Er myntráð lausnin eða kosningatrikk?

eftir Ritstjórn

Íslenska krónan hefur sína kosti og snúa þeir allir að möguleika þess að ráðskast með styrkleika hennar ef í harðbakkann slær. Þannig gerði gengisfellingin eftir hrun efnahaginum kleift að ná sér á mettíma, sér í lagi vegna þess að útflutningsgreinarnar fengu helmingi meira fyrir vöru sína en fyrir gengisfellingu. En þessi eiginleiki er vandmeðfarinn og snúa gallar krónunnar einmitt að honum ásamt smæð gjaldmiðilsins, sem gerir utanaðkomandi aðilum einnig kleift að spila með gengið.

Það versta við þann eiginleika krónunnar að hægt sé að handstýra henni, er þó möguleiki stjórnmálamanna að hygla ákveðnum atvinnugreinum með gengisfellingu, prenta peninga, breiða yfir eigið ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum og rýra verðgildi gjaldmiðilsins eftir eigin höfði. Allt á kostnað almennings.

Þessir eiginleikar, gengisstýringar og smæð gjaldmiðlisins, hafa valdið því að krónan er sögulega einhver óstöðugasti gjaldmiðill heims þegar litið er til lengri tíma. Óstöðugleiki er martröð nær allra aðila hagkerfisins (nema stjórnarandstöðu hvers tíma) og dregur gífurlega úr möguleikum fólks og fyrirtækja að gera langtímaplön, svo sem fjárfestingar, sem dregur úr hagvexti og lífsgæðaaukningu til langs tíma.

Helsta hagsmunamál Íslendinga

Viðreisn hefur sett gjaldmiðlamál á oddinn og á hrós skilið fyrir það. Þó sveigjanleiki krónunnar hafi oft hjálpað hefur hann jafnoft skemmt fyrir, og stefnir gengi krónunnar nú aftur í vandræði. Tillaga Viðreisnar hefur verið að koma á fót svonefndu myntráði.

Hingað til hafa aðeins tveir kostir verið til umræðu. Annars vegar óbreyttar aðstæður, þar sem stöðugleiki skal tryggður með handstýringu á örgjaldmiðlinum okkar og skynsamlegri efnahagsstjórn. Óþarfi er að fara í málalengingar að þessu sinni um hið fyrrnefnda en það síðarnefnda verður óljósara með hverjum deginum. Í fyrsta lagi hafa ríkisútgjöld blásið út og kjarasamningar liðinna ára flokkast engan veginn undir skynsamlega efnahagsstjórn. Í annan stað er í kosningabaráttunni keppst um að ætla að eyða sem mestum fjármunum fólks í þessu landi. Þannig er ekki litið á fólk sem sjálfstæða einstaklinga, heldur fjárhirslur sem hægt er að ganga í þar til allir tekjustofnar eru þurrausa. „Sækja tekjurnar“, er sagt – eins og það sé skylda stjórnmálaflokkanna að taka eins mikið og hægt er af fólki og sinna svo allri þeirri þjónustu sem einstaklingar geta sjálfir sinnt, fyrir peningana sem eru teknir af þeim. Ef slíkt viðhorf á að viðgangast eru hverfandi líkur á að hér verði stöðug hagstjórn til frambúðar.

Hinn kosturinn hefur verið upptaka evrunnar með inngöngu í Evrópusambandið. Þeir sem telja að í dag sé hagsmunum Íslendinga betur varið inn í þeim samtökum en utan þeirra kjósa að horfa fram hjá allri umræðu á meginlandinu síðustu fimm ár. Það er í raun ótrúlegt að óánægjan sem ríkir um starfsemi ESB sé haldið fyrir utan fjölmiðlaumfjölllun hér á landi. Til að mynda er sambandið enn í fjármálakreppu, „The European debt crisissem er er nær jafnoki stjórnarkreppunnar sem ESB glímir einnig við (sjá: BREXIT).

Alþjóðasamstarf er af hinu góða og það má vel vera að eftir tíu til tuttugu ár verði búið að leysa vandamál ESB. En deginum ljósara er að um þessar mundir er ekki rétti tíminn til að ganga þar inn, og það verður að segjast óábyrgt að tala um að ESB sé í dag lausnin við vandamálum íslenska hagkerfisins.

Hvað er myntráð?

Myntráð er í raun mjög stíf fastgengisstefna. Gengi krónunnar er fest við annan gjaldmiðil og á að vera hægt að skipta á milli þessa gjaldmiðla í fastskorðuðum hlutföllum, ákveðnum með lagasetningu. Þannig mætti hugsa sér til dæmis að krónan yrði fest við dollara á genginu 130, og ríkið væri alltaf skuldbundið til að gera skiptin á genginu 130. Það hlutfall myndi aldrei sveiflast. Sveiflur krónunnar og annarra mynta væru þá eins og sveiflur þeirra við dollarann.

Grundvöllur slíkrar stefnu er lagaleg skuldbinding og risavaxinn gjaldeyrisforði svo alltaf sé hægt að skipta á gjaldmiðlunum.

Fastgengisstefna hefur sögulega ekki gengið vel á Íslandi, enda býður hún pólitískum afskiptum og sérhagsmunagæslu heim. Þrátt fyrir að í tilfelli myntráðs væri lagasetningar krafist til að breyta genginu, er ekki um að ræða óyfirstíganlega hindrun fyrir stjórnmálamenn til að sinna sínum sérhagsmunum, heldur þvert á móti mjög auðyfirstíganleg (eins og sýndi sig í Argentínu). Ef komið er í veg fyrir slík inngrip eru kostir myntráðs svo sannarlega til staðar: Meiri agi í hagstjórn og stöðugleiki. Gallarnir eru þó líka til staðar og vegur þar einnig þungt kostnaðarsamur gjaldeyrisforði og hættan á að valið sé vitlaust gengi.

Einhliða upptaka gjaldmiðils væri öllu betri kostur en myntráð. Þá væri algjörlega girt fyrir möguleika stjórnmálamanna að ráðskast með gengi gjaldmiðilsins og loksins væri hægt að snúa athyglinni að öðrum málefnum. Viðreisn telur það þó væntanlega ekki nægilega gott kosningamál. Myntráð er hins vegar nýmæli í umræðunni sem gerir það meira spennandi fyrir hinn almenna kjósanda.

Pawel Bartoszek snýr baki við sjálfum sér?

Um netheima hefur gengið könnun, svokallaður Kosningaviti, sem á að raða fólki á fylki stjórnmálaskoðana: Frá þjóðernis- til alþjóðahyggju, og frá félags- til markaðshyggju.

kosningavitinn

Svona kannanir eru svo sem ekki frásögu færandi, nema hvað að þessi uppstilling vekur upp spurningar. Þannig er erfitt að sjá að Samfylkingin sé markaðssinnaðri en Vinstri grænir, heldur þvert á móti ef litið er í gegnum stefnumálin þeirra. Samfylkingin virðist ætla að skattleggja allt til að gefa öllum peninga. Þá er einnig mjög undarlegt að sjá Vinstri græna ofar á alþjóðahyggjuskalanum en Sjálfstæðisflokkinn, þar sem sá síðarnefndi hefur alla jafnann barist fyrir auknu alþjóðlegu samstarfi, til að mynda í viðskiptamálum (EES) en sá fyrrnefndi hefur heldur viljað loka landamærunum í þeim efnum. Raunar snýst röðunin á lóðrétta ásinn fyrst og fremst um hvort ganga eigi inn í ESB eða ekki. Í því liggur að minnsta kosti munur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar í alþjóðamálum, og verður það að teljast þröngsýn nálgun á alþjóðahyggju. ESB eða ekki.

Síðan má deila um það hvers vegna Viðreisn er sett svona nálægt miðju á lárétta ásnum. Í raun er hann markaðssinnaðri flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn, sem sést í nálgun hins síðarnefnda á bæði landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Eða kannski ekki. Pawel Bartoszek, frambjóðandi Viðreisnar, deildi þessari mynd með rauðan hring í kringum Samfylkinguna, Pírata, Bjarta framtíð og Viðreisn. Í textanum sem fylgdi myndinni réttir hann fram höndina til vinstri flokkanna – að Viðreisn eigi meira sameiginlegt með þessum flokkum en öðrum vegna alþjóðasamstarfs. Eins og flestir vita hefur Pawel lengi vel verið einn helsti talsmaður persónufrelsis, markaðshyggju og skynsamlegra fjármála. Hann hefur til að mynda (nýlega) opinberlega gagnrýnt einokun ríkisfyrirtækisins Íslandspósts, skrifað mikið um afglæpavæðingu fíkniefna, talað gegn ráðstöfun skattfés til byggingu risavaxins íþróttaleikvangs, og svo framvegis. Og alltaf er innlegg hans gott og skemmtilegt.

Það er því áhugavert útspil hjá Pawel að flokka sig með þessum hætti með vinstri flokkunum. Þar er hann að vísa til samstarfs með flokkum sem hafa lofað tug, ef ekki hundruð milljarða útgjöldum úr vösum skattgreiðenda, sem verður að kallast u-beygja frá hans skoðunum. Það er spurning hvort hann hafi annað hvort gleymt hver afstaða hans er gagnvart flestum stefnumálum vinstri flokkanna, eða gleymt stefnumálum þeirra. Því til viðbótar er alsendar óvíst hvort þessir flokkar geti saman myndað ríkisstjórn. Björt framtíð er til að mynda nálægt því að verða að engu í framtíðinni ef marka má skoðanakannanir. Hann hefur kannski gleymt því líka.

Eitt stendur þó upp úr í myndinni sem Pawel deildi. Það er sú staðreynd að hann „gleymdi“ einnig að láta Íslensku þjóðfylkinguna fylgja með í kaupunum, en hún var klippt út. Það er vel og vonandi að það megi túlka sem svo, að Pawel útiloki samstarf Viðreisnar og þjóðfylkingarinnar. Þeirra stefnumál eru öllum afar skaðleg.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.