Er komin ný uppskrift að hamingju?

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Athugið: Eftirfarandi grein er ætluð sem hugvekja til skemmtunar. Ef þú, lesandi góður upplifir einkenni mikillar depurðar eða kvíða eins og svo margir, er besta ráðið alltaf að panta tíma hjá sálfræðingi eða geðlækni og vinna markvisst með sérfræðingum í átt að bata.

Það er ekkert leyndarmál að hamingjan hefur verið markaðsvædd eins og hvert annað fyrirbæri. Á Instagram og Facebook hrannast upp krúttleg og uppörvandi örskilaboð sem kunnugir og ókunnugir deila, en ef það dugar ekki þá get ég keypt mér hamingjuna samkvæmt flestum fyrirtækjum og verslunum. Ég get keypt mér nýjan sófa eða vasa eða eitthvað annað á heimilið, vegna þess að það að búa á ljótu heimili dregur jú úr hamingju. Ég get splæst í ný brjóst, látið sprauta í varirnar eða hrukkurnar, enda er ólíklegt að ég finni hamingjuna með venjuleg brjóst, þunnar varir og fýlusvipinn til fyrirstöðu. Seinast en ekki síst gæti ég keypt mér flugmiða til útlanda, kort í ræktina eða jóga, nýja hlaupaskó, íþróttaföt o.s.frv. Ég gæti vissulega bara hent í nokkrar æfingar heima á sokkaleistunum í gamla bolnum af kærastanum með fríum einkaþjálfara í formi Youtube myndbands, en það er óvíst að ég verði jafn hamingjusöm þannig. Með öðrum orðum, hamingjan, líkt og flest annað í mannlegri tilveru, er orðin að iðnaði. Í sögulegu ljósi hefur hins vegar uppskriftin að hamingju tekið ýmsum breytingum eftir ríkjandi tískubylgju hvers tíma, og ýmislegt sem bendir til þess að nú sé önnur stór breyting í vændum 

Að verða hamingjusamur á fyrri öldum: Frá því að elska drottinn sinn til „sigurs, gulls og gróða‟.

Höfundur spáir í stöðu mála á komandi öld þann 1. Janúar 1900 í Þjóðólfi

Leitin að hamingjunni eins og við þekkjum hana í dag er tiltölulega nýlegt fyrirbæri á Vesturlöndum, og komst ekki almennilega í gagnið fyrr en millistéttirnar byrjuðu að hagnast að viti eftir iðnbyltinguna. Á 18. öld átti hamingjan opinberlega að snúast bara um að elska sinn guð, þó má af textum dæma að almennt skipti miklu máli að hafa mat og þak fyrir sig og fjölskylduna, helst eiga jörð og hafa þokkalega góða heilsu og atvinnu, það að vera duglegur var einnig lykilatriði í hamingju. Að njóta virðingar innan samfélagsins og mennta sig var einnig eftirsóknarvert, enda var helmingur þjóðarinnar ólæs. Skemmtanir voru bannaðar og „iðjuleysi, ofát, ofdrykkja, útreiðir, ónytjurölt (sem var það að taka sér göngutúr til skemmtunar), dansleikir, ævintýralestur, taflleikir, spilaiðkun, hégómatal og önnur heiðingleg skemmtun” voru ekki við hæfi.

Þó skemmtanabanninu hafi verið aflétt á 19. öld var nokkurn megin sama stemning að því undanskyldu að rómantíska stefnan hóf innreið sína í íslenskt þjóðlíf, og þar með má segja að leitin að hamingjunni fengi loks að verða eins konar dyggð, en trúrækni og dugnaður þrátt fyrir hörmulegar aðstæður voru fyrir þann tíma hálfpartinn eina samfélagslega leyfða dyggðin. Menn ortu um ást sína á ættjörðinni og landslaginu, hinu kyninu og frelsinu. Það að verða sjálfstæður og öðrum óháður varð draumurinn og leiðin til þess var menntun og/eða jarðeign. Ekki veit ég til þess að nokkuð hafi verið skrifað sérstaklega um hvernig konur leituðu að hamingjunni út frá þessum gildum, enda voru þær með öllu ósjálfráða í laganna skilningi fram að miðri 19. öld. Giftar konur höfðu til dæmis engin fjárráð en þó fóru nokkrar framakonur í ljósmóðurnám til Köben. Það má því hugsa sér miðað við sögu einnar konu sem liggur í Hólavallakirkjugarði og kostaði ekki bara einn eiginmann, heldur tvo! í dómaraembætti, að hamingja kvenna hafi verið að miklu leyti bundin við framgang eiginmannsins. Á þessum tíma var móðursýki eða hystería víst landlægt vandamál og þá auðvitað helst á meðal kvenna.

Á 20. öld tvíefldust þessar hugmyndir um hvernig skyldi öðlast hamingju meðfram sjálfstæði og athafnafrelsi, bæði með sjálfstæði þjóðar og sjálfstæði kvenna, í kjölfar þess að þær urðu loks fullgildir meðlimir þjóðfélagsins í lagalegum skilningi. Mikilvægi þess að mennta sig fyrir framtíðar hamingju og hagsæld var alls ráðandi, enda mikil fátækt í landinu og menntun sem nú var mun fjölbreytilegri og aðgengilegri en áður var oft eina leiðin fyrir menn og konur til að bæta hlutskipti sitt. Sálfræði fór einnig að ryðja sér frekar til rúms hérlendis með stofnun Háskóla Íslands um aldamótin 1900. Ríkjandi straumar komu meðal annars frá William James Bandaríkjamanni sem hafði sjálfur glímt við þunglyndi, og talaði um ósjálfráð og sjálfráð viðbrögð, miðtaugakerfið og vitundarstreymi sem og hugtengsl. Það að sum viðbrögð okkar eru ósjálfráð og önnur lærð og það að við eigum til að rifja upp hluti sem tengjast því sem við hugsum um, ásamt því að við höfum að einhverju leyti áhrif á vitundarstreymið okkar. Samkvæmt James getum við tekið rökræna ákvörðun um að velja að vera hamingjusöm þrátt fyrir að vera meðvituð um hörmungar og óréttlæti í okkar daglegu lífi, og ef þér tækist það væri það eins og endurfæðing í hugsun þar sem þú myndir ná hærra og æðra plani. James aðgreindi einnig milli hins efnislega sjálfs, hins félagslega sjálf og hins andlega sjálfs í hugum og athöfnum manna. Einnig tók hann fyrir samspil meðvitundar og vanans, þ.e. þegar við komum okkur upp ávana gerum við það fyrst með að beina meðvitund okkar að verkinu. Því oftar sem við gerum þetta því minni meðvitundar krefst það og verkið verður ósjálfrátt. James talaði um að sá hugsunarháttur sem við venjum okkur á sé til kominn með sama hætti, hann er ávani. Sálgreining að hætti Sigmund Freud sem vissulega hafði náð fótfestu hérlendis, en einn helsti gagnrýnanda hans var Alfred Adler. Adler hafnaði bæði kynferðislegu- og líffræðilegu ákvörðunarhyggjustemningunni í kenningum Freuds. Samkvæmt Adler erum við ekki bara eilífðarfórnalömb þess sem kemur fyrir okkur heldur höfum við mikla stjórn á okkar eigin hugsunum og þar með hamingju og örlögum. Við erum sem sagt ekki aðgerðarlausir þátttakendur í eigin lífi heldur þvert á móti. Því þótt umhverfisþættir eins og fjölskylda, menning eða samfélagsstaða hafi áhrif mótun hugmynda okkar um okkur sjálf og heiminn, eru viðbrögð okkar við mótlæti sem og meðbyr lærð viðbrögð sem við beitum viljandi til að þjóna einhverju markmiði, veri það að bæta hlutskipti okkar eða hlífa okkur fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Í dag köllum við þetta bjargráð. Dæmi um jákvætt bjargráð er að leita stuðnings hjá góðum vini á erfiðum tímum, eða fara út að skokka. Að reyna að deyfa vanlíðan með klámi eða víni o.s.frv. eru dæmi um neikvæð bjargráð. Hvernig bjargráðum (eða huggun) við beitum andspænis erfiðum tilfinningum eða aðstæðum er lærð hegðun en það er líka hægt að aflæra neikvæð bjargráð og venja sig á jákvæð bjargráð. Það krefst bara ítrekaðar meðvitaðar ákvörðunartöku andspænis erfiðleikum til að það verði að vana.

Leitin að hamingjunni á 21. öldinni: Heilavísindi, loftlagsbreytingar og minímalismi

Það kemur því ekki á óvart að þjóð sem lengst af bjó við mikinn skort og lítil mannréttindi, sérstaklega í tilfelli kvenna, hafi lagt mikið upp úr efnislegum gæðum. Eðlilega blómstar neysluhagkerfið í kjölfar aukinnar velmegunar, og flestir ná að uppfylla þessi hamingjuskilyrði. En þrátt fyrir þessar kjarabætur hefur Íslendingum á þunglyndislyfjum til dæmis fjölgað, sem bendir til þess að leitin að hamingjunni muni þurfa að grundvallast á öðrum gildum en áður. Hér koma betri vísindi um starfsemi heilans og tengslin við hamingju til leiks, ásamt rísandi straumum í loftslagsmálum og neysluhyggju. Rannsóknir hérlendis sem og erlendis hafa ítrekað sýnt að eftir að við náum þeim launum sem duga fyrir mannsæmandi líf þ.e. erum tiltölulega örugg með að setja mat á borðið, klæða börnin okkar, taka sumarfrí og halda jólin, bæta hærri laun ekki miklu við. Þeir sem vinna í lottó og þeir sem lenda í alvarlegu slysi og lamast mælast ári síðar jafnhamingjusamir að meðaltali. Staðreyndin er sú við erum gríðarlega léleg í að staðsetja hamingjuna. Það er, við eigum það til að ofmeta neikvæð áhrif þess á hamingju að tapa peningum eða lenda í hremmingum t.d. starfsmissi eða heilsumissi, og ofmeta jákvæð áhrif þess á hamingju að hagnast, fá stöðuhækkun, breyta um útlit eða kaupa nýjan hlut. Þetta er af því að tilfinningar eru hverfullt fyrirbæri og hugsunarhátturinn okkar er vanabundin. Eftir því sem spennan líður venjumst við breytingunni eins og öllu öðru, og leitin hefst á ný.

Eðli málsins samkvæmt krefjast umhverfissjónarmið þess að við breytum neysluháttum okkar, enda eru þeir augljóslega ekki sjálfbærir. Þar af leiðandi eru gildi okkar um hvernig er rétt að lifa lífinu í neyslusamfélagi sennilega líka að breytast. Naumhyggja eða minimalsim sem er það að eiga bara það sem þarf eða veitir einstaka gleði hefur verið að sækja í sig veðrið, og merkilega nokk gengur hún þvert á efnishyggjuna. Minímalistar taka meðvitaða ákvörðun um að afþakka pressuna sem fylgir samanburðinum um flottustu vinnuna, fötin, bílinn, húsið eða fésið, og tileinka sér eins konar nægjusemislífstíl í staðinn. Sem er ekki einungis samverkandi með minna kolefnisfótspori heldur virðist einnig veita einhvers konar frelsun frá lífsgæðakapphlaupinu og tilheyrandi andlega ró. En hvernig stendur á þessu öllu saman!

Heilavísindi og hamingjan

Þeir James og Adler voru ásamt fjölmörgum öðrum merkum sálfræðingum 20. aldar sem ekki náðist að nefna hér, á rétta sporinu miðað við það sem við vitum í dag.

Heilinn er stórmerkilegt fyrirbæri á þann hátt að hann er alltaf í mótun, nýjar heilatengingar myndast, aðrar rýrna og þær sem fá mestu örvunina þykkna og verða að eins konar flýtileiðum hugsana. Þegar við lærum eitthvað nýtt notum við heilmikla athygli og orku, eftir því sem við lærum það betur verður það nánast ósjálfrátt. Verkið krefst mun minni athygli eða orku og viðbrögðin okkar verða sneggri. Athöfnin sem við lærðum verður að flýtileið eða ávana. Það sama og gerist með hugsunarhátt neikvæðan sem og jákvæðan, en báðir þjóna ákveðnum tilgangi. Einnig er mikilvægt að vita að tilfinningar stýra því hvernig minningar eru flokkaðar í heilanum, og tilfinningar móta það hvaða minning um fyrri reynslu er virkjuð þegar ný reynsla á sér stað. Þetta er dæmi um hugartengslin sem James nefndi en mikilvægi þessa er fólgið í því að við notum fyrri reynslu til að ákveða hvernig við eigum að bera okkur að í nýrri reynslu og því fljótari sem við erum að ákveða okkur, því líklegri erum við til að lifa af. Þetta er ástæðan fyrir af hverju við erum flest öll mjög fljót að rifja upp erfiðar eða vondar minningar, en þurfum að hugsa okkur um þegar við reynum að rifja upp jákvæðar og glaðlegar minningar. Það er hreinlega mikilvægara fyrir afkomu okkar að læra hratt og örugglega af neikvæðum reynslum en jákvæðum.

Til að lýsa því hvernig tilfinningalega hugarástandið okkar starfar í heilanum er oft talað um þrjú aðal heilasvæði; gamla heilann, tilfinningaheilann og svo meðvitaða heilann. Gamli heilinn er fullmótaður þegar við fæðumst og samsvarar sjálfsvarnarkerfinu okkar. Þegar okkur finnst við vera ógnað eða verðum hrædd virkist þessi hluti heilans og hið þekkta freeze, fight or flight kerfi fer af stað. Þegar fólk talar um að frjósa andspænis ofbeldi eða verða orðlaust vegna uppnáms erum við í freeze kerfinu. Reiði er svo sprottinn úr fight kerfinu sem afleiða af ótta, við skynjum ógnun, verðum hrædd og tökum ákvörðun um að berjast. Gamli heilinn virkir sympatíska taugakerfið sem eykur hjartslátt og blóðþrýsting, hægir á meltingu, losar svita og undirbýr líkamann fyrir átök. Þetta gerir hann meðal annars með því að aftengja boð í gegnum vagustaugina sem er samskiptarásin milli heilans og innyflanna okkar eins og hjarta, lungna, maga o.s.frv.

Tilfinningaheilinn mótast svo á unglingsárunum og geymir það heilataugakerfi sem dópamín- eða verðlaunakerfið samanstendur af og hvetur okkur til að eltast við það sem virkir kerfið og verðlaunar okkur. Veri það súkkulaði, kynlíf, ást eða félagslegir sigrar eins og aðdáun eða samþykki félagslega heimsins okkar. Verðlaunakerfið er ótrúlega næmt á skilyrðingar (conditioning) í menningunni, eða þær „leikreglur‟ sem umhverfið kennir okkur að séu verðlaunandi, en við jafnvel skrásetjum upplýsingarnar ómeðvitað. Þetta er ástæðan fyrir af hverju duldar auglýsingar eru vinsælar. Þótt þú veitir þeim ekki meðvitaða athygli þá nemur verðlaunakerfið þitt skilaboðin. Annað dæmi er tengingin á milli kláms og kynlífs en það sem er í tísku í klámi á það til að detta í tísku í kynlífi, t.d. kynfærarakstur, endaþarmsmök, eða bara fá sér sílíkon, en því miður einnig niðurlægjandi eða ofbeldisfullt kynlíf, sé ekkert annað til ögra þeirri verðlaunatengingu. En hin hliðin á peningnum er að þó verðlaunakerfið sé þekkt fyrir að veita okkur sælu, getur mikil og stöðug virkjun líka valdið miklum kvíða sem keyrir okkur til aðgerða sem létta á kvíðanum. Hér koma neikvæðu bjargráðin til sögunnar og hvernig þau verða stundum að áráttu- og þráhyggjuhegðun eða fíkn. Þegar tilfinningaheilinn virkjast af möguleikanum á því að fá ákveðna gulrót eða verðlaun, eigum við það til að upplifa eftirvæntingu, löngun, jafnvel tómleika, eirðarleysi og ófullkomleika. Ef við fáum verðlaunin upplifum við sigur- eða sæluvímu í einhverja stund á meðan verðlaunakerfið afvirkjast hægt og rólega og við þurfum aftur gulrót. Þegar við lifum stöðugt í hugarástandi tilfinningaheilans verðum við oft svo uppnumin af gulrótunum í lífi okkar að við festumst í að upplifa lífið í eins konar rörsýn. Við bara verðum að eignast hlutinn, fá þessa stöðuhækkun eða starf, eða breyta líkama okkar af því annars verðum við aldrei almennilega hamingjusöm. Gamli heilinn og tilfinningaheilinn vinna saman, og starfsemi þeirra sem og samstarf er að miklu leyti ómeðvitað eins og virkjun sympatíska taugakerfisins, sem þýðir líka að það gerist hratt. Fólk þekkir það að þegar eitthvað ræsir óþægilegu hugsanirnar, t.d. sjálfsefann og óöryggið er eins og pirringurinn eða vanlíðanin hellist yfir mann á sekúndubroti.

Text Box: Fréttamiðlanir passa að upplýsa okkur um hvað skiptir máli í samfélaginu, eins og sést á fyrirsögnum á mbl.is þann 17. mars
Fyrirsagnir á mbl.is þann 17. mars

Meðvitaði heilinn mótast ekki að fullu fyrr en seint á þrítugsaldrinum og samanstendur af starfsemi framheilabörksins, en hann hýsir getu okkar til meðvitaðrar stjórnar og stýrifærni, t.d. það að plana eitthvað eða einbeita sér þrátt fyrir utanaðkomandi áreiti, en einnig getu okkar til samkenndar, samúðar og fórnfýsi eða óeigingirni. Þessi hluti heilans er miðstöð rökrænnar hugsunar og undir okkar stjórn, þ.e. við virkjum þennan hluta meðvitað þegar við tökum ígrundaðar ákvarðanir um áreiti í umhverfinu okkar eða hugsum til baka um þekkingu sem við búum yfir og endurflokkum hana, hann er fyrir vikið orkufrekastur. Starfsemi meðvitaða heilans, öfugt við gamla- og tilfinningaheilann, er tengd parasympatíska taugakerfinu. Það er kerfið sem virkist þegar við erum í hvíld eða ró og hægir á hjartslætti og lækkar blóðþrýsting. En meðfram parasympatíska taugakerfinu er samstarf milli meðvitaða heilans og vagustaugarinnar. En vagustauginn spilar hlutverk í samböndum og samskiptum með því að veita skynjun á vinalegum tjáningarmerkjum eins og brosi, vinarlegum tón, eða umhyggjusömum hreyfingum eða merkjum sérstaka athygli og forgang. Hugarástand þeirra sem einkennist af mikilli virkjun gamla- og tilfinningaheilans túlkar stundum félagsleg samskipti neikvæðari en ella vegna þess að þeir skynja síður tjáskipti sem vinaleg með aftengda vagustaug.

Allt atferli sem örvar vagustaugina virkjar parasympatískakerfið og losar oxýtósin, hið alræmda knús-, kúr- og ástarhormón. Oxýtósin stemmir meðal annars af áhrif streituhórmónsins cortísól, sem útskýrir af hverju það að fá gott og innilegt knús frá ástvini gefur svona ylhýra tilfinningu þegar við erum stressuð. Með því að virkja meðvitaða heilann getum við örvað vagustaugina og parasympatíska kerfið og þannig aukið getu okkar til að sporna gegn slæmum áhrifum ofvirks gamla- og tilfinningaheila, sem og veitt streituvaldandi áreiti meira viðnám. Við getum líka þjálfað upp meðvitaða heilann eins og vöðva, og þannig breytt flýtileiðunum í heilanum svo að hugarástand sem einkennist af gamla heilanum og tilfinningaheilanum virkist ekki sjálfkrafa án þess að meðvitaði heilinn taki ígrundaða ákvörðun um það. Með öðrum orðum þú næðir að viðhalda ró þinni og vellíðan jafnvel andspænis áreiti sem venjulega myndi láta þig efast um virði þitt, ágæti og útlit eða koma þér í mikið tilfinningalegt uppnám. Veri það frétt af ógeðslegu ofbeldi, gagnrýnin athugasemd, að fjandans Siggi hafi komist inn í þitt draumanám, erfið höfnun, enn ein auglýsingin um varafyllingar og brjóstastækkun eða enn eitt dæmið um siðleysið, óréttlætið og ógeðið sem þrífst í heiminum.

Hugræn atferlismeðferð eða HAM og hugleiðsla eru tvær leiðir til þess að þjálfa upp meðvitaða heilann og búa til nýjar flýtileiðir þar sem meðvitaði heilinn ræður för. HAM gengur út á að draga ákveðin hugsanamynstur og óþægilegar tilfinningar fram í meðvitaða heilann, hugsa um þær rökrétt og endurflokka þær út frá öðrum tilfinningaramma í minninu. Hugleiðsla þjálfar svo meðvitaða heilann með því að ræsa hann sérstaklega, og nota hann til efla boðskipti til parasympatíska kerfisins og vagustaugarinnar, meðal annars með öndunartækni, frjálsu hugarstreymi þar sem þú leyfir hugsununum að flæða um en ákveður að fylgjast með þeim án þess bregðast við þeim, og að skipta um tilfinningaramma. Hægt og bítandi gera þessar æfingar það að verkum að við færumst úr hugsanamynstri gamla- og tilfinningaheilans yfir í því það að gera hugsanamynstur meðvitaða heilans að vana okkar.

Þess ber að geta að aldrei áður í sögu mannkynsins hefur manneskjan verið umkringd jafnmiklu stafrænu áreiti í formi auglýsinga eða annarra skilaboða, fyrir utan að allt gerist töluvert hraðar en áður. Það er því ekki nema von að hugmyndir okkar um gildi hamingjunnar þurfi að breytast. Það er vel hægt að skilja af hverju fólk laðast að hugmyndinni um minímalisma þegar við skiljum hvernig heilinn virkar og af hverju minímalsískur lífstíll virðist auðvelda fólki að vera hamingjusamt. Það er í anda Adler og James að hreinlega taka þá ákvörðun að hunsa margar af þeim leikreglum hamingjunnar sem fyrirtækin og samfélagið selja okkur og tilfinningaheilinn er svo næmur fyrir. Þegar öllu er þó á botninn hvolft kemur samt alltaf sami gamli sannleikurinn í ljós, sem er að hamingjuna er fyrst og fremst að finna innra með okkur.

Fyrir þá sem vilja kynna sér hlutann um heilavísindi hamingjunnar betur er bókin Calm clarity ágæt, hana er meðal annars að finna á Storytel

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Pistlahöfundur

Alda María er MS nemi í Þjónustustjórnun og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hún er einnig með BS gráðu í sálfræði. Hennar helstu áhugamál eru heilbrigðismál, hagfræði, fólk, samfélagið í heild og eftirréttir.