Er það minn eða þinn líkaminn?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Fyrir einungis sex mánuðum síðan gekk ég í gegnum eina hörmulegustu reynslu lífs míns. Um var að ræða sársauka sem var verri en ég hafði nokkurn tímann upplifað. Þá hafði ég upplifað hann slæman mánaðarlega frá unglingsaldri en aldrei svo mikinn að ég stamaði ekki upp úr mér einu einasta orði, lamaðist úr verkjum og gafst upp á að halda aftur tárunum. Á þessari stundu fór margt um hugann á mér en mín allra sterkasta hugsun var: “Hvað gerði ég eignlega til þess að eiga þetta skilið!?”

Á þessum tímapunkti lá ég uppi á bekk hjá kvensjúkdómalækni mínum, með fótleggi glennta og einhverskonar málmtæki uppi í mínu náðugasta. Ástæða minnar heimsóknar var skipti á getnaðarvörnum. Ef ég ætti að reyna að lýsa betur þeim sársauka, sem fylgdi þessum skiptum, var þetta eins og sveðju hafi verið stungið upp í leggöngin á mér og keyrt svo harkalega og blygðunarlaust gegnum leghálsinn. Ferlið var svo endurtekið þar til ég missti vitið af sársauka eða þar til getnaðarvörninni hafði verið komið fyrir á réttum stað. Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum þetta var ég þó a.m.k. komin á getnaðarvörn sem er 99.9% örugg. Það þýðir að fræðilega gæti ein af hverjum 1.000 konum á þessari getnaðarvörn orðið ólétt. Raunin er hins vegar sú að almennt verða fleiri kvenmenn, sem nota getnaðarvarnir rétt og reglulega, óléttir ef litið er á allar þær varnir sem völ er á. Það er því enn einhver möguleiki á því að þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum fyrrnefnda reynslu til þess að vera örugg gegn getnaði er enn möguleiki á því að ég verði ólétt.

Rétt eins og í flestum nútíma samfélögum eru fóstureyðingar leyfðar á Íslandi. Ef ég væri því ein af þeim, sem yrði þrátt fyrir allt saman ólétt, hefði ég möguleika á að nýta mér þann valkost væri ég ekki í stöðu til þess að eignast barn. Á Íslandi hafa kvenmenn rétt á að fara í fóstureyðingu fram að 16. viku meðgöngutímans en hún skal helst framkvæmd fyrir lok 12. viku. Fóstureyðingar eru þá leyfilegar vegna mismunandi félagslegra- og læknisfræðilegra ástæðna. Með slíkri löggjöf gefum við kvenmönnum á landinu vald yfir eigin líkömum. Við leyfum þeim að taka sjálfar ákvörðun um eigin örlög í stað þess að kúga þær með löggjöf sem bannar fóstureyðingar eins og hefði geta orðið að raunveruleika í Póllandi á dögunum.

Síðastliðin mánudag fóru fram fjölmenn mótmæli í Póllandi. Konur í landinu kröfðust þar réttinda yfir líkama sínum er þær mótmæltu frumvarpi til laga um enn frekari herðingar á fóstureyðingarlögum í landinu. Nú þegar eru lög varðandi fóstureyðingar í Póllandi ströng og segja til um að kona megi einungis ganga undir fóstureyðingu sé um þungun að ræða vegna nauðgunar eða sifjaspells, sé fóstrið verulega skaddað eða ef konan er í líshættu. Verði því pólskar konur fyrir óvelkomnum getnaði gætu þær þurft að leita sér hjálpar utan landsteinanna eða nýta sér ólöglega þjónustu. Það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina að hert lög hafi ekki áhrif á þann fjölda kvenna sem fara í fóstureyðingu. Hitt þó heldur fylgi þeim frekar heilsusamleg vandamál þegar þær nýta sér ólöglega þjónustu. Hefði nýtt frumvarp því verið samþykkt ætti hver sú kona í Póllandi, sem færi í fóstureyðingu, ekki einungis yfir höfði sér 5 ára fangelsisvist heldur yrði öryggi og heilsu hennar verulega ógnað.

Nú eru fóstureyðingar bannaðar með öllu í tveimur löndum innan Evrópu: í Vatíkaninu og Möltu. Á sama tíma er réttur kvenna á fóstureyðingu mjög takmarkaður í löndum eins og San Marino, Monaco, Andorra, Írlandi og Lichtenstein. Öll þessi lönd eiga það sameiginlegt að yfir 75% af þjóðinni tilheyrir kaþólsku kirkjunni og á það sama við um Pólland. Í kaþólskri trú eru fóstureyðingar fordæmar og hefur sú afstaða ekki breyst eftir að hinn frjálslyndi Frans páfi settist í trúarleiðtogastólinn. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég ber virðingu fyrir skoðunum og trúarbrögðum annarra, það eru þeirra persónulegu mál. Að sama skapi er líkami einstaklings hans persónulega mál og ég hef engan skilning gagnvart því að ákveðnir aðilar, hvort sem það sé vegna sinnar trúar eða samfélagslegrar stöðu, taki ákvarðanir fyrir konur um það hvað þær mega eða mega ekki gera við sinn eigin líkama. Lendi því kona í óvelkomnum getnaði skal það hennar ákvörðun og einungis hennar hvort hún heldur fóstri eða ekki.

Ég hef fullkomið frelsi til þess að ákveða hvað ég geri við minn líkama. Ég lá því inni hjá lækninum mínum þennan daginn vegna þess að ég valdi persónulega að byrja á viðkomandi getnaðarvörn. Kannski átti ég því þennan blessaða sársauka skilið eftir allt saman. En þrátt fyrir að líkurnar séu afar takmarkaðar á því að ég geti orðið ólétt er það mér óhugsandi ef valið væri á endanum ekki í mínum höndum um það hvort ég myndi halda fóstri eða ekki. Það er því ótrúlegt að frumvarp eins og það sem sást í Póllandi skuli skjóta upp kollinum nú á 21. öldinni. Okkur til mikils léttis var frumvarpið þó fellt á þingi og við skulum vona að næstu breytingar á löggjöf um fóstureyðingar sem munu sjást í nútímalegu samfélagi muni snúast að frekari frelsi einstaklingsins en öfugt. Er jú ekki kominn tími til að við hættum að reyna að ráðskast með líkama annarra og berum virðingu fyrir þeim ákvörðunum sem fólk kann að taka um líf sitt og sig sjálft?

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.