Drepum ekki gullkálfinn

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Það þarf vart að undirstrika þá ævintýralegu þróun sem orðið hefur í ferðaþjónustu á seinasta áratugi. Erlendir ferðamenn á Íslandi hafa rúmlega fjórfaldast: Árið 2010 voru um 500.000 erlendir ferðamenn sem sóttu landið heim, en útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna verði rúmlega 2.000.000 árið 2017 – þ.e. um sexfalt fleiri en Íslendingar. Framlag útflutnings til landsframleiðslu hefur farið hátt í 50%, eftir að hafa legið á bilinu 26-32% frá 1980-2008 (1). Á sama tíma hefur gengi krónunnar gegn helstu viðskiptagjaldmiðlum styrkst verulega, en ekki þarf að taka stórt stökk til þess að álykta að erlendi ferðamaðurinn spili rullu í þeirri þróun. Þessi öri vöxtur hefur haft mikil áhrif á allt íslenska hagkerfið og er undirliggjandi í væntingum markaðarins að mörgu leyti.

Það er í þessu ljósi mikilvægt að ferðaþjónustan hlaupi ekki hraðar en fætur hennar geta togað og að hún skapi sér stöðu sem sjálfbæra atvinnugrein til frambúðar. Opinber stefnumótun er gríðarlega mikilvæg í þessu samhengi, en hún hefur verið svifasein. Ný ríkisstjórn hefur í þessu samhengi boðað, í stjórnarsáttmála sínum, að „leiðir til gjaldtöku [verði] kannaðar í samráði við greinina, m.a. möguleikar á álagningu komu- eða brottfarargjalds.“

Á meðan að undirritaður fagnar öllum tilraunum til sóknar í þessum málaflokki, þá er spurn hvort umræddar gjaldtökuleiðir, ásamt gistináttagjaldinu, séu best til þess fallnar að búa til heilbrigða umgjörð um ferðaþjónustuna.

Náttúruperlan Ísland
Ferðmálastofa hefur gefið út kannanir á viðhorfum erlendra ferðamanna um árabil. Slíkar kannanir geta eftir atvikum gefið ágætis vísbendingar um það hvað er mikilvægt þegar kemur að ákvörðunum, væntingum og upplifunum þeirra sem sækja landið heim. Hafa verður þann fyrirvara á að gildi þeirra til afdráttarlausra ályktana er eðli máls samkvæmt takmarkað.

Það eru engar fréttir að íslensk náttúra er máttarstólpi íslenskrar ferðaþjónustu, en ítrekað hafa fjórir af hverjum fimm svarendum í þessum könnunum nefnt hana sem mikinn áhrifavald þess að þeir ákváðu að sækja landið heim. Það kemur heldur ekki á óvart að ítrekað sé „óspillt náttúra“ og „sérstaða landsins“ nefnt sem sérstaklega heillandi eiginleikar. Vandamál liggur hins vegar í því að þessi gríðarlegi massi af fólki sem heimsækir landið þjappar sér saman yfir sumartímann og á ákveðnum stöðum á landinu, sem hefur leitt til troðnings og ágangs á innviði. (myndir að neðan eru unnar úr könnunum ferðamálastofu).

Þrátt fyrir stöðuga þróun í átt til meiri dreifingar hallar þó enn á veturinn og landsbyggðina í þessu samhengi. Raunar er þetta jafnvel eitt af höfuðvandamálum íslenskrar ferðaþjónustu: Dreifing aðsóknar og ágangs er ójöfn. Ennfremur er farið að kræla á óánægju í sambandi við troðning og innviði.

Einkar sláandi er það að nálega fimmtungur svarenda sumarið 2016 sögðu hreint út að það mætti takmarka fjölda ferðamanna á Íslandi, ásamt því að bæta mætti salernisaðstöðu og vegakerfið. Á meðan að ánægja mælist enn mikil hjá erlendum ferðamönnum með Íslandsferð, þá þarf nauðsynlega að huga að tveim megin áskornunum: Aðgangsstýringu á tilteknum stöðum og uppbyggingu á innviðum.

Hvatar skipta máli
Í dag gildir frjálst aðgengi um nánast alla ferðamannastaði í náttúrunni á Íslandi. Í slíku umhverfi getur verið hætta á ofnýtingu á sameiginlegum auðlindum. Í samhengi ferðamannastaða ganga ferðamenn á innviðina og skerða upplifun annarra ferðamanna, þ.e. þeir mynda kostnað við hverja heimsókn. Þegar frjálst aðgengi gildir hefur enginn hvata til þess að gangast við þessum kostnaði. Staðurinn gæti smátt og smátt grotnað niður og tapað verðmæti sínu. Í ákjósanlegum heimi ræður einkaeign gjarnan bót á þessu máli: Eigandinn hefur hagsmuni af því að rukkar verð sem samsvarar eftirspurn og stýrir þannig aðgangi. Ásamt því hefur hann hvata til þess að fjárfesta í viðhaldi og virðisauka. Ljóst er þó að eign og ráðstöfun einkaaðila getur ekki verið ákjósanlegt fyrirkomulag á öllum ferðamannastöðum á Íslandi, þrátt fyrir að það hafi gefist vel í Bláa Lóninu og í Kerinu í Grímsnesi. Einhvern milliveg þarf að feta.

Ýmislegt hefur komið til skjalanna, t.a.m. gistináttagjöld, komu- og/eða brottfarargjöld og náttúrupassi (flatt gjald sem veitir aðgengi að allri náttúru Íslands). Slík gjöld gera hins vegar lítið til þess að takast á við megin áskoranirnar: Þau sinna ekki aðgangsstýringu á grundvelli breytilegra verðmæta, þau tryggja ekki að fjármagn skili sér greiðlega þar sem arðsemi hennar væri sem mest og þau skapa ekki hvata til nýsköpunar, uppbyggingar eða virðisauka. Jafnframt er verið að skattleggja hluti sem eru ekki hluti af „vandamálinu“, þ.e. hótelgistingar og flugumferð.

Í þessu ljósi má færa góð rök fyrir því að það sé mun líklegra að heilbrigðir hagrænir hvatar skapist þegar um er að ræða sérsamninga við ríkið um rekstur á tilteknum stöðum, beina miðstýrða gjaldtöku af hálfu hins opinbera, gjöld á „stuðningsvörur“ (2) eða einhverskonar „blandaða leið“ af ofantöldu. Það fer gjarnan eftir eiginleikum hvers staðar hvaða form gjaldtöku er hentugust. Ef auðvelt er að takmarka aðgang, þá eru sérsamningar við einkaaðila eða bein gjaldtaka þær leiðir sem komast næst þeirri ráðstöfun sem fengist með einkaeign. Þar sem ekki er hentugt eða óskandi að takmarka aðgang að stöðum með beinum hætti verður að leita annarra leiða. Hér má t.d. hugsa sér gjöld á stuðningsvörur (bílastæða- og/eða salernisgjöld t.d.), frjáls framlög eða jafnvel „lagskiptur“ náttúrupassi sem veitir aðgang að ákveðnum ferðamannastöðum með breytilegu gjaldi eftir því hvaða staðir eiga í hlut. Hvaða leið sem farin er, þá er mikilvægast að umgjörðin stuðli, eftir því sem unnt er, að því að aðgangsstýring endurspegli eftirspurn, verðmætum sé ekki sóað og hvatar séu skapaðir til viðhalds og virðisauka.

Drepum ekki gullkálfinn
Hugmyndirnar sem hér um ræðir eru ekki nýjar af nálinni. Svipaðir þankar hafa t.a.m. birst bæði hjá samtökum atvinnulífsins (3) og viðskiptaráði (4), svo eitthvað sé nefnt. Nú virðist mögulegt að það sé farið að hægja á vexti í ferðaþjónustu (5). Margir hafa spáð því að það muni hægja á vexti í fjölda ferðamanna, en á sama tíma eru tekjur af hverjum og einum að dragast saman (6). Hér spilar þó hækkandi innlent verðlag í erlendri mynt ráðandi hlutverk. Það kann að fara um suma við þessar fréttir, þegar horft er til þess að viðskiptaafgangurinn er borinn upp eingöngu af mjög jákvæðum þjónustujöfnuði. Þetta er þörf áminning fyrir stjórnvöld að það megi ekki ganga að velgengninni sem vísu. Eftir allt saman er markmiðið ekki það að fá færri ferðamenn, eins og gjaldtakan sem stjórnarsáttmálanum stuðlar að. Frekar ætti markmiðið að vera það að skapa umgjörð sem ýtir undir sjálfbærni og verðmætasköpun.

 

  1. https://umraedan.landsbankinn.is/umraedan/efnahagsmal/hagspa-landsbankans-2017-2020/innflutningur-og-utflutningur/
  2. Stuðningsvara er í einföldu máli vara sem „styður við“ neyslu annarrar vöru og þær eru þá gjarnan keyptar saman. Einfalt dæmi um stuðningsvörur væru tannkrem og tannbursti. Bílastæði og salerni geta í þessu ljósi hæglega verið stuðningsvörur fyrir suma ferðamannastaði og hefur gjaldtaka af hvoru tveggja verið rædd í þessu samhengi.
  3. http://www.sa.is/media/2034/ferdathjonusta_fin.pdf
  4. http://vi.is/%C3%BAtg%C3%A1fa/umsagnir/2014-2015/natturupassi.pdf
  5. https://www.landsbankinn.is/Uploads/Documents/Hagsja/2017-12-01-Thjonustujofnudur-F3-2017.pdf
  6. https://www.islandsbanki.is/einstaklingar/markadir/greining/frett/2017/12/01/Thjonustuafgangur-stendur-i-stad-thratt-fyrir-fjolgun-ferdamanna/

 

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.