Einangraðir erindrekar

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Nýkjörinn forseti vors skellti sér til kóngsins Köben í vikunni. Hluti af dagskránni var hringborðsumræða í Kaupmannahafnarháskóla þar sem Guðni, ásamt rektor háskólans og öðrum fræðimönnum, ræddu þjóðernishyggju, popúlisma og alþjóðavæðinguna út frá sjónarmiðum norrænu landanna. Umræðan um popúlisma hefur farið stígvaxandi í kjölfar rísandi stuðnings við þjóðernisflokka í pólitík og nú síðast kjörs Donalds nokkurs Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Mér þótti þetta því tilvalið tækifæri til að fræðast meira um mögulegar lausnir og mótrök við popúlismanum og skráði mig því sem gestur á viðburðinn. Ég viðurkenni þó að ég var spenntust að sjá forsetann okkar loksins ,,in action” og ekki skemmdi fyrir að dönsku krónprinshjónin Friðrik og María höfðu einnig boðað komu sína.

Viðburðurinn hófst með stuttri ræðu Guðna um þessi málefni. Glitti strax í sagnfræðinginn sem kominn var á heimavöll. Hann staðfesti skoðun mína að Guðni væri fyrirtaks forseti. Með einlægum áhuga sínum og drifkrafti tókst honum að fanga athygli og hrífa aðra með sér. Vonandi tekst honum að nýta þessa eiginleika sína til að hafa áhrif til góðs á alþjóðavettvangi í framtíðinni. Eftir ræðuna hófust umræður, ef umræður er hægt að kalla. Tíminn var knappur og breyttist vettvangurinn því í nokkurs konar munnlegt athugasemdarkerfi. Hver fræðimaðurinn á eftir öðrum fékk orðið í stutta stund þar sem þeir í nokkrum orðum lýstu skoðun sinni eða hugsunum um popúlisma. Engin umræða átti sér stað í raun og áhorfendur því litlu nær. Þegar tíminn var svo liðinn strunsaði gengið út enda þétt dagskrá hjá forsetanum og hann eflaust orðinn of seinn í næsta viðburð.

Eftir sat maður því með margar spurningar. Komumst við í raun einhverju nær því að minnka áhrif popúlisma með umræðum sem þessum þar sem elítan ræðir málin? Er þetta ekki einmitt umræða og samtal sem þarf að eiga sér stað meðal almennings sem styður popúlista hreyfingar og þeirra sem gera það ekki? Elítan situr á hástólum sínum og reynir að greina fólkið fyrir neðan sig og skilja sjónarmið þeirra. Gæti hluti af vandamálinu kannski verið sá að elítan er of upptekin að tala um og fræða ,,vitlausa” fólkið að hún gleymir að hlusta á það?

Öll umræða og rökræður í dag virðist eiga heima á athugasemdarkerfum fjölmiðla en slíkar rökræður leiða sjaldan til þess að menn skipti um skoðun. Umræða er nefnilega ekki það sama og samtal. Okkur vantar samtalsvettvang þar sem við fræðum hvort annað um ólík sjónarmið. Í rökræðum þarf nefnilega einhver að sigra meðan samtal upplýsir báða aðila um ólík sjónarmið. Samtal er líklegra til að leiða af sér sameiginlegan grundvöll þar sem þátttakendur fara frá samtalinu örlítið skilningsríkari.

En hvar á þessi vettvangur að vera? Viljum við hafa hann áfram á Facebook-síðum eða færa hann í auknum mæli yfir í atburði á vegum háskólanna, félagasamtaka eða jafnvel sem fastur liður hjá Rúv? Ég hef ekki svörin, en ég þykist þó viss um að við færumst skammt í átt að sátt ef við mætumst ekki og tölum saman. Bæði almennir leikmenn og ,,elítan”.

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.