Dauðakaffi

eftir Gestahöfundur

Ég sat á Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði og rak þar augun í litla klausu í tímariti með yfirskriftinni ‘Dauðakaffi’. Orðið vakti strax áhuga minn og nota ég það hér að ofan til þess að reyna að vekja upp sömu tilfinningar hjá þér. Þessi litla klausa var auglýsing fyrir viðburð. Viðburð sem var til þess fallinn að drekka kaffi og ræða dauðann saman. En hver ætli nenni að eyða tíma í það? Eigum við ekki í fullu fangi með að ræða allt það sem lífið bíður upp á? Er til meira niðurdrepandi umræðuefni en dauðinn? Ég leyfi mér að fullyrða að töluvert margir myndu svara síðustu spurningunni neitandi. Þó alls ekki allir, og þarna voru komnir aðilar sem fundu sig knúna til þess að stofna og standa fyrir viðburði tengdum þessu viðfangsefni.

Ég ákvað að láta slag standa og dró pabba minn með mér á heldur óvenjulega kvöldstund. Upp komu alls kyns spurningar og vinklar á þetta stóra viðfangsefni eins og; hvernig fólk tekst á við dauða nákominna, hvort og hvenær fólk sætti sig við að það deyi, hvernig við nálgumst aðstandendur hins látna og svo miklu fleira. Þarna voru samankomnir einstaklingar sem voru opnir fyrir því að ræða og læra af öðrum um dauðann og allar hliðar hans.

Dagana á eftir var ég uppfull nýrri visku sem ég hafði áhuga á að ræða við vini og fjölskyldu enda finnst mér þetta einkar áhugavert umræðuefni. Það kom þó á daginn að langflestir, ef ekki allir þeir sem ég sagði frá þessu annað hvort hneyksluðust á umræðu minni eða hlógu. Því minna sem við ræðum dauðann, því ólíklegra er að hann „nái“ okkur. Ekki satt? Því væri þetta umræðuefni fráleitt þar sem öll hræðumst við jú dauðann. Ef við hræðumst hann ekki hljótum við að vera á barmi sjálfsvígs eða líf okkar hlýtur að vera innihaldslaust að öllu leiti. Mín upplifun af samfélaginu er sú að þetta er viðhorf okkar flestra til dauðans. Ég er þó ekki viss um að þessi nálgun sé vænlegust til að takast á við dauðann, sem við getum öll verið sammála um að sé óumflýjanlegur.

Þeirri röksemd að ræða ekki dauðann í þeirri trú um að þá sé hann ólíklegri til að ná okkur er ég ekki sammála, en um það er eflaust hægt að þræta. En gefum okkur það að ég hafi rétt fyrir mér þar. Þá eru rökin okkar fyrir því að ræða ekki dauðann orðin þau að það sé niðurdrepandi og að það veki einungis upp hjá okkur depurð og vonleysi. Þar get ég heldur ekki verið sammála. Gæti það verkað akkúrat öfugt? Getur verið að við náum að meta lífið örlítið meira með því að gefa dauðanum meiri gaum í umræðunni? Dregið hann upp úr þessum „taboo-hatti“ sem er orðið svo algengt að við gerum við alls kyns viðfangsefni.

Ef við gætum meðtekið þá staðreynd að dauðinn sé nær okkur en við viljum viðurkenna, gæti það gert okkur metnaðarfyllri í því að ná að njóta augnabliksins, vera þakklát, ná markmiðum okkar, sýna kærleik og þar fram eftir götum? Öll þessi atriði sem menn fá ekki nóg af að tala um og eiga að leiða okkur að meiri lífshamingju.
Það er að sjálfsögðu enginn að finna upp hjólið með umræðu sem þessari en henni er að mínu mati ekki gefið nógu mikið vægi og er hún að mestu leiti tengd við klisjukennda frasa eða popplag með Kris Allen.

Dauðsfall ástvinar er það sem flest okkar hræðumst mest í lífinu, mögulega að undanskyldum okkar eigin dauða. Ég er þar engin undantekning og hræðist ég bæði það að takast á við dauðsfall og það að deyja frá fólkinu mínu, markmiðum mínum og því sem mig langar að upplifa. Ég er samt sannfærð um að með því að „normalisera“ dauðann, færa hann nær okkur og viðurkenna hann, gætum við ekki einungis náð að lifa innihaldsríkara lífi heldur einnig náð að lina ákveðinn hluta sorgarferlisins sem fylgir dauðsfalli.

Eins og sorgarferli dauðsfalls horfir við mér getum við skipt því upp í þrjá hluta (eflaust eru þeir fleiri). Í fyrsta lagi er það söknuðurinn við að geta ekki lengur umgengist manneskjuna. Þann hluta held ég að við komumst aldrei yfir og það eina sem kemst nálægt því að lina þann sársauka er tíminn. Í öðru lagi syrgjum við framtíðina sem viðkomandi fær ekki að upplifa. Það er þáttur sem hægt er að útiloka en það veltur svolítið á því hvernig lífsskoðanir syrgjandinn hefur. Í þriðja lagi er það svo vorkunnsemi við manneskjuna að hafa „lent“ í dauðanum. Vorkunnin að þetta ógurlega skrímsli sem við lifum fyrir að hræðast hafi náð henni. Getur það verið að með breyttu hugarfari gætum við útilokað þennan þriðja þátt? Gæti það gert sorgarferlið örlítið bærilegra? Svari hver fyrir sig.

Með því að loka á þennan óumflýjanlega atburð erum við að gefa honum svo mikil völd yfir okkur og á sama tíma að lyfta honum á ákveðinn stall. Við setjum hann á stall á sama hátt og persónurnar í Harry Potter setja Voldemort (það er eflaust til fræðilegri samlíking en þessi finnst mér lýsandi og auðskiljanleg). Með því að nefna þennan hættulega galdrakarl ekki á nafn verður hann enn ógurlegri og óviðráðanlegri þegar við stöndum andspænis honum. Nærum ekki óttann, hellum upp á könnuna og hleypum dauðanum inn í næsta kaffispjall.

Lára Kristín Pedersen er sálfræðinemi við Háskólann á Akureyri, en áður lagði hún stund á sálfræðinám í háskóla í New York borg. Lára stundar nú knattspyrnu með Stjörnunni og eru hennar helstu áhugamál íþróttir, mannfólk og heilsa.