Bætur eða bótavinna?

eftir Alexander Freyr Einarsson

Í hverju samfélagi þarf einhver hluti vinnuhæfs fólks að sætta sig við að vera án atvinnu á einhverjum tímapunkti. Hagfræðingar tala gjarna um svokallað „náttúrulegt“ atvinnuleysi sem telst vera eðlilegur hluti af hagkerfinu.

Blessunarlega er lítið atvinnuleysi á Íslandi samanborið við mörg önnur lönd, en frá árinu 2010 hefur það farið lækkandi og var einungis 2,9% árið 2015 samkvæmt Vinnumálastofnun. Til samanburðar er meðalatvinnuleysið í löndum Evrópusambandsins 9%. Í janúar síðastliðnum voru 4.600 einstaklingar á Íslandi skráðir atvinnulausir. Á bakvið þessa tölu eru margar alvöru manneskjur sem vilja vera í vinnu en fá hana ekki.2016_03_07 lexi isl vs euÞrátt fyrir gott ástand á vinnumarkaði er eftirfarandi grunnvandamál enn til staðar. Vinnufært fólk fær greiddan pening frá ríkinu fyrir að gera ekki neitt. Atvinnuleysisbætur nema 202.054 krónum á mánuði m.v. 100% bótarétt og tekjutengdar atvinnuleysisbætur geta orðið allt að 318.352 krónur. Vissulega eru þetta ekki stórar upphæðir til framfærslu en safnast þegar saman kemur.

Aftur til fortíðar?

Í stað þess að greiða fólki atvinnuleysisbætur væri hægt að bjóða fólki upp á „atvinnubótavinnu“. Íslenskir innviðir hafa grotnað niður undanfarin misseri og finna má fjöldann allan af verkefnum sem bíða eftir því að fara í framkvæmd. Betra vegakerfi? Betri gangstéttir? Betri umönnun eldri borgara? Fjöruvörður í Reynisfjöru eða göngustígsvörður hjá Gullfossi? Möguleikarnir eru endalausir.

Hugmyndin um atvinnubótavinnu er alls ekki ný af nálinni og var hún t.a.m. stunduð hérlendis á fjórða áratug síðustu aldar í kjölfar heimskreppunnar með ágætis árangri. Hin svokallaða „Síberíuvinna“ er líklega frægasta dæmið. Hún fór fram í Árnessýslu árin 1935-1938 þar sem undirbúa átti landspildu í eigu ríkisins undir nýbyggingar. Gagnrýni á vinnuna sneri fyrst og fremst að því að reykvískt vinnuafl væri flutt út í sveit til vinnu, en ástæða þess var m.a. sú að stjórnvöld vildu ekki fara í samkeppni við þá sem önnuðust vinnu í Reykjavík þá og þegar. Fjölmiðill einn talaði um að þeir sem fengju þessa vinnu yrðu að „sæta þessari Síberíuvist“ og þannig festist nafnið Síbería við vinnuna. Vinnan tókst ágætlega en hins vegar var framkvæmdum hætt árið 1938 áður en þær voru almennilega kláraðar og aldrei var neitt byggt á svæðinu.

Atvinnubótavinna á borð við Síberíuvinnuna átti að minnka atvinnuleysi í kreppu með tilheyrandi aukningu ríkisútgjalda. Má segja að vinna hafi verið sköpuð til þess eins að skapa vinnu, þó verkefnið hafi síðar reynst mistök. Í þessari grein er lagt til að breyta atvinnuleysisbótum í laun fyrir vinnu sem þörf er á hverju sinni. Ekki á að auka útgjöld til að útvega fólki vinnu heldur á að ráðstafa útgjöldunum öðruvísi þannig að fólk þurfi að vinna fyrir bótunum. Samkvæmt ársskýrslu Vinnumálastofnunar 2014 hljóðuðu greiddar atvinnuleysisbætur upp á rúmlega 50 milljarða 2012-2014 og erfitt er að trúa öðru en að það væri hægt að nýta þessar stóru fjárhæðir betur. Ekki er ætlast til að neinn svelti, spurningin er einmitt hvort hægt sé að fá eitthvað í staðinn fyrir peningana.

 

2016_03_07 lexi greiddar baetur2Vandamálin og lausnirnar

Helsta vandamálið felst sjálfsagt í því að finna störf fyrir umrædda einstaklinga, enda gæti það haft alvarlegar afleiðingar að auka framboð á vinnumarkaði um 4.600 manns. Sjálfsagt er betra að atvinnubótavinnan sé ekki í samkeppni við hinn almenna vinnumarkað og gæti reynst krefjandi að leysa það verkefni. Auk þess munu þúsundir nýrra starfsgilda mögulega leiða til þess að hver starfsmaður afkasti minna.

Annað vandamál felst í því að háskólamenntað, faglært eða sérhæft fólk er ekki endilega spennt fyrir því að vinna ófaglærð störf. Lögfræðingur eða læknir vill ekki endilega grafa skurði eða mála grindverk og er eðlilegt að fólk vilji vera í vinnu sem hæfir menntun þess eða hæfileikum. Sömuleiðis er erfiðara fyrir atvinnulausa að finna sér vinnu við hæfi ef þeir geta ekki leitað af fullum krafti vegna annarra starfa.

Mikilvægt er að átta sig á því að jafnvel þó fullkominni hagkvæmni sé ekki náð er hún þrátt fyrir það meiri en í fyrirkomulagi bóta.

Sömuleiðis er ekki nauðsynlegt að um fullt starf sé að ræða. Ef það er erfitt að finna 5.000 starfsgildi er hægt að krefjast þess að fólk vinni hálft starf og þá þarf bara 2.500 full starfsgildi. Aftur er betra að borga manneskju fyrir að vera í 50% starfi heldur en 0% starfi. Þetta leysir sömuleiðis leitarvandann því manneskja í 50% vinnu hefur nægan tíma til að leita sér að nýju starfi.

Mismunandi útfærslur henta ólíku fólki og ólíkum tímum. Ef ekki er hægt að fylla í starfsgildin þarf fólk mögulega að fá að vera á bótum án vinnu í einhvern tíma með því skilyrði að það sé tilbúið að hefja vinnu ef þess er krafist. En því skilvirkara sem kerfið er, því færri manns ættu að þurfa að vera aðgerðarlausir á bótum á meðan.

Hvað með menntafólkið?

Tveir kostir eru í stöðunni þegar kemur að því að leysa vanda menntafólks og sérhæfðra:

  1. Það sama gengur yfir alla. Ef menntamaðurinn vill ekki vinna þá vinnu sem er í boði, þá fær hann engar bætur.
  2. Gefa fyrirtækjum sem ekki væru tilbúin að ráða starfsmann í fulla vinnu kost á því að fá „niðurgreiddan“ starfsmann.

Með því að greiða fyrirtæki upphæð atvinnuleysisbótanna fyrir að taka við starfsmanninum getur hann fengið vinnu sér við hæfi. Þetta þarf ekki einungis að eiga við um menntafólk heldur getur átt við almennt. Þessi aðferð er nú þegar notuð að einhverju marki hjá Vinnumálastofnun og þarf að nota að meira marki. Þetta á ekki eingöngu að vera viðbótarþjónusta heldur normið.

Það er kannski undarlegt að ríkið niðurgreiði starfsemi einkafyrirtækja. Fyrirtæki myndi væntanlega kjósa að ráða einungis til sín starfsmenn niðurgreidda af ríkinu frekar en venjulegt starfsfólk og því er ljóst að þessi lausn yrði að vera miklum takmörkunum sett, sem hún er. Það þarf að liggja nokkuð ljóst fyrir að umræddur niðurgreiddur starfsmaður sé ekki að ræna störfum frá öðrum. Ein augljós regla væri að hvert fyrirtæki gæti einungis verið með ákveðið marga niðurgreidda starfsmenn í ákveðið langan tíma.

Kosturinn við þessa leið er að ef hún gengur upp fær starfsmaðurinn dýrmæta reynslu sem gerir hann að betri, eftirsóttari starfsmanni. Það hlýtur að teljast skárri kostur en að vera heima hjá sér á bótum eða í vinnu sem hæfir alls ekki menntun. Þessi aðferð hefur sína ókosti en þarna er einstaklingurinn að minnsta kosti að skila einhverju frá sér.

Þarf ekki að vera fullkomið – bara betra

Ekkert samfélag býr við fulla atvinnu en hvernig er hægt að réttlæta það að skattgreiðendur borgi vinnufæru fólki marga milljarða árlega fyrir að sitja heima hjá sér? Eðlilegt er að ríkið hjálpi þeim sem ekki geta hjálpað sér sjálfir; t.d. öryrkjum og eldri borgurum, en hins vegar hlýtur að vera hægt að koma atvinnulausum í gagnið á einn hátt eða annan. Þarna segjum við líka ákveðnum hópi bótasvikara stríð á hendur því ef þeir þurfa að mæta til ákveðinnar vinnu til að fá bæturnar geta þeir ekki þegið atvinnuleysisbætur og unnið svart annars staðar. Annað mál er að það getur haft gríðarlega íþyngjandi áhrif á andlega heilsu að hafa ekkert fyrir stafni. Þetta nýja kerfi gæti því einnig verið greiði í garð fólks sem þráir að vinna þó það hljómi mjög þægilega í fyrstu sýn að fá ókeypis peninga. Þeir eru afar fáir sem kjósa að vera atvinnulausir.

Það þarf margt að ganga upp til að þessi hugmynd geti virkað. Lausnin þarf þó alls ekki að vera fullkomin til að vera skárri en að brenna peninga skattgreiðenda.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.