Engin skoðun

eftir Oddur Þórðarson

Mér leiðast skoðanaskipti. Rökræður hafa aldrei verið mér eðlislægar. Mér finnst alltaf erfitt að lenda í fólki sem er með svakalega fastmótaðar skoðanir og hefur viðrað skoðanir sínar við sjálfan sig í speglinum inni á baði óteljandi sinnum. Því, satt best að segja, hef ég ekkert mjög miklar skoðanir á hlutunum almennt. Ég hef samt alveg gaman af pólitík og umfjöllun um stjórnmál almennt. Ég er meira að segja í stjórnmálafræðinámi.

Ég held það kannist allir við þá tilfinningu að vera að rökræða við einhvern sem hefur kannski aðeins meira rétt fyrir sér en þú um það málefni sem verið er að ræða. Það er ekki góð tilfinning, allavega ekki ef tiltekinni manneskju er mjög annt um að sannfæra þig um að skoðun hennar sé réttari en þín, í stað þess að upplýsa aðra og koma sinni skoðun einfaldlega pent á framfæri. Viðkomandi veit kannski aðeins meira um málefnið en þú, hefur reynslu af því sjálfur og þar með fastmótaðri skoðun á hverju því sem þið eruð að ræða. Viðkomdi skýtur þig í kaf og þú “tapar”.

Enn verra finnst mér þegar einhver hefur mjög sterka skoðun á einhverju sem maður annað hvort hefur ekki kynnt sér eða er bara alveg sama um. Viðkomandi fer þá að klína sinni skoðun uppá mann og telur sig hafa “unnið” þegar viðspyrna manns er lítil. Hver hefur gagn eða gaman af slíku?

Gallinn við skoðanaskipti er sá að fólk virðist nefnilega alltaf vera í keppni um hvor hafi réttara fyrir sér. Hvor vinni. Mér finnst heldur að markmið rökræðu eigi að vera að komast að einhvers konar niðurstöðu, mætast á miðjunni og leita lausna. Til þess þarf meira umburðarlyndi, meiri viðleitni til þess að setja sig í spor annarra og meiri vilja til þess að komast að því af hverju sá sem maður skiptir skoðunum við, hafi allt aðrar skoðanir en maður sjálfur. Ég finn lítið fyrir þessu almennt hjá fólki og þykir það miður.

Skoðanaskipti eru bara oft svo eitruð og stunduð á röngum grundvelli, a.m.k. að mínu mati. Sér í lagi þá á samfélagsmiðlum og þess háttar. Oft ræðir fólk efnilslega einhver sértæk málefni alveg frem og tilbage og kastar hvort í annað fúkyrðum og misáreiðanlegum “staðreyndum” þegar það ætti heldur að leita leiða til þess að vera umburðalyndara í garð hvers annars. 

Það er allavega mín skoðun.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.