Er ég stoltur af því að vera bandarískur?

eftir Gestahöfundur

Hreint út sagt eru Bandaríkin full af skít. Þjóðernishyggju er troðið inn í Bandaríkjamenn frá allt of ungum aldri. Fimm ára krakkar standa upp hvern morgun til að kveða tryggð sína við einhverjar 50 stjörnur og 13 rendir áður en þau geta talið upp í 10. Þeim er sagt að þar sé „frelsi og réttlæti fyrir alla“ á meðan víða er verið að skerða réttindi LGBT+ fólks. Þjóðsöngurinn segir að þetta sé „land hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku“ á meðan aumingjar taka þeldökkt fólk af lífi af því bara. Forsetaframboðin eru, aðrar kosningarnar í röð, hlægilega ömurleg.

Í hnotskurn má segja að öllu í þessu svokölluðu „frábæru“ landi  megi lýsa sem allt öðru en frábæru. En hvað finnst mér um þessa þjóð? Hvað finnst mér um að vera bandarískur? Þá vaknar spurningin sem er að finna í titli greinarinnar. Er ég stoltur yfir því að vera bandarískur? Ég þoli ekki að vera neyddur til að varpa ljósi á hvað ég er útlenskur en það er eitthvað sem ég verð að skoða í ljósi kosninganna sem eru að eiga sér stað handan Atlantshafsins.

Áður en ég svara þessum spurningum langar mig fyrst að kafa ofan í pælingar um þjóðernishyggju og það að vera stolt/ur af því að koma frá tilteknum stað. Stolt er tilfinning sem tengist oft gjörðum. Við erum stolt af því að útskrifast, fá stöðuhækkun í vinnunni, kaupa íbúð, og svo framvegis. Það að fæðast einhvers staðar hljómar eins og eitthvað sem er voðalega einkennilegt að gorta sig af.

En samt gerum við nákvæmlega það. Við gortum okkur af því hversu frábært það er að hafa fæðast á einhverjum punkti jarðarinnar. Íslendingar eru ekki undanþegnir. Strax og við lendum í Leifsstöð erum við minnt á hvað við eigum frábært og sérstakt jógúrt, og við tölum um hvað við stóðum okkur vel í knattspyrnuleikjum fyrir nokkrum árum svo ekki sé minnst á það hvernig við hefðum unnið Söngvakeppninni hefðu COVID og Aserbaidsjan ekki verið til. Þú ert stolt/ur af Skyri sem þú bjóst líklegast til, stolt/ur af knattspyrnuliði sem þú átt líklegast ekki aðild að og af söngvurum sem gætu ekki greint á milli þín og holu í veggnum. Þjóðernishyggja er frekar fáranlegt fyrirbæri þegar pælt er nánar í henni.

En að því sögðu, er ég stoltur yfir að vera bandarískur? Er ég enn ein skrítna mannveran sem held að ég sé sérstök og flott bara vegna þess að mamma mín kreisti mig út úr sér innan landamæra einhvers ríkis?

Þrátt fyrir það að ég sé ekki þessi byssuskjótandi og bjórsvelgjandi maður sem tárast þegar hann sér örn, þá myndi ég samt  svara „Já“ við þeirri spurningu án nokkurs vafa.

Ég er stoltur að vera bandarískur vegna þess að ég er stoltur af hversu mikið ég stend fyrir bandarísk gildi, þó að ég hafi tileinkað mér bandarísk gildi á ómeðvitaðan og „óáætlaðan“ hatt. Með „óáætlaðan“ á ég við það að foreldrar mínir, kennarar mínir og annað fólk sem reyndi að rækta hinn litla bandaríska Derek voru sennilega ekki að reyna að rækta manneskju sem segir ekki Hollustueiðinn og er gagnrýninn á hernaðarbrölt, en samt er ég mjög bandarískur á minn eigin hátt og ég er einmitt stoltur af því. Ég trúi gjarnan að við erum öll jöfn eins og kveðið er á um í Sjálfstæðisyfirlýsingunni og ég vil að ákvæðum þessarar yfirlýsingar sé beitt í samræmi við nútímann. Ég trúi á mátt hvers og eins einstaklings til að breyta framtíðinni svo að hún sé betri fyrir alla Bandaríkjamenn, óháð félagslegri stöðu. Ég er óhræddur við að tjá mínar skoðanir og ég styð rétt allra til að tjá sínar skoðanir á opinberum vettvangi. Þótt ég upplifi mig sem íslenskan að töluverðu leyti verð ég alltaf með hin bandarísku grundvallargildi að leiðarljósi í mínu lífi.

Að lokum vil ég tjá smá bjartsýni. Margt fólk er í algeru paniki vegna þessara kosninga, sem ég skil mjög vel. En íslenskt gildi sem ég hef tileinkað mér er „þetta reddast“ viðhorfið í lífinu. Þótt að viðhorf mitt gagnvart núverandi stöðu Bandaríkjanna sé ekki alveg þannig að ég geti setið hjá og allt mun leysast að sjálfu sér, þá tel ég að ef við vinnum markvisst saman fyrir breytingum mun allt „reddast“ á endanum. Ég hef mikla trú á þessu fólki, og ég veit að Bandaríkin munu einhvern daginn í reynd vera „the land of the free and the home of the brave“. 

Derek er þýðingafræðinemi við Háskóla Íslands. Hann skrifar helst um jafnréttismál, sérstaklega um málefni sem varða kynþátt og útlendinga. Hann hefur barist fyrir í þágu þess fólks og fleira í stúdentapólitík síðastliðin ár.