Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

eftir Ritstjórn

Síðastliðinn þriðjudag kom Alþingi saman í fyrsta sinn undir forystu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Fram að því stóðu yfir heitar viðræður milli þingflokksformanna um skipan í fastanefndir á Alþingi og formenn þeirra. Flokkarnir náðu að komast að samkomulagi um skipan fulltrúa í nefndirnar en strönduðu á skipan formanna nefndanna.

Í lögum um þingsköp kemur skýrt fram að þingflokksformenn skuli leggja fram tillögu að skipun nefndanna byggð á þingstyrk. Ef þingflokksformennirnir komast ekki að samkomulagi skal kosið um skipun nefndanna á þingfundi og nefndirnar kjósi sér sjálfar formann. Það var einmitt það sem gerðist í nýliðinni viku.

Fram til ársins 2013 þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við var meginreglan að ríkisstjórnarflokkar ættu formenn í öllum fastanefndum og alþjóðanefndum þingsins. En árið 2013 var breyting á og stjórnarminnihlutinn hlaut formennsku í tveimur nefndum, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.

Það skýtur því skökku við það sem Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að samkvæmt þingskaparlögum beri að semja um formennsku í nefndum á grundvelli þingstyrk. Svandís og þáverandi ríkisstjórn hennar túlkaði þá allaveganna lögin ekki á þann veg þegar hún var í ríkisstjórn. En þá höfðu stjórnarflokkar formennsku í öllum nefndum. Að sama skapi var formennska nefndanna engan veginn skipt eftir þingstyrk í síðustu ríkisstjórn. Þar sem meirihlutinn hafði 60% þingsæta á bakvið sig og hefði því frekar átt að hafa formennsku í 5 nefndum frekar en 6 nefndum.

Sama má segja um Birgittu Jónsdóttir sem í ræðu sinni á Alþingi kallaði það stórfurðuleg vinnubrögð að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar heyri ekki lengur undir stjórnarandstöðuna og sé gegn anda laganna. Þá hefur andi laganna ekki verið fylgt við stofnun nefndarinnar því í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna en þá var formaður nefndarinnar Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Það er greinilegt að þingmenn stjórnarandstöðuna eru afar ósáttir við útkomu þessa máls en að vissu leiti geta þeir sjálfum sér um kennt. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst að semja um formennsku í þriðju nefndinni er furðulegt að þau hafi ekki gengið að því að halda formennsku í nefndunum tveimur. Það er því ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.