Endurhæfing: Greinilega ekki fyrir alla

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Í fyrri pistlum mínum um málefni öryrkja sagði ég meðal annars frá þeim meinum sem eru helstu örorkuvaldarnir. Ég reiknaði að barnslaus einstaklingur með 75% örorku fengi um 207.000 á mánuði í bætur. Dæmigert framfærsluviðmið fyrir útgjöld einstaklings með engin börn sem býr á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar 222.764 krónur. Eins og sést eru örorkubætur nú þegar undir hinu vafasamlega lága viðmiði.

Hvað gerir nýja frumvarpið í því?

Sem betur fer, er lagt til að hækka þetta framfærsluviðmið í 300.000 kr. í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á almannatryggingakerfinu. Þar að auki verða bótagreiðslur almannatryggingakerfisins einfaldaðar, meðal annars með því að taka upp einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Í núverandi kerfi sér framfærsluuppbótin um að tryggja þeim sem hafa engar eða lágar viðmiðunartekjur lágmarksframfærslu samkvæmt lögum, sem eru 207.000 kr. Af þeirri upphæð eru 39.862 kr. hinn eiginlegi grunnlífeyrir en tekjutryggingin var 127.652 kr. og framfærsluuppbótin var 36.338 kr. Tekjutryggingin og framfærsluuppbótin eru ekki fastar upphæðir. Þær skerðast yfirleitt af ýmsum ástæðum, til að mynda ef öryrki fer í sambúð. Sem er fáranlegt. Breytingin einfaldar því útreikning og gerir ferlið gagnsærra, en flækjustig þess spilar stórt hlutverk í því að öryrkjar upplifa sig hjálparlausa gagnvart kerfinu. Þessi breyting kemur því þeim verst stöddu til bjargar. Í frumvarpinu var nefnt að 5.553 örorkulífeyrisþegar og 955 einstaklingar á endurhæfingalífeyri þurfa sérstaka uppbót til framfærslu til þess að ná 207.000 krónunum. Um 6500 öryrkjar lifa því núna í sárri fátækt.

Skoðum þessar tölur samt betur. Árið 2015 voru um 17500 einstaklingar með örorku en þar af voru einungis um 1500 manns á endurhæfingarlífeyri! Meirihluti þeirra sem er  á endurhæfingarlífeyri býr sem sagt við sára fátækt. Önnur staðreynd er sú að tæplega 40% öryrkja (eða um 7000 manns) hlutu örorku vegna geðheilbrigðisástæðna. Þá má nefna að það að lifa í fátækt almennt eykur á geðheilbrigðisvanda ásamt því að draga úr batahorfum.

En 40% er næstum helmingur öryrkja! Er ekkert hægt að gera?

Jú, heilan helling. Rannsóknir sýna að flestir sjúklingar sem hljóta samtalsmeðferð eins og Hugræna atferlismeðferð (HAM) ásamt viðeigandi lyfjagjöf ná bata. Í samblöndu þessa tveggja meðferða fara batahorfur yfirleitt eftir alvarleika sjúkdómsins. Kvíðatengdir geðsjúkdómar eru mjög algengir og margir hverjir mjög hamlandi. Þó ná flestir sem hljóta viðeigandi meðferð bata og í mörgum tilfellum er sá bati varanlegur. Að minnsta kosti 30% allra sem greinast með geðklofa ná fullum bata eða lifa með lítilsháttar einkenni, það fer eftir rannsóknum en oft eru þessar horfur hærri því fyrr sem meðferð hefst. Margt bendir til að jafnvel samtalsmeðferð útaf fyrir sig skili betri árangri en bara lyfjagjöf. Ein allsherjargreining á langtímaárangri þunglyndismeðferða skoðaði tíðni bakslaga ári eftir að meðferð lauk. Þar reyndist HAM árangursríkari en lyfjameðferð, 29,5% þeirra sem fóru í HAM veiktust aftur samanborið við 60% þeirra fengu lyfjameðferð. Á Íslandi er algengast að veita bara lyfjameðferð vegna þess að oft er samtalsmeðferð ekki í boði.

En afhverju fara þá öryrkjar ekki bara til sálfræðings?

Öryrkjar eru með mjög háan lækniskostnað sem getur hlaupið á tugum þúsunda á mánuði. Í frumvarpinu er meðal annars nefnt að árið 2013 þurftu 42% þeirra örorkulífeyrisþega sem fengu sérstaka uppbót til framfærslu að neita sér um læknisþjónustu. Til dæmis má nefna að einstaklingar með 75% örorku vegna geðheilbrigðisvanda þurfa oft að fara í stífa meðferð einu sinni í viku í að minnsta kosti 3-6 mánuði til að ná almennilegum bata. Stakur tími hjá sálfræðing kostar um 14.000 kr. Þetta þýðir að öryrki þyrfti að borga um 56.000 á mánuði bara fyrir sálfræðiaðstoð. Þurfi hann á lyfjum halda (sem er rökrétt ályktun) hækkar þessi kostnaður enn meira. Að leigja tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu kostar að meðaltali 150.000 kr. Þar sem þriðjungur öryrkja er einungis með 207.000 krónur milli handanna á mánuði er augljóst að þeir hafa ekki ráð til að fjármagna eigið bataferli!

Getur þá viðkomandi ekki bara sótt um endurhæfingarlífeyri?

Tryggingastofnun sér um greiðslur endurhæfingarlífeyris og niðurgreiðir þá sálfræði-, læknis, og sjúkraþjálfunarkostnar eftir því sem við á. Endurhæfingarsjóðirnir sjá einnig um að kosta slíka þjónustu fyrir sína skjólstæðinga. Þau endurhæfingarúrræði sem eru í boði skila almennt prýðis árangri. Um 72% þeirra einstaklinga sem lokið hafa þjónustu hjá VIRK endurhæfingarsjóð, eru annað hvort í launuðu starfi, virkri atvinnuleit eða í lánshæfu námi við lok þjónustu. Hjá Janus endurhæfingarsjóði var í heildina um 57,1% árangur hjá þeim sem útskrifuðust árið 2015. Hringsjá náms-, og starfsendurhæfing rannsökuðu árangur fyrri nemenda sinna. Niðurstöður sýndu að 75% þeirra sem lokið hafa að minnsta kosti tveimur önnum hjá Hringsjá héldu í nám eða fengu vinnu eftir útskrift. Nemendum þótti námið við Hringsjá skila sér vinnu, námi, aukinni samfélags þátttöku, ásamt aukingu í heilsu, lífsgæðum og sjálfstrausti (92%).

Endurhæfing virkar. En samt eru einungis 8,6% öryrkja á endurhæfingarlífeyri!

Ástæðan gæti verið að það er hreinlega ekkert pláss. Það er staðreynd að Hringsjá nær einungis að taka við 20% af þeim umsóknum sem þangað berast og hjá Janus hefur einnig verið hröð fjölgun tilvísana og ekki hefur tekist að anna eftirspurn. Fjöldi umsókna í VIRK hefur einnig aukist mjög hratt frá stofnun sjóðsins. Það er því deginum ljósara að öryrkjar vilja sárlega leita sér aðstoðar til að sigrast á örorku sinni, og því meira sem ríkið fjárfestir í þeirra bata því meiri ágóða er að fá fyrir ríkið.

Talnakönnun gerði skýrslu fyrir VIRK sem áætlaði sparnað af endurhæfingu í stað þess að vera á bótum bæði frá atvinnurekendum, sjúkrasjóðum, lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins. Árið 2015 var um 14 milljarða króna sparnað að ræða. Án aðkomu VIRK var reiknað með að einstaklingar hefðu farið á varanlega örorku væru þeir á örorkulífeyri hjá lífeyrissjóðum eða Tryggingastofnun við komu. Þar sem reynslan sýnir að mjög fáir einstaklingar á örorkulífeyri fara aftur á vinnumarkað. Fjöldi rannsókna sýnir fram á fjárhagslegt hagkvæmi endurhæfingar. Það er misjafnt eftir rannsóknum og viðfangsefnum hversu mikið ávinnst hlutfallslega, allt frá því að fyrir hverja einingu fjármuna sem er varið til starfsendurhæfingar, skili tvær einingar sér til baka til samfélagsins í sköttum og framleiðni (1:2) og í að fyrir hverja einingu, skili átján sér til baka í sjóði samfélagsins (1:18). Þetta er því ágóðinn sem fæst af því að fjárfesta í annars ónýttum mannauði.

Að hækka grunnlífeyrinn eins og frumvarpið leggur til mun því sennilega borga sig. Sérstaklega hjá þessum 7000 manns sem eiga við örkumlandi geðheilbrigðisvanda að stríða. Það er því veigamikið byrjunarskref að tryggja að þessi hópur búi ekki við fátækt (eða þá nokkur íslendingur þegar út í það er farið), þar sem það er mjög raunhæft að með viðeigandi sálfræði-, og læknisaðstoð nái þessi hópur góðum bata. Vegna fjárhagsþrenginga  skortir örorkuþega færi til að sækja sér viðeigandi aðstoð, og vegna plássleysis fara þeir á mis við starfsendurhæfingu sem leiðir af sér að sjúkdómurinn ágerist.

Það má hugsa sér hvort það væri ekki hreinlega hagstæðara fyrir ríkið og betra fyrir einstaklinga með örorku vegna geðheilbrigðisvanda, að ríkið greiði fulla sálfræði og geðlæknisaðstoð í 1-2 ár, skilyrðislaust. Að því gefnu að fyrstu 4 mánuðina yrði viðkomandi á grunnlífeyri. Frekar en að hafa þann aðila á fullum örorkubótum til lengri tíma, með takmörkuð fjárráð til að leita sér faglegrar aðstoðar, í kerfi sem hamlar þeim að taka sín fyrstu skref aftur á vinnumarkaðinn vegna tekjutenginga og gefur þeim lítin kost á starfsendurhæfingu. Galin eða geðveikt góð hugmynd, við sjáum til.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Pistlahöfundur

Alda María er MS nemi í Þjónustustjórnun og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hún er einnig með BS gráðu í sálfræði. Hennar helstu áhugamál eru heilbrigðismál, hagfræði, fólk, samfélagið í heild og eftirréttir.