Ég sé enn ekki framtíðina á Íslandi

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Rúmt ár er síðan ég skrifaði pistil um hvernig íslenskt samfélag blasti við mér sem ungri manneskju sem byggi erlendis. Ég skrifaði hann sitjandi á Landspítalanum við hlið mömmu meðan hún var í blóðgjöf en blóðgildin voru lág eftir langvarandi lyfjameðferðir. Ég var byrjuð að syrgja á þessum tíma – ég vissi hvað koma skyldi. Ég syrgði framtíðina sem ég fengi ekki með mömmu, framtíðina sem ég vildi eiga á Íslandi. Innan við þremum vikum síðar kvaddi mamma. Hún var ekki tilbúin að fara og ég ekki tilbúin að sleppa. Allt í einu var ég rótlaus í stórum heimi og framtíð mín á Íslandi farin að fjarlægjast enn meir. Mig grunar að bróðir minn, sem einnig er búsettur erlendis, hafi upplifað það sama. Mamma var miðpunkturinn okkar, móðurskipið í Dalalandinu. Nú sitjum við eftir systkinin hálfvængbrotin í sitt hvoru landinu og veltum fyrir okkur framtíðinni. Munum við einhvern tímann flytja aftur heim?

Þegar ég les yfir gamla pistilinn undrar mig hversu lítið hefur breyst á einu ári. Jú, ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum en ástandið er samt það sama fyrir stóra hópa. Húsnæðismarkaðurinn er martröð fyrir ungt fólk, við stundum ennþá niðurrif í athugasemdarkerfunum í stað uppbyggilegrar umræðu og enn getum við varla keypt nýju og betrumbættu lyfin við ýmsum sjúkdómum. Það er fátt aðlaðandi við íslenskt samfélag fyrir ungt fólk sem nú þegar býr erlendis. Það sem laðar helst að er fjölskyldan, vinir og Ísland sjálft en hjartað slær alltaf einhvern veginn betur í takt í íslenskri náttúru.

Það er nefnilega ekki jafn sjálfsagt að koma heim eins og það var fyrir 40 árum. Mín kynslóð ólst upp við að háir múrar einangraðra þjóðríkja hrundu með komu alþjóðavæðingarinnar og allur heimurinn opnaðist okkur. Alþjóðavæðingunni hefur fylgt samkeppni, og helst snýst samkeppnin um unga fólkið sem kemur með nýjustu þekkinguna, metnað og dug til að breyta heiminum beint úr háskóla. Hvenær ætlar Ísland að taka virkan þátt í þeirri samkeppni? Hvenær ætlum við að byggja upp atvinnulíf sem laðar að ungt menntað fólk, heilbrigðiskerfi sem laðar að lækna eða hefur burði til að halda í hjúkrunarfræðinga sem eru þegar búsettir á Íslandi og reka háskóla sem við getum verið stolt af? Kannski þurfum við annan þjóðfund, enn einn stjórnmálaflokkinn eða nýja Facebook grúppu þar sem við finnum lausnir. Við þurfum bara að gera eitthvað sem fyrst. Losna undan doðanum því unga fólkið verður bráðum miðaldra og kjölfest erlendis.

Ég trúi því að við viljum flest það sama fyrir íslenskt samfélag. Það virkar svo einfalt að breyta því og bæta en samt virðist það vefjast fyrir okkur. Enn tekst okkur alltaf að flækja saman fæturna við hvert lítið skref fram á við. Vandamálið er kannski skotgrafahernaðurinn sem fylgir hægri vs. vinstri hugsunarhættinum hér á landi. Þessi flækja er óásættanleg, við ættum að geta fundið sameiginlegan grundvöll og málamiðlanir sem allir sætta sig við.

Ég held að fyrsta skrefið sé að taka alvöru umræðu um framtíð íslensks samfélags. Við þurfum fyrst að skilgreina hvernig þjóðfélag við viljum vera til frambúðar og sammælast um það. Hvar viljum við vera eftir 50 ár? Næst að setja stefnur í helstu málaflokkum til lengri tíma, ekki aðeins til fjögurra ára, og svo áætlanir til að fylgja þessum stefnum. Þetta hljómar eins og aðgerðaráætlun fyrirtækis en slíkar áætlanir virka – af hverju ætti ríkið ekki að fylgja sama módeli? Ef framtíðarsýnin er í lagi og við sýnum að við erum að fylgja henni þá fær unga fólkið kannski trú á landinu og vill snúa heim og taka þátt.

Ég endurtek orð mín frá fyrrnefndum pistli: ,,Við [unga fólkið] ætlumst ekki til að samfélagið sé fullkomið þegar við snúum aftur, við erum meira en tilbúin að taka þátt í því að byggja það upp. Okkur skortir hins vegar góðar fyrirmyndir sem sjá stóru myndina.”

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.