Einkaframkvæmdin Miklabraut í stokk

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Nýlega var gefin út samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023. Áætlunin var sett fram með ábyrgum hætti í fjárhagslegu tilliti og því virðast flestir sammála um að hún feli ekki í sér að nógu mörg verkefni séu sett af stað.

Verandi af suðvesturhorninu tekur maður einna mest eftir því að lítið virðist eiga gera í Reykjavík og líkt og undanfarin áratug. Fyrir sveitarstjórnarkosningar kepptust flokkarnir um að setja fram loforð og hugmyndir um mikla uppbyggingu samgönguinnviða. Sá flokkur sem nú leiðir meirihlutasamstarfið lagði til að Miklabrautin yrði sett í stokk. En felur þá samgönguáætlun í sér að sú framkvæmd er af borðinu a.m.k. næstu fimm árin?

Ekki endilega. Ein lausn væri sú að fara í svokallaða samvinnuleið við lagningu Miklubrautar í stokk, sú leið er jafnan nefnd PPP (Public private partnership) og fæli í sér að einkaaðilar myndu sjá um framkvæmdina og hafa af henni tekjur e.t.v. í 10-15 ár. Íslendingar þekkja til svoleiðis framkvæmdar úr Hvalfirðinum, sem heppnaðist afar vel.

Ástæðan fyrir því að Miklabrautin gæti verið tilvalin í svona framkvæmd er að vegakerfið í borginni uppfyllir þau skilyrði að fólk komist með öðrum leiðum á áfangastað, t.d. um Bústaðaveg eða Sæbraut en svo gæti einnig verið einbreiður vegur ofan við stokkinn þar sem hámarkshraði er lítill og gangandi vegfarendur yrðu í forgangi. Sömuleiðis ætti tæknin að gera okkur kleift að stafvæða alla innheimtu þannig hún spilli ekki umferðarflæðinu á staðnum.

Það getur auðvitað verið blóðugt að þurfa að greiða fyrir að komast leiðar sinnar þegar maður telur sig hafa greitt fyrir afnotkun á vegakerfinu í gegnum bensínskattana. Spurningin sem maður þarf þó að spyrja sig er hvort það sé þess virði að borga aðeins meira fyrir það að fá loksins einhverja uppbyggingu á samgönguinnviðum í borginni. Fyrir mitt leyti er svarið við þeirri spurningu, skýrt já.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.