Breska þjóðin gengur að kjörborðinu

eftir Janus Arn Guðmundsson

Theresa May á flekklausan en um leið óvenjulegan feril að baki, hún er önnur konan í sögu Bretlands til að gegna stöðu forsætisráðherra.
Theresa May á flekklausan feril að baki. Hún er önnur konan í sögu Bretlands til að gegna stöðu forsætisráðherra.

Breska þjóðin gengur að kjörborðinu á morgun, en fullyrða má að á ýmsu hafi gengið í snarpri og stuttri kosningabaráttu, m.a. hafa verið gerðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi með tveggja vikna millibili. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins boðaði óvænt til kosninga í þeirri viðleitni að styrkja umboð flokksins til að leiða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Allt stefndi í stórsigur Íhaldsflokksins í apríl síðastliðnum en dregið hefur verulega saman með Íhalds- og Verkamannaflokknum í skoðanakönnunum.

May tók við sem forsætisráherra landsins eftir að forveri hennar, David Cameron, sagði af sér í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit. May hefur því aldrei leitt breska Íhaldsflokkinn í gegnum þingkosningar. Kosningarnar á morgun munu því reyna talsvert á umboð Íhaldsflokksins, en ekki síður hennar eigið umboð.

Theresa May sat áður í ríkisstjórn David Camerons sem innanríkisráðherra en hún hefur setið á þingi frá árinu 1997 eða síðastliðin tuttugu ár.

May var einarður stuðningsmaður áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu, ólíkt flestum kjósendum Íhaldsflokksins. Engu að síður tóku stuðningsmenn flokksins sigri hennar fagnandi, þrátt fyrir andstöðu hennar við útgöngu Breta úr sambandinu. Hún hafði aftur á móti sýnt pólitískan kjark, öfugt við pólitíska andstæðinga hennar í Brexit atkvæðagreiðslunni. Raunar er það athyglisverð staðreynd að stuðningsmenn útgöngu, sem unnu stórsigur, hafa nú að mestu yfirgefið vígvöll stjórnmálanna og eftirlátið andstæðingum sínum að greiða úr flækjunni sem útgangan hefur í för með sér.

Þrátt fyrir að May hafi verið á móti útgöngu kvaðst hún virða þjóðarviljann, enda hefur hún sagt að „Brexit þýði Brexit“ og að þar við sitji. Raunar hefur hún bætt um betur og gerst talsmaður þess að Bretland yfirgefi innri markað Evrópu alfarið eða fari í svokallað „hart Brexit“.

Kosningabaráttan – sem átti að snúast um Brexit en snýst nú um innanríkismál – hefur ekki gengið þrautarlaust fyrir sig en henni var ætlað að færa Íhaldsflokknum aukinn þingstyrk á silfurfati. Það eru einkum tvö mál sem hafa reynst May mjög erfið viðureignar og valdið henni töluverðum vandræðum:

Elliglapaskattur hefur mætt miklu andstreymi

Annars vegar er það svokallaður elliglapaskattur (e. dementia-tax) sem May hugðist leggja á eldri borgara – án aðkomu flokksmanna. Sú stefna hefði haft það í för með sér að aldraðir samfélagsþegnar sem þurfa á umönnun að halda, hefðu þurft að greiða fyrir hana í gegnum verðmæti heimilis síns eftir andlát. Með öðrum orðum ætti ríkið fyrsta veðrétt á eign einstaklinga sem þurfa á félagslegri umönnun að halda, að frátöldum fyrstu 100.000 pundunum í eign þeirra. Stefna þessi olli miklu fjaðrafoki í breskum fjölmiðlum en hún hefur mætt miklu andstreymi frá breskum almenningi.

Innanríkisráðherrann Theresa May reis hratt til metorða en hún hefur getið sér góðs orðs í gegnum stjórnmálaferil sinn fyrir að vera umbótasinnuð. May er sögð fljótari en flestir að koma auga á hvert stefni. Þannig beitti May sér t.d. í réttindabaráttu samkynhneigðra með því að styðja að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband.

Elliglapaskatturinn er talinn hafa dregið fylgi Íhaldsflokksins niður á við, en tuttugu prósentustiga forskot hans hefur hrapað um helming frá því að skatturinn komst í hámæli. May hefur því neyðst til að hverfa frá þessari stefnu sem er afar sjaldgæft og jafnvel fordæmalaust í miðri kosningabaráttu. Þannig hefur ímynd May beðið hnekki en sú ímynd sem hún hefur byggt upp á sínum stjórnmálaferli er að hún kjósi heldur að vera hrein og bein fremur en allra.

Hins vegar hefur May ekki viljað mæta til kappræðna í tilefni af kosningunum, sem hún sjálf boðaði til, en það hefur gefið tilefni til gagnrýni og virkað sem fóður fyrir andstæðinga hennar. Meðal annars sagði Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, að forsætisráðherrann virtist eiga erfitt með að hitta fólk og taka þátt í kappræðum.

Óvíst hvernig hryðjuverkin hafa áhrif

Óvíst er hvernig hryðjuverkin í Bretlandi munu hafa áhrif á kosningarnar. Alla jafna leita kjósendur fremur í flokka sem standa fyrir lög og reglu, sbr. Íhaldsflokka, eftir voðaverk sem þessi. May hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd fyrir niðurskurð til löggæslumála undanfarin ár en hún hefur ítrekað verið innt eftir svörum varðandi stefnu Íhaldsflokksins í löggæslumálum. Þá sat hún áður sem innanríkisráðherra, í ríkisstjórn David Camerons, sem stóð fyrir niðurskurði til lögreglunnar með þeim afleiðingum að lögreglumönnum hefur fækkað um 20.000. Heildarfjöldi lögreglumanna í Englandi og Wales hefur farið úr 144.353 niður í 122.859.

Sviðsmyndir sem gætu komið upp annað kvöld

Við upphaf kosningabaráttunnar sagði May fyrir utan heimili sitt, að Downingstræti 10 í Lundúnum, að hvert atkvæði greitt öðrum flokkum en Íhaldsflokknum myndi leiða til hörmungar fyrir samningsstöðu Bretlands í Brexit. Jafnframt sagði hún að „hvert atkvæði“ greitt íhaldsmönnum gerði umboð hennar sterkara í komandi samningaviðræðum. Athyglisvert er að velta fyrir sér nokkrum sviðsmyndum sem gætu komið upp annað kvöld.

Takist May ekki að ná meirihluta er vandséð að staða hennar verði viðráðanleg, bæði sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins og sem forsætisráðherra – að stýra samningaviðræðum í Brussel.

Ef litið yrði á málið með augum annarra Evrópusambandsþjóða má leiða að því líkum að samningsstaða Bretlands muni veikjast verulega. Umboð ríkisstjórnarinnar yrði alls ekki eins sannfærandi og það hefði verið, ef ekki hefði verið gengið til kosninga.

Það gæti ekki aðeins hvatt ráðamenn í Brussel til að herða samningaviðræðurnar í þeirri viðleitni sinni að ná betra samkomulagi, heldur einnig gæti það haft þær afleiðingar að ýfa upp ógróin sár er varða Brexit. Ein birtingarmynd þess gæti orðið sú að þingmenn sem höfðu áður blendnar tilfinningar til Brexit teldu „þjóðarviljann óljósan“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni í ljósi niðurstöðu þingkosninganna.

Reynist skoðanakannanir réttar gæti May skort þingsæti til að ná þeim 326 sætum sem þarf til að ná meirihluta. Ef sú staða kemur upp er veruleikinn sá að May neyðist til að ganga til samninga við annan flokk, annað hvort með því að mynda samsteypustjórn eða minnihlutastjórn.

Ljóst er að ef May tekst ekki að vinna 12 sæta meirihlutann sem forveri hennar, David Cameron, vann árið 2015 hefur kosningabarátta hennar mistekist. Sú niðurstaða gæti grafið undan umboði hennar en hún hefur ítrekað sagt kjósendum sínum að eina leiðin til að útganga Bretlands reynist árangursrík sé að Íhaldsflokkurinn styrki stöðu sínu. Þannig má segja að kosningarnar á morgun muni reynast eins konar prófsteinn á umboð hennar til að leiða Íhaldsflokkinn áfram og útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.