Eilíf refsing eða annað tækifæri?

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Umræðan um uppreist æru hefur verið hávær í samfélaginu síðustu vikur. Uppreist æru felur í sér að einstaklingur fái að njóta aftur réttinda sinna sem glatast við það að fá fangelsisdóm. Dæmi um slík réttindi eru meðal annars kjörgengi til Alþingis, lögmannsréttindi, löggildingu sem endurskoðandi o.fl. Það sem gleymist oft í umræðunni er að sakavottorð hreinsast ekki við uppreist æru, aðili sem fær uppreist æru er enn á sakaskrá – fólk sem fær æru sína upp reista verður því einungis veitt aftur borgaraleg réttindi á borð við það sem áður var nefnt. Að mínu mati er fyrirbærið uppreist æru barn síns tíma og fagna ég því að nú hafi ákvæðið verið fellt út lögum.

Fangelsisdómur er refsing en hlutverk fangelsisvistar er einnig betrun. Eitt er víst, að afplánun lokinni snúa flestir fangar aftur út í samfélagið og hefur markmiðið verið að draga úr líkum á endurkomu þeirra í fangelsi vegna nýrra brota. Sá sem stígur sín fyrstu skref út í samfélag manna að lokinni afplánun á samkvæmt lögum að vera laus allra mála. Hann hefur afplánað sinn dóm og tekið út sína refsingu. Því ætti hann að geta orðið virkur þátttakandi í samfélagi manna að nýju. Það hlýtur að vera markmið fangelsisvistar að fólk fái annað tækifæri og sé boðið velkomið þátttöku. Raunin er þó önnur. Oftar en ekki tekur við einstaklingum, að afplánun lokinni, samfélag sem heldur áfram að refsa þeim. Dómstóll götunnar heldur áfram að refsa þessum einstaklingum og oft er ekki hægt að reisa þá æru eftir þá útreið sem þeir fá á samfélagsmiðlum.

Eiga sumir kannski aldrei séns?

Er hlutverk fangelsisvistunar kannski bara refsing, en ekki betrun? Á fólk aldrei séns að afplánun lokinni? Ef við sem samfélag ætlum að halda áfram að refsa fólki opinberlega að afplánun lokinni, hvers vegna höfum við þá ekki bara tekið upp lífstíðarrefsingar? Ef fólk raunverulega virðir það að fangelsisvist sé betrunarvist og vill veita þessum einstaklingum brautargengi inn í samfélag manna að nýju þurfum við, samfélagið, að líta í eigin barm og hugsa okkur tvisvar um áður en við úthúðum fólki á opinberum vettvangi. Með því erum við ekki að viðurkenna brotin heldur einungis að viðurkenna að þeir hafi tekið út sína refsingu samkvæmt lögum.

Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi skilið annað tækifæri ef því verður á í lífinu. Stundum vinsæl skoðun, en oftar mjög óvinsæl. Með því verður ekki sagt að það eigi að vernda afbrotamenn, síður en svo. Heldur einfaldlega viðurkenna að í fangelsisvist felist betrunarvist og að fólk geti margt komið út sem betri einstaklingar sem tekið hafa afplánun sinni alvarlega og lært af henni. Ef við trúum ekki að fólk geti bætt sig í meðferð afplánunar er ekki nokkur tilgangur með því að hleypa fólki úr fangelsisvist.

Þeir sem fengið hafa dóm og lokið afplánun eru á sakaskrá og verða það út ævina. Þeir geta ekki flúið gjörðir sínar. En þeir geta iðrast og er það þá okkar hinna að ákveða hvort við séum í raun og veru tilbúin að gefa þeim annað tækifæri. Það er ákvörðun sem við verðum hver og ein að taka fyrir okkur sjálf. Höfum það að minnsta kosti hugfast hvaða skilaboð við sendum frá okkur með því að úthrópa annað fólk sem hefur misstigið sig í lífinu.

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.