Er hreyfing allra meina bót?

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Við vitum öll hve mikilvæg hreyfing er fyrir almenna heilsu, bæði líkamlega og andlega, einfaldlega því við höfum upplifað það á eigin kroppum. Hreyfing eykur einbeitingu, bætir hreysti og ónæmiskerfið og léttir lundina. Hreyfing er jafnframt talin fyrirbyggja og jafnvel lækna ýmsa kvilla og hafa læknar í því tilefni hafið að gefa sjúklingum svokallaða hreyfiseðla. Gefa þeir sjúklingum leiðbeiningar um hreyfingu sem meðferðarúrræði við þeirra kvillum.

Regluleg hreyfing hefur löngum verið talin minnka líkur á krabbameinum en líffræðilegir ferlar sem liggja þar að baki hafa hingað til verið óljósir. Nýlega birtist þó vísindagrein sem gefur vísbendingar um hvernig hreyfing verndar gegn krabbameinum. Nú skal taka strax fram að rannsóknirnar voru gerðar í músum og því ekki hægt að yfirfæra þær alfarið á mannslíkamann en þær gefa hins vegar vísbendingar um hvað gæti verið að gerast í mannslíkamanum við hreyfingu.

Í fáum orðum, þá skiptu vísindamennirnir músunum í tvo hópa. Einn hópurinn var ekki með hjól í búrinu meðan hinn var með hjól til að hlaupa í. Það þægilega við mýs er að þær hlaupa eins og vindurinn ef hjól er til staðar án þess að vera beðnar um það og hver mús hleypur um 5 kílómetra á dag. Mýsnar fengu að hlaupa í nokkrar vikur áður en allar mýs voru sprautaðar með sortuæxliskrabbameinsfrumum. Áhugavert nokk þá minnkuðu hlaupin æxlisvöxt um 61% miðað við kyrrsetumýsnar. Önnur krabbamein voru skoðuð, en í tilfelli lifrarkrabbameins þá hafði hlaupin þau áhrif að aðeins 31% af hlaupandi músunum fengu krabbameinsvöxt yfirhöfuð, samanborið við 75% af kyrrsetu músum. Sama þema mátti sjá í öðrum krabbameinsmódelum, svo sem lungnakrabbameini þar sem hreyfing gaf af sér marktækt minni æxli en hjá kyrrsetu músum.

2016_11_22-aexli

Myndin sýnir æxlismyndun í lungum á músum. Myndin til vinstri eru lungu úr músum sem fengu ekki að hreyfa sig. Myndin til hægri sýnir lungu úr músum sem hlupu í kringum 5 km á dag hver. Svörtu blettirnir eru æxli. Myndin sýnir greinilega að mýsnar sem hlupu (hægra megin) hafa marktækt færri og minni æxli samanborið við kyrrsetu mýsnar (vinstra megin). (1)

En hvað veldur þessari vernd gegn krabbameinsvexti? Vísindamennirnir fundu að í krabbameininu sjálfu og í nágrenni þess var aukning af svokölluðum náttúrulegum drápsfrumum (NK frumur – e. natural killer cells) við hlaupin en þær eru hluti af náttúrulega ónæmiskerfinu og sjá um að drepa vírussýktar frumur sem og krabbameinsfrumur. Aukin virkni þeirra og viðvera á bólstað æxlisins gætu útskýrt hægari æxlisvöxt. Á sama tíma er vitað að við hreyfingu eykst magn adrenalíns í blóðinu og sáu vísindamenn að það var bein tenging milli aukins magns adrenalíns og hreyfingu NK frumna að bólstað æxlisins. Með því að sprauta æxlisþjáðar mýs með adrenalíni tókst vísindamönnum að fá svipað svar og við hreyfingu en þó ekki jafn kröftugt.

Það er því ljóst að adrenalín sem mýsnar framleiða við hreyfingu hvetur NK frumur til að fara að æxlinu og hemja vöxt þess. Nú eru NK frumur í mönnum mjög svipaðar og í músum og því má ætla að ferlarnir í okkur séu ekki svo frábrugðnir þeim sem við sjáum í músum. Þó verður að rannsaka það ítarlega áður en farið er að nota hreyfiseðla sem meðferðarúrræði við krabbameinum.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að hreyfing virkar best ef hún á sér stað áður en æxli tekur sér bólfestu en hún virkar þó líka með hemjandi áhrifum eftir að æxlisvöxtur hefst. Þessa niðurstöður ýta því undir mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega, bæði til að halda niðri sjúkdómum og undirbúa líkamann fyrir átök ef sjúkdómur nær rótfestu.

Verum dugleg að fara út að dansa, í göngutúr, á skíði eða í laser tag. Öll hreyfing er okkur til hagsbóta en krabbameinsfrumum vonandi til óhags.

 

(1) Heimild: Pedersen L, Idorn M, Olofsson GH et al. Voluntary running suppresses tumor growth through epinephrine- and IL-6-dependent NK cell mobilization and redistribution. Cell Metabolism 2016 Mar 8; 23(3):554-62; http://dx.doi.org/10.1016/j.cmet.2016.01.011.

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.