Er menntun virkilega máttur?

eftir Gestahöfundur


Eftir Odd Þórðarson.

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil bót í mennta- og menningarmálum á Íslandi. Æ fleiri sækja sér háskólamenntun og stúdents- eða iðnmenntunarpróf úr framhaldsskóla eru orðin sjálfsagður hlutur á ferilskrám ungs fólks. Þessi þróun er jákvæð. Umhverfi menntunar á Íslandi hefur stórbatnað og gæði námsleiða og kennslu hefur tekið stökk á síðustu áratugum.

Þó er þessi þróun ekki gallalaus. Aukin pressa er á grunnskólum landsins að skila frá sér ungum og frambærilegum námsmönnum, svo framhalds- og háskólar hafi góðan efnivið til þess að brautskrá verðmætaskapandi einstaklinga.

Kennarar nútímans eru margir hverjir of linir

Við heyrum oft alls kyns hryllingssögur úr fortíðinni, sagðar af foreldrum okkar eða foreldrum þeirra, um það hversu illkvittnir kennarar voru, hversu slæmt umhverfi menntunar var og hversu miklar kröfur voru gerðar til barnungra nemenda. Í þeim frásögnum var mannvonska kennara jafnvel algjör og buguðust nemendur undan kröfunum, sem til þeirra voru gerðar. Þó að þetta kunni að hljóma hræðilega fyrir börnum eða barnabörnum þeirra er sögurnar segja, sem oft eru á grunn- eða framhaldsskólaaldri, fylgja oft huggunarorð á borð við: „Það var nú aðferðum kerlingaruglunnar að þakka að maður lærði heima“ eða „hann var nú svo sem ágætur kennari, blessaður karlinn“.

Þó að ég vilji nú ekki hvetja til þess að kennarar fari að taka upp á aðferðum sem einkennast af ofbeldi, ofstopa eða hreinni mannvonsku, þá er margt hægt að læra af „gömlu góðu“ kennurunum.

Eljusemi er vænleg til velgengni

Vissulega þarf að mæta kröfum og þörfum hvers nemanda fyrir sig, ekki síst þörfum þeirra sem eru mjög hjálparþurfi, þó mega kennarar, sérstaklega á grunnskólastigi, ekki gefa of mikið eftir í kennsluháttum sínum. Þeir þurfa að vera örlítið hastir og harðir við nemendur sem skorta þroska til þess að skilja fylgni eljusemi og árangurs. Ef fram heldur sem horfir fara í gegnum menntakerfið einstaklingar sem skilja ekki gildi þess að leggja hart að sér. Það gæti rist sár í íslenskt atvinnulíf sem lengi verða að gróa.

Börnin okkar öðlast ekki lífsreynslu á eigin forsendum

Verandi tiltölulega nýkominn úr grunnskólakerfinu, hef ég séð þessa skelfilegu þróun myndast og festa sig í sessi. Ég hef fundið fyrir þeirri einkunnaverðbólgu sem eykst með ári hverju og séð hana skemma þau sambönd sem nemendur sjá á milli elju og velgengni annars vegar og leti og ófara hins vegar. Ungir nemendur eru dofnir fyrir þeim hnekkjum sem geta beðið þeirra leggi þeir ekki hart að sér.

Foreldrar, kennarar og aðrir sem standa þessum ungu nemendum næst, eiga það til að forðast að leyfa nemendunum að gera sín mannlegu, þroskandi mistök og læra af þeim. Auðvitað vita allir að ekki er hægt að leyfa ungum börnum að gera alvarleg mistök, sem skaða þau varanlega, bara svo þau geti lært að harka þau af sér. Til að mynda leyfði enginn með réttu ráði barninu sínu að stíga upp í bíl hjá ókunnugum, seint að kvöldi til, til þess eins að læra að gera það aldrei aftur. Þó er hægt að feta milliveginn milli þess að leyfa barninu sínu að gera hvaða mistök sem er, bæði í leik og starfi og þess, að leyfa engu að henda það og hindra þar með að barnið upplifi hluti og dragi lærdóm af þeim á heilbrigðan hátt. Það þarf ekki endilega að taka upp flengingar aftur til þess að börn læri sjálfsaga, þó má samt hafa kennsluaðferðir hinna gömlu góðu daga að leiðarljósi þegar reynt er að stemma stigu við einkunnaverðbólgudraugnum. Því í gömlu góðu sögunum frá gömlu góðu dögunum hafði það mun meira vægi að hafa lagt á sig við lærdóminn.

Oddur er nemi á nýmálabraut við Menntaskólann í  Reykjavík. Hann starfar sem vallarstarfsmaður hjá Golfklúbbi Reykjavíkur á sumrin og vinnur sem matsveinn með námi yfir veturinn. Hann hefur áhuga á samfélags- og stjórnmálum og ætlar sér að stunda nám við slík fræði seinna meir.