Eigum við að klína?

eftir Björn Már Ólafsson

Hæ ég heiti Bjørn og ég er busi í Hartvig Nissen videregående skole.

Ekki fyrr eru íslenskir unglingar farnir að tala um nýju uppáhaldsþættina sína SKAM áður en aðeins of gamlir hvítir karlmenn eru farnir að tjá sig um ástæður vinsældanna í rituðu máli á netinu. Ég ætla viljandi að stíga í þá gildru og útskýra hvað það er sem heillar mig við þessa þætti sem gætu eyðilagt jólaprófatörnina fyrir mörgum menntaskólanemum.

Í þáttunum fylgist áhorfandinn með hópi unglingsstelpna í Hartvig Nissen framhaldsskólanum í Osló í Noregi. Ég hef sjaldan verið jafn meðvitaður um stöðu mína sem hálf-miðaldra karlmaður og þegar ég skrifaði þessa setningu.

Þó hef ég góða ástæðu til að horfa á þessa þætti sem gerast í Noregi enda ólst ég þar upp en flutti heim nákvæmlega ári áður en framhaldsskólaárin hófust. Einu ári áður en ég fékk að upplifa mitt SKAM-tímabil. Hafi félagsþroski minn látið staðar numið í 9. bekk þegar ég flutti heim frá Noregi þá heldur hann áfram í þáttunum þar sem ég fæ að vera eins og fluga á vegg. Nemandi í skólanum. Bjørn Mar Olafsson i 1. klasse på Hartvig Nissen videregående skole hefði svo sannarlega rennt hýru auga til Noora. Og jafn öruggt er að Bjørn hefði aldrei þorað að reyna við hana frekar en hinn raunverulegi Bjørn þorði að reyna við sætu stelpuna Martine sem hann hitti í kvöld eitt í fjallakofa á skólaferðalagi um Jötunheima í Vestur-Noregi í 7. bekk. Ég og Martine dönsuðum vissulega eins og rapparinn Nelly og söngkonan Kelly Rowland í myndbandinu við lagið „Dilemma” sem toppaði vinsældarlistana um þær mundir. En við klínuðum ekki. Ég þorði ekki að spyrja.

Nóg um það. Rannsóknarnefnd viðreynsluslysa er búin að skila skýrslu sinni um það sem gerðist í skólaferðalaginu og lærdómur hefur verið dreginn. Í þáttunum SKAM er búið er að skipta út Nelly og Kelly Rowland fyrir tónlist með Beyonce og Drake. Það er samt tilvalið að staldra örstutt við tónlistina í þáttunum. Reynt er að hafa tónlistavalið svolítið öðruvísi en í öðrum sjónvarpsþáttum. Sú tilraun minnir mig sterklega á bresku unglingaþættina SKINS sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Sirkus fyrir nokkrum árum síðan við talsverðar vinsældir. Raunar er tónlistin svo lík að alla veganna tvisvar hef ég heyrt sömu lög í SKAM og ég heyrði í SKINS. Titill þáttanna er líka svipaður þótt líkast til sé það tilviljun ein.

Russarnir eru að koma!

En í þáttunum er líka mikið um dúndrandi teknótónlist sem á norsku nefnist Russemusikk. Russ er menningarfyrirbæri sem erfitt getur reynst að útskýra. Er það þannig að fyrir stúdentsprófin sín þá halda útskriftarnemar eina allsherjarskemmtun sem varir í heilan mánuð. Þá leigja vinahópar gjarnan rútur sem þeir mála rauðar eða bláar og ganga um í rauðum eða bláum fötum. Hefðin er gömul og í gamla daga var algengt að nemendurnir færu eftir stúdentsprófin á rúnt á suðrænar slóðir í Evrópu á rútunum sínum. Þessi menningarhefð hefur nú þróast og yngri kynslóðir ögra stöðugt hinum eldri. Í dag snúast öll skemmtanahöldin um drykkju, djamm og vináttu en þeim fylgja einnig ýmsar tilraunir með kynlíf og eiturlyf (án þess að ég sé að flokka þetta tvennt saman með nokkrum hætti).

Það er orðin hefð að hver og ein rúta gefur út sérstakt „russelåt”, þ.e. sérstakt útskriftarlag. Er oftast um teknólög að ræða líkt og við heyrum í þáttunum. Lögin verða grófari og villtari með hverju árinu. Er það árlegur viðburður í norskum fjölmiðlum að í maímánuði birtist viðtal við talsmann kvenréttindahreyfingar sem segist vera gróflega misboðið af textunum í „russelåt”-unum. Því næst birta fjölmiðlar dæmi um grófa texta og við tekur nokkurra vikna umræða á spjallþráðum á Facebook áður en nemendurnir eru búnir að útskrifast og allir gleyma lögunum.

Er du serr?

Það vekur athygli mína við þættina að þeir eru skrifaðir á tungumáli sem er uppfullt af frösum og slangri. Eru þeir því mjög raunverulegir fyrir þá sem tala norsku en þeim mun erfiðara er fyrir aðra að skilja hvað sagt er. Þá get ég einnig skilið að erfitt sé að texta þættina með réttum hætti. Hef ég séð nokkur dæmi á RÚV um beinlínis ranga þýðingu á unglingaslangri en það kom þó ekki að sök fyrir söguþráð þáttanna. Til gamans bjó ég til norsk-íslenskan orðalista fyrir þættina og birti á Twitter fyrir nokkrum dögum síðan. Fékk ég mikil viðbrögð og ljóst að margir höfðu gaman af því að vita nákvæmlega hvernig slangrið er.

Í Noregi hafa þættirnir náð vinsældum langt út fyrir hóp unglinga. Fullorðið fólk, miðaldra menningarblaðamenn og hneykslað gamalt fólk, allt hefur þetta fólk tjáð sig um þættina með einhverjum hætti. Margir metrar af dagblaðadálkum hafa verið skrifaðir og sitt sýnist hverjum.

Unga fólkið virðist samt einfaldlega elska þættina. Hvort sem það sé vegna þess að heimurinn sem birtist þeim í SKAM er drauma- eða martraðaheimur. Vegna þess að þættirnir endurspegla raunveruleikann eða bara alls ekki. Vegna þess að þættirnir sýna æskilega hegðun eða þá bara alls ekki. Hvað sjálfan mig varðar þá horfi ég á þættina vegna þess að þar er ég Bjørn Mar Olafsson i 1. klasse på Hartvig Nissen videregående skole i Oslo. Serr.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.