Blessaður dauðaskatturinn

eftir Ritstjórn

Helsta hlutverk stjórnvalda er að veita almenningi þjónustu gegn greiðslu með skattlagningu. Ólíkt því sem gerist á markaði eru hins vegar allir skyldaðir til þess að greiða fyrir þjónustu ríkisins, hvort sem þeir hyggjast nota hana eða ekki. Raunar ganga stjórnvöld svo langt með greiðslusöfnun sinnar þjónustu að þau skattleggja það sem liðið er.

Þrátt fyrir tilvist aflandsfélaga hefur því verið haldið fram að aðeins tvennt sé óumflýjanlegt, dauðinn og skattar. Fyrir um áratug var þessum tveimur hlutum steypt saman á Íslandi þegar stjórnvöld tóku upp á því að skattleggja fólk fyrir það að deyja.

Átti þetta ekki að vera aprílgabb?

„Greiða skal 10% erfðafjárskatt af öllum fjárverðmætum að frádregnum skuldum og kostnaði er við skipti á dánarbúi manns renna til erfingja hans.“

Erfðafjárskattur á sér nokkra sögu á Íslandi en frá 1984 þurfti ekki að greiða skatt af arfi sem „fellur til þess hjóna sem lifir hitt,“ en börn þurftu að greiða allt að 10% skatt, foreldrar allt að 25% og fjarskyldara fólk þurfti að greiða sem næmi 45% erfðafjárskatti. Árið 2004 var þessi skattur einfaldaður mjög og breytt í flatan 5% skatt. Einföldun er góð en þó má spyrja sig hvort mögulega hafi verið um aprílgabb að ræða sem gleymdist svo að leiðrétta, hvort í raun hafi staðið til að afnema skattinn allan, strax að loknu gabbinu.

Lög um erfðafjárskatt tóku nokkrum breytingum frá samþykkt 1. apríl 2004. Skatturinn var fyrst 5% og síðan var hann hækkaður í 10% árið 2010 af velferðarstjórninni. Sú stjórn, líkt og frægt er orðið, beitti öllum sköttunarleiðum sem voru til staðar til að auka tekjur ríkissjóðs á kostnað velferðar og meðal þess var að hækka skatta á fólk sem ekki getur svarað fyrir sig.

Ósanngjarnasti skatturinn

Ekki nóg með það að hér sé um að ræða skattlagningu látinna einstaklinga heldur er einnig um að ræða tvísköttun, þar sem arfleifandi hefur þegar greitt skatt af þessum eignum sem færast svo á milli handa vegna andlátsins.

Dauðaskatturinn er líklega einhver ósanngjarnasti skattur sem til. Auk þess að aðstandendur þurfi að þola sorgina sem fylgir andláti einhvers nákomins, telur ríkisvaldið sig umkomið til þess að krefjast hluta dánarbúsins.

Heilbrigðisvísindin hafa á undanförnum áratugum unnið þrekvirki og skilað okkur umtalsverðri skattfrestun í gegnum auknar lífslíkur. Nú er svo komið að einhverjir hafa spáð því að eftir nokkra áratugi muni lífslíkur aukast um eitt ár á hverju ári sem þýðir að við verðum eilíf. Sorglega staðreyndin er sú að hugsanagangur stjórnmálamanna er með þeim hætti að sennilega er fljótlegasta og jafnvel eina leiðin til þess að losna við dauðaskattinn sú, að verða eilífur.

Það myndi þó ekki leysa allan vandann, því eftir sem áður standa aðrir skattar.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.