Ég hef ekki séð Breaking Bad

eftir Oddur Þórðarson

Líklega eitt það skrýtnasta í fari mínu er það að ég horfi ekki á neina sjónarpsþætti. Mér finnst allir sem ég tala við alltaf vera að horfa á allavega einn þátt hverju sinni og svo hafa allir einhvern veginn séð alla þætti á öllum mögulegu streymisveitum. Ég tek ekki þátt í þessu. Þegar ég segist svo ekki horfa á sjónvarpsþætti svona eins og flestir gera þá verður fólk bara hvumsa.

“Bíddu hvað meinarðu, ertu bara ekki að horfa á neitt núna eða?”

Nei, ég horfi ekki á þætti. Raunar skil ég ekki hvernig fólk getur horft svona endalaust á þætti eins og allir virðast gera. Hvernig getur það talist eðlilegt að fylgja sömu atburðarrásinni eftir, með sömu leikurum í sama umhverfi, í kannski fimm þáttaraðir?

Það hafa einmitt komið út fimm þáttaraðir af Breaking Bad. Það gera 62 þætti sem flestir eru um 50 mínútna langir. Það eru rétt rúmlega 50 klukkustundir af efni. Það nær því að vera óeðlilegt en eðlilegt að hafa séð þetta allt saman. Tala nú ekki um ef fólk hefur horft á allt heila klabbið oftar en einu sinni.

“Ha? Hefðurðu þá ekki séð Breaking Bad?”

Auðvitað ekki! Mér þykir gjörsamlega fáránlegt að geta horft á þetta allt saman. Ímyndið ykkur ef það hefðu komið út 18 Harry Potter myndir. Það gera álíka margar klukkustundir af sömu atburðarrásinni og allar seríurnar af Breaking Bad samanlagt. Nú hugsa eflaust margir að Breaking Bad séu svo góðir að ég þurfi bara að byrja og þá verði ég “hooked.” Ég hef alveg prófað það áður og ég endist aldrei heilu þáttaraðirnar eins og annað fólk. Af hverju að byrja á þessu ef ég veit að ég mun aldrei þrauka í gegnum alla þættina? Það er eins og að ætla í bíó og ákveða að fara heim í hléi.

Ég hætti að horfa á House of Cards eftir tvo þætti í annarri seríu – fínir þættir en ég fékk bara allt í einu nóg. Ég horfði á fyrstu sex þættina af Succession. Það eru mjög góðir þættir en í miðjum sjöunda þætti varð tölvan mín rafmagnslaus og ég kveikti bara aldrei aftur á Succession. Ég horfði á einn þátt af Stranger Things á sínum tíma og einn þátt af Handmaid´s Tale. Í báðum tilfellum lét ég svo þar við sitja. Svona gæti ég haldið áfram lengi.

Ekki misskilja mig, ég er ekkert stoltur af því að finnast “þættir” ekki henta mér. Mér finnast þættir alveg skemmtilegir í raun og veru en “þáttaformið” sem slíkt hentar mér ekki. Ég hlusta á tónlist frekar, það hentar mér ágætlega. Allir í kringum mig tala sífellt um hvað þeim þótti einhver þáttur góður og hvað ég verði að sjá þennan þátt eða hinn. Ég vildi gjarnan taka virkari þátt í slíkum umræðum en sama hvað ég reyni þá bara get ég ómögulega horft á heilu þáttaraðirnar til enda.

Þangað til er það bara Spotify. Þriggja mínútna menningarefni í senn hentar mér greinilega ágætlega.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.