Engin sparnaðarmenning á Íslandi?

eftir Gestahöfundur

Undanfarna daga hafa íbúðarkaup verið mér ofarlega í huga, líkt og hjá mörgum á mínum aldri. Margir hverjir vita að slík kaup reynast erfið. Þá sérstaklega að koma sér inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta skipti og kaupa sína fyrstu íbúð. Þar sem slíkar hugsanir eiga sér stað hjá mér um þessar mundir ákvað ég að fá fjármálaráðgjöf hjá bankanum mínum og leitaði mér aðstoðar hvernig væri best að ráðstafa mínum peningunum til að safna fyrir útborgun á fyrstu íbúð. Ráðgjafi bankans nefndi að fáir sem leiti til hans velti sparnaði fyrir sér og hvernig honum sé best varið, þar sem lítil sem engin sparnaðarmenning ætti sér stað hérlendis. Hvað er hægt að gera til þess að lagfæra slíka menningu og ýta frekar undir sparnað í þjóðfélaginu? Er ekki tímabært að huga að breytingum hvað þetta varðar? Finnst okkur þetta í lagi?

Því er kjörið að leggja áherslu á mikilvægi þess að byrja snemma að huga að framtíðinni. Hvað er það sem þyrfti að laga og hvernig er hægt að huga að bættri framtíð okkar, og hvað þá framtíð barnanna okkar?

Hér áður fyrr, á árunum 1957-1993, var öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára skylt að spara ákveðinn hluta launa sinna en skyldusparnaður var lagður niður árið 1993. Af hverju var skyldusparnaður lagður niður? Af hverju var ekki hægt að nútímavæða sparimerki eins og það er nútímavætt alla aðra hluti í okkar nútímasamfélagi? Að vissu leyti kom lífeyrissjóðskerfið í staðinn en hefur þó aðrar áherslur, gott er að kynna sér lífeyrissjóð betur hér. Það má þakka fyrir ef eini sparnaður í landinu, lífeyrissparnaðurinn, verður ekki lagður af á næstunni líkt og var gert með skyldusparnaðinn. Þar sem helstu áherslur lífeyrissjóðsins er að sjóðfélagar eigi möguleika á sem hæsta lífeyri við starfslok. Af hverju er sjóðfélögum ekki leyft að nýta lífeyrissjóðinn fyrir námsgjöldum líkt og það er hægt að nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn fyrir fyrstu íbúðarkaupum og líkt og var hægt með sparimerkin? Hvernig væri hægt að betrumbæta lífeyrissjóðskerfið?

Ef skoðuð er heimasíðu Íslandsbanka hvetur bankinn foreldra til þess að ákveða sparnaðarmarkmið með barninu. Er það hlutverk foreldranna að fara með þeim í gegnum þetta ferli og kynna þeim fyrir hvernig eigi að spara? Hefur enginn gert sér grein fyrir því hvernig stemningu það myndar innan heimilisins og hvernig tengsl milli foreldra og barna verða mun erfiðari? Þarf að leggja þessi erfiði á foreldrana? Það er umtalað hjá foreldrum sem leggja það á sig að kynna börnum sínum fyrir sparnaði að þetta verkefni sé ekki spennandi. Það myndi auðvelda töluvert foreldrahlutverkið ef möguleiki væri á lausn sem myndi ýta undir sparnað hjá börnum líkt og skyldusparnaður eða betrumbæta lífeyrissjóðskerfið svo hægt væri að leysa þann pening út fyrir t.d. námsgjöldum. Þá sérstaklega þar sem foreldrar í nútímasamfélagi hafa nóg að glíma við þar sem samfélagið í dag einkennist af miklum hraða og áreiti.

Þar sem engin lausn finnst í bráð þá finnst mér mikilvægt að fólk afli sér þekkingar; reyni að skilja, fara á námskeið eða sækjast eftir ráðgjöf, hvort sem það er hjá banka, fjölskyldu, vandamönnum eða öðrum. Áttum okkur á þeim leiðum sem bjóðast okkur líkt og langtímasparnaður, þar sem þú leggur fyrir pening sem þú villt spara í 3 ár eða lengur. Áttum okkur á því að lausafé á að vera sem minnst, það stendur efst í pýramídanum. Leggjum reglulega inn á sparnaðarreikninga þar sem rannsóknir sýna fram á það virkar best. Síðast en ekki síst, verum þolinmóð.

Elísabet er 25 ára meistaranemi í verkefnastjórnun. Samhliða námi situr hún í stjórn Heimdallar og í stjórn Maestro – félag meistaranema í Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands sem hagsmunafulltrúi. Elísabet er með BSc í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun frá Háskóla Íslands.