Einn þátt enn

eftir Þórhallur Valur Benónýsson

Klukkan er að slá í miðnætti. Ég finn hvernig líkaminn öskrar á mig af þreytu. ,,Farðu að sofa fíflið þitt og hættu að pína mig, við erum að fara að vakna eftir sjö tíma”. Ég meðtek skilaboðin og finn smá kvíða fyrir því hversu erfitt það verður að vakna sæmilega ósofinn. Ég teygi mig í tölvuna og smelli á ,,play next episode”.

Þetta er atburðarrás sem ég held að flestir tengi við. Flestir hafa á einhverjum tímapunkti verið í svipaðri stöðu. Stöðu þar sem þú veist að þú átt að vera að gera eitthvað annað, jafnvel vilt vera að gera eitthvað annað, en þú getur það ekki. Fíknin yfirtekur viljann og þú missir stjórnina á eigin gjörðum. Þú ert búinn að missa allt vald yfir sjálfum þér. Nú eru kannski einhverjir hættir að tengja því nú er ég farinn að fjalla um vandamál sem hrjáir bara suma: Afþreyingarfíkn.

Að missa stjórnin á eigin huga er ein versta tilfinning sem ég hef upplifað. Mér leið eins og algjörum ræfli og hugsaði með mér hvernig ég ætti að geta tekið þátt í samfélaginu, lært og leikið og hvað þá gefið af mér á meðan viljinn minn væri svo veikur að ég gæti ekki í það minnsta slökkt á Netflix á kvöldin. Ég hafði ekki lengur völdin og það olli mér kvíða. Þetta var reyndar ekki eina ástæðan fyrir kvíðanum en þó einn af ráðandi þáttunum. Mikilvægt verkefni var í nánd sem ég þurfti að klára en þrátt fyrir neyðina gat ég ekki byrjað að undirbúa mig. Ég náði ekki með nokkru móti að koma mér í rútínuna sem þurfti til að klára verkefnið. Því það var alltaf einn þáttur enn. Eitt lag enn. Ein blaðsíða enn. Ein frétt enn og svo mætti lengi halda áfram.

Á einum tímapunkti ákvað ég að leita hjálpar við að endurheimta stjórnina og fór á fund með sérfræðingi.

Þar opnuðust augu mín gagnvart þessu vandamáli og ég hef verið með það á heilanum síðan. Hvernig gat ég leyst vandann? Verkefnin voru of mörg til að geta haldið áfram að sofa lítið og vakna seint, og svefnleysið skemmdi heilu dagana. Ástandið var samt ekki svona slæmt þegar ég var lítill. Afþreyingin og endalausa áreitið sem því fylgir var ekki til staðar. Klukkan tíu var bókin tekin af mér og ég hafði ekkert annað í stöðunni en að fara að sofa.

Ég ákvað því að prófa aftur gamla góða fyrirkomulagið og hætti að horfa á þætti eða notast við afþreyingu á borð við síma og tölvur uppi í rúmi og rétt áður en ég fór að sofa. Þannig rauf ég sítenginguna. Það var mjög erfitt að sofna fyrstu skiptin, nánast ómögulegt. Á meðan ég lá á koddanum herjuðu að mér öll mín vandamál og verkefni. ,,Rosalega er langt síðan þú settir í vél. Enn þá lengra er síðan þú tókst til í herberginu þínu. Þú ert að fara í próf eftir viku og ert ekki búinn að gera neitt í mánuð.”

Þetta versnaði eftir því sem leið á nóttina. Áhyggjur af því hvað fólki fannst um það sem ég væri og áhyggjur yfir því að bregðast fólkinu í kring. Hryllilegar tilhugsunanir. Þegar styttist verulega í að vekjaraklukkan hringdi og ég orðinn svefnvana vegna óstjórnandi hugsana var ég iðulega kominn að þeirri niðurstöðu að ég væri sennilega bara aumingi og búinn að taka að mér verkefni sem ég réði einfaldlega ekki við.

Ég vissi að það væri ekki satt, það eina sem vantaði var að losna undan ógnartaki afþreyingarinnar. Á þessum tímapunkti var erfitt að fara af stað á morgnanna. Það skref var orðið þungt vegna allra vandamálanna sem höfðu heltekið mig fyrr um nóttina og héldu fyrir mér vöku. Heilinn réði ekki við þetta lengur, náði ekki að vinna úr öllu þessu flóði og mér fannst hann vera að bregðast mér líka.

Sérfræðingurinn nefndi við mig ofureinfalda hugleiðingu sem hjálpaði mér að taka fyrsta skrefið í átt að frelsi úr þessari prísund. Heilinn er eins og tölva. Hann hefur bara ákveðið rými og ákveðið vinnsluafl. Ef þú fyllir hann verður hann hægur og kallar eftir því að losa um pláss. En þar var ég kominn með enn eitt vandamálið. Hvernig tekur maður til í heilanum?

Svarið var ekki ýkja flókið. Hvernig er pláss búið til í tölvu þegar það er ekki hægt að eyða forritum eða skjölum í henni? Kaupir flakkara og geymir þau þar. Í snatri fór og keypti mér litla stílabók og skrifaði niður öll litlu verkefnin sem herjuðu á heilann þegar ég reyndi að sofna. Þannig færði ég þau á stað þar sem ég vissi að þau væru innan handar. Því næst losaði ég mig við þau, eitt í einu. Ég setti í vél, tók til í herberginu mínu, losaði mig við litlu vandamálin. Þá hættu þau að herja á mig þegar ég lagðist á koddann. Það létti til yfir heilanum og ég gat sett púðrið í stóru vandamálin.

Síðan hef ég fellt öll þessi stóru verkefni, eitt af öðru og líður miklu betur. Ég er búinn að ná stjórninni aftur og á auðveldara með að sofna á kvöldin. Rót vandans var afþreyingarfíknin. Ég gaf mér aldrei tíma til þess að setjast niður og mæta vandamálunum heldur leyfði þeim að hrannast upp í bakherberginu sem yfirflæddi svo þegar ég sleppti takinu á afþreyingunni. Það var stóra vandamálið. Með sítengingunni og offramboði á afþreyingu er okkur hætt að leiðast. Sem er mjög falleg hugmynd á yfirborðinu, en þegar okkur leiðist þá höfum við færi til að fara í sjálfsskoðunina, finna vandamálin og eyða þeim. Það tekur ekki mikinn tíma, bara svona rétt á milli þess sem þú leggst á koddann og þú sofnar.

Þannig losnaði ég undan taki afþreyingarfíknarinnar, komst á braut aukinnar skilvirkni og byrjaði að ná markmiðunum mínum.

 

Þórhallur Valur Benónýsson

Pistlahöfundur

Þórhallur Valur er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi ýmissa félaga t.d. Orator og NFVÍ auk þess að hafa verið varaformaður og oddviti Vöku fls. Þórhallur starfar hjá Verði tryggingum. Helstu áhugamál hans eru knattspyrna, tónlist og öll þau málefni líðandi stundar sem honum finnst sig varða. Skrif hans á Rómi munu snúast að hverju því sem honum finnst sig varða þá stundina.