Eigum við að hafa slökkt á tryggingunum í kvöld?

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Alþjóðlegur samkeppnismarkaður fjármálafyrirtækja hefur verið í miklum breytingarham undanfarin ár. Þessar breytingar hafa verið hvað mest áberandi á bankamarkaði, en þar hafa nýjar og framandi lausnir litið dagsins ljós sem tengjast greiðsluleiðum, millifærslum og lánaaðgengi svo fáein dæmi séu tekin. Greiðslumat og bílafjármögnun eru framkvæmd í appinu og segja má að kreditkortið bíði þín síðan í hanskahólfinu, sem er að miklu leiti orðið óþarft því núna borgar þú í bílalúgunni með símanum líka. Tryggingarfélög virðast ekki ætla að sleppa undan þessari stafrænu byltingu, um allan heim spretta upp starfrænar tryggingalausnir sem kunna að hljóma heldur nýstárlegar fyrir íslenskan markað.

Ein þessara nýju þjónustuleiða eru tryggingar sem hægt er að „slökkva-“ og „kveikja á“, eftir þörfum og hentugleika. Sú hugmyndafræði gengur út á að viðskiptavinurinn greiði aðeins fyrir tryggingu þegar hann telur sig hafa not eða þörf fyrir hana. Hver þarf til dæmis heimilistryggingu á meðan hann er sjálfur heima í sófanum að horfa á sjónvarpið? Eða kaskótryggingu á meðan bíllinn er inní bílskúr? Væri þægilegt að geta lækkað eigináhættu á kaskótryggingu yfir veturinn, slökkt á henni á góðviðrisdögum en sett svo allt í botn þegar lána á afa gamla bílinn? Vangaveltur eins og þessar fá starfsmenn tryggingarfélaga til að klóra sér í hausnum.

Það er nefnilega þannig að undirliggjandi áhætta trygginga er ekki stöðug yfir tíma. Meðal ökutækjatrygginga er áhættan t.d meiri yfir veturinn og í ferðatryggingum er hún meiri á sumrin. Þetta skýrir af hverju venjan er sú að endurnýja tryggingar til eins árs í einu. Það er vegna þess að til „lengri tíma“ er áhættan á t.d ferðatryggingum sú sama yfir heilt ár og fyrir eitt ferðalag. Þetta veldur því þó að þeir sem eru „duglegri“ að ferðast fá trygginguna í raun ódýrari þrátt fyrir að iðgjaldið sé það sama.

Borgaðu bara fyrir rúntinn

Mótorhjólatryggingar eru kannski augljósasta dæmið um hversu ólík áhættan getur verið yfir tíma. „Tryggingarlega sanngjarnt verð“ fyrir klukkutíma rúnt á mótorhjóli væru líklega nokkrir þúsundkallar. Það væri hærra ef ökumaðurinn er karlmaður. Hærra ef hann er tekjuhár og ef það byrjar að rigna þá hækkar verðið enn frekar og ef þetta er fyrstu rúntur sumarsins þá er líklega best að að hafna tryggingunni af hálfu félagsins.  

Ef íslensk tryggingarfélög tækju upp á því að byrja að bjóða upp þann valmöguleika  að kveikja og slökkva á ökutækjatryggingu eftir því hvenær bíllinn er notaður þá væri ekki ólíklegt að tryggingin þyrfti að kosta 600-800 krónur fyrir klukkutímann og færi eftir því hvort þú værir staðsettur innanbæjar eða utan. Slíkt líklega utan við núverandi lagaramma og er áskorunin því flóknari en á horfist í fyrstu.

Ef kröfur neytenda þróast í þessa átt mun verðlagning þurfa að taka mið af því hvernig áhættan breytist yfir tíma og sömuleiðis þurfa að taka mið af því að ekki munu allir koma til með að vilja nýta sér þessa þjónustu. Björtu hliðarnar væru þó vonandi þær að neytendur verði meira meðvitaðir um tryggingar, áhættu og fjármálalæsi. Íslensk fjármálafyrirtæki vita að þau geta ekki sofnað á verðinum eða reynt að synda á móti strauminum. Það er enda margt sem þarf að fylgjast með og er þetta aðeins eitt af mörgum spennandi nýjungum sem búast má við að finna í fjármálaþjónustu framtíðarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.