Er myntráð tálsýn?

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Eitt af því ánægjulega sem framboð Viðreisnar hafði í för með sér var að mínu viti það að peningastefna Íslands komst hressilega í umræðuna. Viðreisn benti á nýja leið fyrir Íslendinga, leið sem öðrum stjórnmálaflokkum virðast annaðhvort ekki hafa dottið í hug eða ekki hugnast. Bent var á marga vankanta íslensku krónunnar á borð við hátt vaxtastig, óstöðuleika, verðtryggingu og loks gjaldeyrishöft. Allt þetta mátti samkvæmt þeim laga með einu pennastriki eða með myntráði.

Þessi lausn er sjálfu sér ekkert ný af nálinni þó hún sé það vissulega fyrir Íslendinga. Gengi krónunnar er fest við gengi evrunnar og í kjölfarið lækka vextir og verðbólga hjaðnar. Líklega er þetta rétt hjá Viðreisn enda er ég að mörgu leyti sammála þeim um þá galla sem fylgja íslensku krónunni. Þrátt fyrir það tel ég þetta kosningaloforð Viðreisnar vera tálsýn og þau ættu að vita það manna best. Bent hefur verið á tengsl Viðreisnar við Samtök atvinnulífsins og vitnað hefur verið í Þorstein Víglundsson á tímum verkfalla og kjarasamninga. Nýkjörnir þingmenn Viðreisnar ættu að vita mæta vel hvernig staðið er að kjarasamningum og þau vandamál sem blasa við í kjaramálum í náinni framtíð.

Friður og sátt á vinnumarkaðinum er lykilþáttur í því að kosningaloforð Viðreisnar um myntráð gangi upp. Í myntráði eða fastgengisstefnu almennt mynda óhóflegir kjarasamningar verðbólguþrýsting og þrýsta á Seðlabanka að fella gengið. Litlar kjarahækkanir t.d. um 1-2% gætu allt eins sett mikinn þrýsting á peningastefnuna.  Sátt á vinnumarkaði þýðir að allar starfsstéttir séu sáttar við sín kjör í samhengi við aðrar. Hvernig hyggjast þingmenn Viðreisnar segja við kennara og aðrar stéttir: „Þetta eru launin sem eru í boði, næstu áratugi.“

Það gæti verið að þetta sé mögulegt en ég held að Viðreisn ætti að horfast í augu við þá staðreynd að myntráð er flóknara en eitt pennastrik. Þar að auki mætti segja að myntráð sé tilraun og Íslendingar tilraunadýrið. Ef þessi tilraun mistekst yrði það gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Íslendinga og sömuleiðis væri þá allur trúverðugleiki fyrir fastgengisstefnu í náinni framtíð glataður.