna að ég get flett upp fjöldanum öllum af athugasemdum um að Vigdís Hauksdóttir sé í raun eðla í mannslíki en sjaldnast fæ ég að heyra rökfræðilega útskýringu á því máli. Því getum við hreinlega ekki gert ráð fyrir því að nokkur menntaskólanemi nenni að kynna sér pólitík þegar eina umræðan sem við sjáum er neikvæð og hundleiðinleg á netinu.

Opna umræðuna

Því spyr ég hvernig getum við virkjað ungt fólk í pólitík? Eins og virðist vera tískusetning hjá stjórnmálamönnum þessa dagana. Hvernig getum við spornað við þeirri þróun sem er að eiga sér stað núna? Þeirri þróun að ungt fólk mætir alltaf minna og minna á kjörstað. Við verðum að ná fyrr til ungmenna. Flokkarnir verða að fá að koma inn í skólana, kynna sitt starf og sína kosti. Við verðum að gefa unglingum kost á að mynda sér skoðun út frá málefnalegum umræðum og kynningum en ekki bara út frá leiðinlegri og ómálefnalegri umræðu netheima.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Steinar Ingi Kolbeins

Pistlahöfundur

Steinar Ingi er nemi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Hann hefur á undanförnum árum gegnt ýmsum félagsstörfum samhliða námi. Hann var formaður nemendafélagsins í Menntaskólanum við Sund, sat í stjórn Heimdallar á árunum 2015-2018 og var í stjórn Vöku fls. árið 2017-2018. Almennar vangaveltur um hin ýmsu málefni samtímans eru meðal efnistaka Steinars í skrifum hans í Rómi.