Er atvinnufrelsi eitthvað ofan á brauð?

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Í vestrænum lýðræðisríkjum er sú meginregla höfð í heiðri að það sem er ekki sérstaklega bannað er leyft. Margir eiga það þó til að snúa reglunni á hvolf og halda því fram að allt sé bannað sem stjórnmálamenn hafa ekki sérstaklega leyft. Það sást til að mynda skýrlega á viðbrögðum fólks við nýlegum fregnum af áformum erlendra fjárfesta um að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

„Þetta er stór samfélagspólitísk spurning og þar er það ekki bara hreinn lagabókstafur sem ræður,“ sagði til dæmis Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, í samtali við Ríkisútvarpið um leið og hún lýsti efasemdum sínum um áformin.

Atvinnufrelsi er tryggt í 75. grein stjórnarskrárinnar en í því felst að öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Aðeins má takmarka þetta frelsi með lögum og verða þá almannahagsmunir að krefjast þess. Hver sem er getur því stofnað einkasjúkrahús, eða hvaða annan rekstur sem er, ef skilyrði laga til þess eru uppyllt, án þess að Sigríður Ingibjörg eða aðrir stjórnmálamenn heimili það sérstaklega.

Kemur stjórnmálunum ekki við

Rétt eins og Sigríður Ingibjörg getur ekki stjórnað því hvort hér séu stofnuð trúfélög, lögmannsstofur eða nýsköpunarfyrirtæki, þá getur hún ekki lagt bann við því að útlendingar reisi hér einkasjúkrahús. Lögin ráða, ekki geðþótti einstakra stjórnmálamanna. Sem betur fer.

Og lögin eru nokkuð skýr í þessu tilviki. Í 26. grein laga um heilbrigðisþjónustu og 6. grein laga um landlækni og lýðheilsu eru tiltekin þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að geta hafið rekstur heilbrigðisþjónustu hér á landi. Tilkynna þarf landlækni um áformin og verður hann að leggja blessun sína yfir þau. Það gerir hann á faglegan hátt, en lætur ekki pólitískar skoðanir sínar ráða för.

Heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn, þingið eða aðrir stjórnmálamenn hafa einfaldlega ekkert með þetta mál að gera. Þeim kemur þetta ekki við.

Lög trompa geðþótta

Þingmenn geta auðvitað, ef þeim sýnist sem svo, breytt lögum og bannað til dæmis allan einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, þó svo að efast megi stórlega um að almannahagsmunir krefjist slíkra íþyngjandi takmarkana á atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsfólks.

En kjarni málsins er sá að stjórnmálamenn geta ekki hlaupið upp til handa og fóta í einstökum tilfellum og krafist þess að blátt bann verði lagt við tiltekinni starfsemi. Stjórnarskráin leyfir það einfaldlega ekki. Þeir verða að setja lögin fyrir fram og með almennum hætti, enda eiga allir að vera jafnir fyrir þeim. Við búum nefnilega í réttarríki sem stjórnast af lögum, ekki pólitískri hentisemi hverju sinni.

Atvinnufrelsi telst til grundvallarmannréttinda og er algilt sem slíkt. Það er ekki eitthvað sem stjórnmálamenn geta upp á sitt eigið einsdæmi ákveðið að virða að vettugi. Það er ekki bara eitthvað ofan á brauð.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.