Dyggðir til sýnis

eftir Gestahöfundur

Narratífið. Narratífið er stóra handritið. Það er tíðarandi orðræðunnar, hin viðtekna og „rétta” frásögn af gangi mannkynssögunnar. Hvernig narratífið verður til og hvernig því er viðhaldið er erfitt að svara og verður ekki gerð tilraun til þess í þessum pistli, en ljóst er að narratífið er öflugt og stundum svo öflugt að það ryður öðrum sýnum á veröld og sögu út á jaðarinn.

Hvert er annars narratíf samtímans?

Því er haldið fram að mannkynið stefni hraðbyri til glötunar af eigin völdum á næstu hundrað árum vegna hlýnunar jarðar og að við verðum að bregðast við með einhverjum hætti.
Fyrri hluti setningarinnar er ekki svo fjarri lagi, það eru líkur á hamfaraþrunginni framtíð þó að deilt sé um líkindadreifinguna. Vandinn er hinsvegar sá að hvert skref sem er tekið til að stemma stigu við mögulegum framtíðarhorfum er álitið gott í sjálfu sér. Allar lausnir hafa sama góða ásetninginn og eru því allar jafngóðar.

Það þykir fínt að skreyta sig með áhyggjum af framtíðinni og sýna hópnum sem maður umgengst að maður hafi að geyma réttvísa sál. Til dæmis má líta á stefnuskrár sumra stjórnmálaflokka um umhverfismál, en þar sést greinilega að áhyggjurnar vega oftast þyngra en útfærslur á raunhæfum lausnum.

Undir lok októbermánaðar svaraði forsætisráðuneytið fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen alþingiskonu um meðgjöf íslenska ríkisins með innflutningi á lífdísel og etanóli, sem ríkið skikkar Íslendinga til að blanda í dísilolíu og bensín. Það kostaði ríkið að lágmarki 1,1 milljarð árið 2015. Sem sagt, við fórnum að minnsta kosti 1,1 milljarði króna á ári til stækka þátt lífeldsneytis á Íslandi og þá vakna tvær spurningar: Er þetta besta leiðin? Ef ekki, skiptir það yfirhöfuð máli?

Bent hefur verið á að endurheimt votlendis sé 2000 sinnum ódýrari leið til að draga úr losun gróðushúsalofttegunda heldur en blöndun lífeldsneytis. Með því að endurheimta votlendi, þ.e. að fylla upp í skurði á ræktarlandi sem grafnir hafa verið í áranna rás, er hægt að binda koltvísýring í andrúmsloftinu. Framræst land myndar 63% losunar meðan bílafloti landsmanna myndar 7%. Með því að moka ofan í tíunda hvern framræsluskurð á landinu og endurheimta votlendið að fullu mætti því draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem nemur öllum bílaflota landsmanna.

Með öðrum orðum þá getum við dregið verulega úr losuninni án þess að nota hagræna hvata til að troða öllum í sporvagna. Þeir sem bæði vilja minnka líkurnar á stórtjóni í framtíðinni og jafnframt hámarka lífsgæði hljóta að hverfa í snatri frá lífdísilhugmyndum og beina kröftum sínum að skilvirkari lausnum. En það er ekki svo. Spurður um misskilvirkar leiðir til að sporna við hlýnun jarðar svaraði framboðsefni Vinstri-grænna:

„Ef við ætlum að ná fram kolefnishlutleysi þurfum við að taka á öllum þáttum losunar gróðurhúsalofttegunda.”

Þetta er narratífið

Það snýst fremur um samviskubit og fórnir heldur en lausnir sem hámarka hagsæld til lengri tíma. Heimurinn er að fara til fjandans og það er allt okkur að kenna. Narratífið er samnefnari dómsdagsspánna, allt frá súru regni til offjölgunar.

Ekki þarf að spyrja um skilvirkni lausna. Það þarf ekki að spyrja hvort skattar á útblástur séu óþörf fórn í þágu margfalt ríkari kynslóða framtíðarinnar. Það þarf heldur ekki að spyrja hvort eftirspurn eftir lífeldsneyti á Vesturlöndum sé að keyra matvælaverð upp í þróunarríkjunum. Nei, það þarf aldeilis ekki að spyrja að því, enda er það ekki hluti af narratífinu.

 

Þorsteinn Friðrik Halldórsson er hagfræðinemi í Háskóla Íslands og starfar sem blaðamaður hjá mbl.is og Morgunblaðinu. Hann ritstýrir Hjálmum, tímariti hagfræðinema og situr í ritstjórn Stúdentablaðsins. Helstu áhugamál eru knattspyrnuáhorf og salsa.