Dómsdagur nálgast

eftir Guðný Halldórsdóttir

Í Bandaríkjunum segja 65% aðspurðra kjósenda að tilnefningar dómara í hæstarétt Bandaríkjanna muni hafa veruleg áhrif á hvaða frambjóðandi hlýtur þeirra atkvæði í forsetakosningunum næstkomandi þriðjudag. Það er stjórnarskrárbundin skylda forseta Bandaríkjanna að tilnefna dómara í hæstarétt og öldungadeildar þingsins að samþykkja hann. Í hæstarétti sitja níu dómarar og eru þeir allir æviráðnir og þýðir það gjarna að þeir sitji til andláts eða þar til þeir setjast í helgan stein.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur endurskoðunarvald um stjórnskipulegt gildi laga sem felur það í sér að hann hefur vald til að marka stefnu á afskaplega mikilvægum sviðum. Í þessu samhengi ber að nefna mál er varða fóstureyðingar, jákvæða mismunun, réttindi samkynheigðra og loftslagsmál.

Við andlát Antonin Scalia síðastliðið vor losnaði sæti við hæstarétt sem Barack Obama hefur enn ekki tekist að manna. Tilnefning Obama verður að teljast fremur hógvær en hann tilnefndi Merrick Garland sem er afar reynslumikill dómari og nýtur virðingar repúblikana jafnt sem demókrata. Repúblikanar vilja hins vegar ekki að Obama tilnefni næsta hæstaréttardómara, en þeir gáfu það út stuttu eftir fráfall Scalia að þeim þætti eðlilegra að næsti forseti skipaði arftaka hans. Forsetinn hefur hins vegar sagt að hann ætli sér ekki að gerast brotlegur við stjórnskipunarlög landsins sem kveða á um skyldu hans til að skipa hæstaréttardómara.

Einfaldan meirihluta þarf í öldungadeildinni til að samþykkja tilnefningu forseta á hæstaréttardómurum. Í ljósi þess að repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni núna og gátu því komið í veg fyrir skipun Garland hefur hæstiréttur ekki verið fullskipaður síðan Scalia féll frá. Antonin Scalia var að mati margra repúblikana óskeikull og að eigin mati óbetranlegur. Hann vildi að réttarríkið væri í hávegum haft og að túlka ætti stjórnarskrána á hefðbundinn hátt. Hann hefur því eflaust tekið nokkra hringi í gröfinni nú þegar þingmenn repúblikana bregðast stjórnskipulegri skyldu sinni og koma í veg fyrir að hæstiréttur Bandaríkjanna sé fullskipaður í marga mánuði.

Næsti forseti gæti skipað fjóra dómara

Hæstiréttur Bandaríkjanna skiptist í raun í tvær fylkingar, íhaldssama og frjálslynda dómara. Íhaldssömu dómararnir telja að túlka eigi stjórnarskrána eftir orðanna hljóðan og að varhugavert sé að ljá lagatextum siðferðilegt inntak. Gildi og viðhorf samtímans beri ekki að hafa að leiðarljósi við úrlausnir álitamála. Frjálslyndari dómararnir eru á öndverðum meiði og telja að túlka eigi texta stjórnarskrárinnar eftir viðhorfum og skoðunum samtímans. Undanfarna áratugi hafa íhaldssamir dómarar skipaðir af repúblíkönum verið í meirihluta í hæstarétti og sú staðreynd hefur endurspeglast í mörgum dómum réttarins. Það má því búast við stefnubreytingu innan hæstaréttar ef samsetningin breytist frjálslyndum í vil.

Þegar næsti forseti tekur við embætti verða þrír af átta sitjandi dómurum við réttinn nálægt eða á níræðisaldri. Það er því líklegt að næsti forseti Bandaríkjanna muni skipa allt að fjóra nýja dómara við réttinn og gefst honum því færi á að breyta valdahlutföllum réttarins til frambúðar.

Ný stefna framundan?

Á meðan Scalia naut enn við tilheyrðu fimm af níu hæstaréttardómurum íhaldssamari armi réttarins. Af þeim dómurum sem líklegt er að setjist í helgan stein á næstu átta árum eru tveir frjálslyndir og einn íhaldssamur. Ruth Bader Ginsburg er 83 ára gömul og Stephen Breyer 78 ára gamall, en þau voru bæði skipuð af Bill Clinton og tilheyra frjálslyndari armi hæstaréttar. Anthony Kennedy er áttræður og var skipaður af Ronald Reagan. Hann tilheyrir strangt til tekið íhaldssamari dómurum réttarins en hefur þó til dæmis greitt atkvæði með réttindum samkynhneigðra. Ef Hillary Clinton sigrar kosningarnar fær hún tækifæri til að fylla í skarð Scalia og mögulega einnig í sæti þeirra Ginsburg og Breyer. Þá væru hlutföllin í hæstarétti orðin fimm frjálslyndir dómarar á móti fjórum íhaldssömum. Ef hún fengi einnig að skipa dómara í stað Kennedy þá væru hlutföllin orðin sex á móti þremur að því gefnu að hún tilnefni ávallt frjálslyndan dómara. Ef Trump sigrar kosningarnar gætu hlutföllin mögulega orðið sjö íhaldssamir dómarar á móti tveimur frjálslyndum. Það er því ljóst að næsti forseti Bandaríkjanna mun hafa mikil áhrif á valdahlutföll og áherslur hæstaréttar langt fram í tímann.

Clinton hefur látið ýmis ummæli falla sem gefa það til kynna að hún vilji frjálslyndari hæstarétt. Til dæmis hefur hún látið hafa eftir sér að snúa þurfi dómnum Citizens United gegn the Federal Election Commission (FEC) til baka. Sá dómur opnaði á flóðgáttir styrkja til frambjóðanda sem hefur haft veruleg áhrif á kosningabaráttu frambjóðenda þar í landi.

Ef Clinton ber sigur úr bítum í kosningunum hafa repúblikanar heitið því að beita málþófi til að koma í veg fyrir að tilnefningar hennar á hæstaréttardómurum nái í gegnum þingið.  Það er því til mikils að keppa fyrir demókrata að ná meirihluta í öldungadeildinni í næstu kosningum.

Donald Trump hefur gefið út tæmandi lista yfir þá lögfræðinga sem hann mun tilnefna í hæstarétt en það eru allt harðlínumenn sem aðhyllast svipaða túlkun á lögunum og Scalia gerði.

Repúblikanar hafa upp til hópa ekki farið leynt með vanþóknun sína á forsetaframbjóðanda flokksins. Þó er líklegt að hagsmunir þeirra af því að Trump tilnefni einhvern af harðlínumönnunum á listanum muni vega þyngra þegar kemur að því hver hlýtur atkvæði þeirra á þriðjudaginn.

Guðný Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Guðný er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og hefur lögfræði sem aukagrein. Hún er búsett í New York en er alltaf með annan fótinn á Íslandi. Guðný er einn af stofnendum Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og situr í stjórn félagsins. Helstu áhugamál hennar eru hagfræði, útivist og matargerð.