Er Ísland Paradís gagnaveranna?

eftir Mikael Rafn Línberg Steingrímsson

Sama á hvaða iðngrein er litið er eftirspurn eftir vefþjónustu og tölvuskýjum að aukast. Gagnaver rísa eins og gorkúlur um allan heim en samkvæmt skýrlsu frá The Boston Consulting Group var gert ráð fyrir að 60 ný stór gagnaver myndu rísa í Vestur-Evrópu á árunum 2014-2020. Í uppbyggingu gagnavera á umtöluðu svæði hafa tæknirisarnir Amazon, Facebook og Google verið hvað fyrirferðarmestir. Þessir aðilar hafa fjárfest í uppbyggingu gagnavera meðal annars í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Írlandi, Belgíu og Hollandi þar sem gera má ráð fyrir því að hvert gagnaver sé fjárfesting upp á 100 milljónir evra til 1,5 milljarða evra. Það sem einkennir staðsetningarval gagnavera þessa aðila er það að aðstæður staðsetninganna virðast ekki svo frábrugðnar íslenskum aðstæðum. Gott aðgengi að vatni, nokkuð kalt loftslag og aðgengi að endurnýjanlegri raforku.

Á Íslandi eru ekki mörg gagnaver. Í raun má telja „stór“ gagnaver á Íslandi á fingrum annarar handar, sem verður að teljast afar furðulegt því hér á landi eru náttúrulegar aðstæður fyrir rekstur gagnavera ákaflega góðar eins og lítillega var komið inn á hér áðan.

Aðgengi að endurnýjanlegri raforku til þess að halda tölvubúnaði gagnavera gangandi er ekki einungis gott heldur er raforka hér á landi tiltölulega ódýr í samanburði við nágrannalönd okkar. Gott aðgengi að vatni og kalt loftslag á Íslandi hentar rekstri gagnavera afar vel til þess að kæla tölvubúnaðinn en kælibúnaður gagnavera er yfirleitt langstærsti kostnaðarliðurinn í rekstri þeirra.

Hinn endi sæstrengsins

Þrátt fyrir kjörnar náttúrulegar aðstæður furðar maður sig á því hvers vegna tæknirisarnir líta ekki á Ísland sem vænan kost fyrir gagnaver sín. Í febrúar í fyrra gaf starfshópur ráðherra ferðamála- , iðnaðar- og nýsköpunar út greinagerð um starfsumhverfi gagnavera hér á landi. Í greinagerðinni var tekið fram að ein helsta áskorun okkar Íslendinga til þess að bæta samkeppnisstöðu okkar í greininni er að bæta afhendingaröryggi raforku. Ljóst er að þetta öryggi verður ekki skapað án lagningu sæstrengja en í greinagerðinni var einmitt bent á það að áðurnefndir tæknirisar taka Ísland ekki til greina nema að héðan liggi að minnsta kosti þrír virkir sæstrengir frá fleiri en einum rekstraraðila, þetta munu vera lágmarkskröfur.

Óháð öðrum kostum og göllum sæstrengja til og frá landinu eru tækifæri Íslands í gagnaveraiðnaðinum gríðarleg. Bein erlend fjárfesting einungis eins tæknirisa í gagnaveri hérlendis myndi hafa næg áhrif til þess að umbylta íslensku hagkerfi. Ofan á hagrænu áhrif fjárfestingarinnar sjálfrar yrði að taka aðra þætti með í reikninginn. Hingað væri þá að koma alþjóðlegur tæknirisi sem myndi skapa ný hátæknistörf og Ísland gæti þá orðið virkari þáttakandi í tækniþróuninni sem er að eiga sér stað í heiminum. Gagnaverin ýta einnig undir nýsköpun og laða að önnur fyrirtæki tengd greininni.

Opnum hliðið að Paradís

Að leggja sæstrengi er engin töfralausn til þess að laða hingað að gagnaver alþjóðlegra tæknirisa. Starfshópur ráðherra nefndi nokkur atriði í greinargerð sinni þar sem þörf er á úrbótum en svo virðist vera að afhendingaröryggi raforku sé hornsteinn málsins.

Nágrannalönd okkar vinna markvisst að því að styrkja samkeppnisstöðu sína í gagnaveraiðnaðinum með lagningu land- og sæstrengja og keppast þau nú um að fá til sín stór gagnaver. Aðgerðaleysi stjórnvalda í málaflokknum er mér óskiljanlegt. Ég bind miklar vonir við að stjórnvöld taki sig á og ráðist í umbætur á starfsumhverfi gagnavera áður en það verður of seint í rassinn gripið.

Mikael Rafn Línberg Steingrímsson

Pistlahöfundur

Mikael Rafn er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann er formaður Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og er varaformaður lýðræðis- og manréttindanefndar Mosfellsbæjar. Mikael hefur áhuga á bandarískum íþróttum og atferlishagfræði. Skrif Mikaels í Rómi beinast helst að hagfræðilegum málefnum.