Dyragæsla dagforeldra

eftir Hallveig Ólafsdóttir

Ísland stendur framarlega í jafnréttismálum í alþjóðlegum samanburði, á því liggur enginn vafi. Ísland trónir á toppnum í öllum helstu mælikvörðum á jafnrétti sem gefnir eru út og íslenskir stjórnmálamenn keppast við að halda tölur á erlendri grund um árangur Íslands; hvernig aðrar þjóðir geta lært af reynslu okkar.

Áherslan í jafnréttismálum á Íslandi er oft á tíðum jákvæð en að mati undirritaðrar getur áherslan oft farið út fyrir eiginlegt markmið jafnréttis.

Má þar t.d. nefna dagforeldra. Undirrituð er sem stendur í fæðingarorlofi og kemur í ljós að reyna að brúa bil á milli leikskóla og fæðingarorlofs er hið furðulegasta mál. Dagforeldri eru kostuð af sveitarfélögum og þeim sem að þiggja þjónustan þeirra. En ekkert skipulag virðist vera á því hvernig ungabörn komast inn á dagheimili annað en hringja fjölda símtala út um allan bæ í þeirri von að fá pláss fyrir barnið sitt. Jú eða þekkja eða reyna að komast í kynni við fólk sem getur mælt með barninu (og ekki síður foreldrinu/unum) inn á heimili.

Dagforeldrarnir sjálfir geta í raun tekið við hverjum sem þeim sýnist. Að koma barni til dagforeldra er eins og koma sér inn á vinsælan skemmtistað á laugardagskvöldi, þar sem í raun farið í manngreinaálit til að fá dagheimilispláss. Undirrituð fagnar oftast einkaframtakinu, þegar ríki og sveitafélög útvista verkefnum til einkaaðila en á stjórnvöldum hvíla líka skyldur um ráðdeild í úthlutun sinna fjármuna. Því er ill skiljanlegt af hverju sveitafélög halda ekki út miðlægum skráningarkerfi utan um rými hjá dagforeldrum. Það eitt myndi jafna aðgengi foreldra að dagforeldrum og ekki síst jafna stöðu barnanna

Illa skipulagt kerfi á góðum grunni

Margt er í ólestri í þessu kerfi og má þar t.d nefna að nýverið missti 10 mánaða gamalt barn sitt pláss hjá dagforeldrum eftir eins mánaða vist þar sem að dagforeldrarnir höfðu tekið inn fleiri börn en þeir höfðu leyfi fyrir. Hvað réttlætir það að þetta barn hafi orðið fyrir valinu en ekki eitthvað annað? Af hverju þarf barnið að taka afleiðingum af misgjörðum dagheimilisins? Ekki veit ég hver viðurlögin voru, en dagforeldrarnir eru enn starfandi í dag. Eftir sitja foreldrar sem þurftu sjálfir að finna nýja dagforeldra fyrir barnið. Ekki þarf að fara orðum um og hvers konar óþægindum slíkt veldur fyrir foreldra og ekki síður barn. Taka skal fram að hér er ekki verið að mótmæla tilvist dagforeldra heldur fyrst og fremst að benda á þá vankanta sem eru við kerfið og skort á yfirsýn og ábyrgð sveitarfélaganna á málaflokknum.

Margt er gert mjög vel gert hér á landi í jafnréttismálum, á því liggur enginn.. Aftur á móti er margt sem augljóslega mætti laga sem mundi jafna stöðu barna og kvenna. Barneignir eru af augljósum ástæðum nátengd jafnréttismálum kvenna. En stjórnmálamenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af ofangreindu atriði sem reifað hefur verið í þessum pistli því málefni dagforeldra rata ekki  inn í alþjóðlega mælikvarða jafnréttis. 

(Í upprunalegu útgáfu pistilsins var orðið dagheimili í stað dagforeldri. Það hefur verið lagfært í kjölfar athugasemdar sem barst pistlahöfundi)

Hallveig Ólafsdóttir

Pistlahöfundur

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur og stafar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða námi starfaði hún sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og á greiningardeild Vinnumálastofnunar ásamt því að sitja í ritstjórn Studentablaðsins.