Einn, tveir og fjölga sér

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Minnkandi frjósemi hefur verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið en fjöldi barna á hverja konu hér á landi er nú einungis 1,7 og hefur aldrei mælst lægri. Til að viðhalda mannfjöldanum þarf fjöldinn hins vegar að vera 2,1 börn. Þetta er óneitanlega umhugsunarverð staða. En hvað veldur og hvaða langtímaafleiðingar getur þetta haft á okkar litla samfélag?

Hækkandi meðalaldur við fyrsta barn

Ýmsar ástæður eru fyrir minnkandi frjósemi beggja kynja. Í síðustu viku greindi fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, sem starfar við tæknifrjóvganir, frá því að ungt fólk þyrfti að fara að huga fyrr að barneignum og þá sérstaklega konur. Benti hún á að sífellt stærri hópur kvenna hugi ekki að barneignum fyrr en um 35 ára aldur, sem sé of seint. Árið 2017 var meðalaldur kvenna þegar þær eignuðust sitt fyrsta barn 27,8 ára en var 22 ára árið 1980. Sífellt fleiri þurfa nú að leita sér frjósemisaðstoðar, sem er kostnaðarsamt og erfitt ferli og alls ekki sjálfgefið að leiði til þungunar.

Það er margt til í þessu, enda eru viðhorfin í okkar samfélagi þau að æskilegast sé að byrja á því að ljúka menntun (helst úr háskóla), komast í eigið húsnæði og lifa lífinu áður en festa skal rætur og stofna til fjölskyldu. Hér áður fyrr var mikilvægt að eignast börn svo þau gætu hjálpað til á heimilinu og séð fyrir fólki í ellinni, en í dag er bæði kostnaðarsamt og það krefst mikillar skipulagningar að sjá fyrir börnum. Ungt fólk er frætt um mikilvægi getnaðarvarna til að koma í veg fyrir ótímabæra þungun en það er ekki nægilega vel upplýst um þær breytingar sem verða á frjósemi eftir 35 ára aldur og þær stökkbreytingar sem verða í kynfrumum með hækkandi aldri.

Áhrif á aldurssamsetningu þjóðar

Aukning á tíðni barneigna miðar ekki einungis að því að viðhalda mannfjöldanum. Á tímabilinu 1960-1983 lækkaði fæðingartíðni úr 4,3 börnum í  2,1 og hefur það nú þegar haft mikil áhrif á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Eftir því sem fæðingartíðni er lægri fjölgar eldri borgurum hlutfallslega meira. Nú þegar fæðingartíðnin er einungis 1,7 mun þessi þróun halda áfram og öldruðum mun fjölga enn frekar. Þetta er varhugaverð þróun þar sem fjölgun eldri borgara veldur auknu álagi á heilbrigðiskerfið sem nú þegar glímir við mikinn mönnunarvanda. Einnig minnkar fjöldi vinnandi manna á hvern aldraðan með áframhaldandi þróun svo þetta er ekki bara frjósemisvandamál heldur gríðarlega stórt samfélagsvandamál. Því er ljóst að það þarf að ráðast í allsherjar hugarfarsbreytingu á viðhorfum í samfélaginu gagnvart barneignum, en hvar á að byrja?

Horfum til annarra landa

Ísland er langt því frá að vera eina landið sem glímir við þessi vandræði en þrátt fyrir lága fæðingartíðni hér á landi er hún enn lægri víða í Evrópu og eru 83 lönd í heiminum nú með fæðingartíðni undir 2,1. Danir hafa t.a.m. haft miklar áhyggjur af minnkandi frjósemi og gaf ferðaskrifstofufyrirtækið Spies Travel út þetta myndband árið 2015 til að hvetja ungt fólk til barneigna. Sama ár var einnig farið í nokkrar herferðir í dagskrá sjónvarpsins þar sem vakin var athygli á því hvað námsárin væru góður tími til að eignast börn, m.a. vegna sveigjanlegri vinnutíma. Þessi aðgerð vakti mikla athygli á heimsvísu og þótti heldur skopleg en skilaði sér þó í því að árið eftir fæddust 1200 fleiri börn í Danmörku en árið á undan, sem olli meira að segja nokkurs konar glundroða á fæðingardeildum landsins. Því má draga þá ályktun að við getum gert betur í þessum efnum ef við tökum okkur á.

Forvarnir

Koma þarf á markvissari getnaðarvarna- og frjósemisráðgjöf og almennri fræðslu um þetta efni í grunn- og framhaldsskólum. Notkun pillunnar hefur til dæmis aukist gífurlega frá því hún kom á markað, en hún er ekki vörn gegn kynsjúkdómum. Tíðni klamydíusýkinga, algengasta kynsjúkdóms á Íslandi, er með því hæsta sem þekkist í heiminum og hefur fjöldi sýkinga verið stöðugur síðastliðin 20 ár eða um 2000 ný tilfelli á ári. Sýkingin getur verið einkennalaus eða lítil, sérstaklega hjá konum, sem er afar hættulegt því langvarandi sýking getur valdið innvortis bólgum og leitt til ófrjósemi hjá báðum kynjum.

Með notkun smokksins er hins vegar hægt að koma í veg fyrir flest kynsjúkdómasmit og því er mikilvægt að stórbæta aðgengi að honum. Ef ríkið myndi niðurgreiða smokka í verslunum, hægt væri að nálgast gefins smokka hjá skólahjúkrunarfræðingi í grunn- og framhaldsskólum og smokkar yrðu seldir í sjálfsölum (til að koma í veg fyrir að ungt fólk forðist að nálgast þá af feimni eða skömm) myndi aðgengið að þeim stórbætast. Þetta væru liðir í forvarnarstarfi sem myndu auka vitund ungs fólks á mikilvægi frjósemisheilbrigði og fyrirbyggja ýmis frjósemisvandamál hjá fólki síðar á ævinni.

Menntun

Líkt og ég hef áður komið inn á, snýr almennt viðhorf í okkar samfélagi gjarnan að því að ljúka fyrst námi og flytja svo að heiman í eigið eða leiguhúsnæði áður en hugað er að barneignum. Þessu viðhorfi þarf að breyta. Ungt fólk þarf að geta hugsað sér að eignast börn samhliða námi og því þurfa fæðingarstyrkur og barnabætur fyrir foreldra í námi að hljóða upp á sanngjarna og raunhæfa fjárhæð.

Auka þarf framboð af stúdentaíbúðum og breyta þarf kennslufyrirkomulaginu svo að tímar með skyldumætingu séu ekki eftir lokunartíma leikskóla. Tímabundin lækkun lágmarks námsframvindu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til eins eða tveggja ára í kringum barneignir myndi einnig styðja heilmikið við foreldra í námi. Þá gætu foreldrar átt kost á því að halda áfram námi að hluta til, en samt sem áður tekið námslán ef þess þarf.

Iðn-, verk og starfsnám á framhaldsskólastigi veitir starfsleyfi að námi loknu og því eru þessir einstaklingar fyrr komnir út á vinnumarkaðinn en þeir sem fara í háskólanám. Hér blasa ýmis tækifæri við, en verið er að leita leiða til að auka aðsókn í slíkt nám. Má til dæmis nefna nýtt frumvarp þar sem lagt er til að sveinspróf geti jafngilt stúdentsprófi í háskólum og loki þar með ekki ákveðnum brautum fyrir ungt fólk sem fer í slíkt nám.

Starfsumhverfi

Eftir að námi lýkur tekur vinnumarkaðurinn við en þá skiptir máli að starfsumhverfið sé sveigjanlegt. Fæðingarorlof feðra þarf einnig að lengjast til þess að skapa jafnræði á vinnumarkaði. Konur sem hafa mikinn metnað fyrir eigin starfsframa hafa tilhneigingu til að fresta barneignum. Það orsakast af því að fjarvera þeirra á vinnumarkaði í kringum barneignir veldur því að þær dragast aftur úr hvað varðar reynslu í starfi og þær eiga því síður möguleika á frama en karlar, sem missa síður úr vinnu. Lenging fæðingarorlofs feðra myndi einnighafa góð áhrif á tengslamyndun föður og barns, sem myndi ótvírætt hafa góð áhrif.

Húsnæði

Eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda í dag varðar húsnæðisvanda ungs fólks og á hann ekki síður við í þessu samhengi. Til þess að ungt fólk geti hugsað sér að festa rætur sínar og stofna fjölskyldu þarf það að geta komist fyrr úr foreldrahúsum í eigið húsnæði eða öruggt leiguhúsnæði. Flýta þarf uppbyggingu ódýrra íbúða í stað þess að byggja dýrt húsnæði á dýrum lóðum og festa skal í sessi stuðning til kaupa á fyrstu fasteign í gegnum séreignarsparnað. Kynna þyrfti þessa leið fyrir fólki um leið og það stígur sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum svo það geti raunverulega nýtt sér þetta úrræði.  

Með þessari grein er ég að gera heiðarlega tilraun til að benda á þessa frjósemisáskorun sem við stöndum frammi fyrir. Þótt ég hafi ekki haft í hyggju að hlaupast undan mínu framlagi í þessum efnum er þó ljóst að ég mun vera á meðal þeirra kvenna sem hækka meðaltal fyrstu barneigna þar sem ég er nú þegar orðin 27,5 ára og barnlaus. Því er þessi umfjöllun mitt framlag í bili og vonandi gefst mér tækifæri til að beita mér fyrir frjósamara samfélagi á ýmsum vettvangi í framtíðinni. Góðar (frjósemis)stundir.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.