Ekki svara símanum

eftir Kristófer Már Maronsson

Síma þarf vart að kynna fyrir neinum, það eru ágætis líkur á að þú sért að lesa þennan pistil í síma, lesandi góður. Ég man eftir því þegar ekki var hægt að nota símann og netið á sama tíma. Þegar netið var í notkun var á tali á heimasímanum. Ég man líka þegar ég sá númerabirti í fyrsta skipti. Ef þú fæddist eftir aldamót eru miklar líkur á að þú hafir ekki hugmynd um hvað það er. Það var lítið tæki sem tengt var við símann og birti númerið sem hringdi. Maður gat jafnvel séð hvaða númer höfðu hringt á meðan maður var í burtu! En bara síðustu 9 símtöl, allavega á mínu heimili. Nú til dags er þetta innbyggt í flesta síma. Fyrir tíma númerabirtisins varð fólk að svara símanum til þess að komast að því hver var að hringja, annars voru litlar líkur á að sú ráðgáta yrði leyst.

Fyrst og fremst var síminn samskiptatæki, en í dag er hann orðinn svo miklu meira. Sími, tölva, vasaljós, leikjatölva, dagatal, minnisblokk, sjónvarp, póstur, myndavél og jafnvel einkaþjálfari. Möguleikarnir virðast óendanlegir, en hver ræður, þú eða síminn?

Svarar þú alltaf símanum?

Eftir því sem tækninni hefur fleygt fram hef ég fundið til æ meiri skuldbindingar til að svara símanum. Ef einhver reyndi að hringja í mig varð ég að bregðast strax við og henda frá mér öllum verkefnum á meðan. Ég hugsaði með mér að hvert símtal gæti verið óvænta símtalið sem myndi breyta lífi mínu. Ég hef ekki fengið það ennþá og það kemur sennilega aldrei.

Nýlega hætti ég að svara ókunnugum númerum. Af hverju? Ég veit ekkert hver er að hringja, hvað viðkomandi vill og hvort að tíminn sem það tekur sé þess virði. Ég sendi sjálfvirk skilaboð til baka á ókunnug númer: „Kemst ekki í símann, sendu mér sms eða tölvupóst á netfang…”  Ég svara yfirleitt ekki heldur númerum sem ég þekki ef ég er að einbeita mér að einhverju öðru, til að mynda þegar ég er í vinnunni. Sumir myndu segja að þetta væri dónalegt eða að ég líti of stórt á mig – ég er ósammála. Ef erindið er mikilvægt, þá fæ ég SMS eða tölvupóst. Ég met svo hvort það sé mikilvægara en núverandi verkefni.

Sestu í bílstjórasætið

Alls ekki svara símanum þar (nema þú sért með handfrjálsan), það gæti kostað þig 40 þús. Við þurfum að geta sett okkur sjálf í fyrsta sæti, þau verkefni sem við erum að vinna að – hver kannast ekki við að eiga erfitt með að koma sér aftur í gírinn eftir að hafa orðið fyrir truflun? Við höfum takmarkaðan tíma á hverjum degi. Dagurinn í dag kemur ekki aftur ef hann gekk ekki vel eða þú kláraðir ekki það sem þú ætlaðir þér. Það kemur næsti dagur. Ekki láta hvern sem er taka frá þér tíma, leyfðu fólki að gera það á þínum eigin forsendum. Ekki vera farþegi í eigin lífi, vertu bílstjórinn.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.