Dægurþras eða nýsköpun?

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Nóbelsverðlaunin í hagfræði voru í ár veitt tveimur einstaklingum en annar þeirra, Paul Romer, hlaut verðlaun sinn fyrir að setja fram kenningar í hagvaxtarfræðum um það hvernig nýsköpun, nýjar hugmyndir og tækni væru breytur sem samfélagið gæti stjórnað og þannig haft áhrif á hagsæld sína til framtíðar.

Fyrir verk Romers byggðu flest hagfræðilíkön á því að tæknibreytingar ættu sér stað og hefðu áhrif á hagvöxt en að þær breyttust með handahófskenndum hætti. Væru svokallaðar ytri breytur.

Hér á landi hefur verið nokkur vitundarvakning um mikilvægi nýsköpunar og framleiðslu hugvitsdrifinna vara og þjónustu. Í því samhengi hafa stjórnmálamenn og aðrir velt fyrir sér hvernig skuli best skapa kerfi sem skapar réttu hvatana til þess að skara fram úr í nýjum hugmyndum og tækni. Það er hins vegar ekki alltaf augljóst, enda ef það væri svo, væru sennilega flestar þjóðir búnar að innleiða töfralausnina.

Það eru þó til nokkrir sem hafa reynt að kortleggja hvernig þjóðir verða góðar í nýsköpun og tækni. Einn þeirra er Mark Zachary Taylor sem að í bók sinni The Politics of Innovation bendir  á sex stoðir góðra nýsköpunarkerfa:

  1. Eignarréttindi: Sterk eignarréttindi fóstra sköpunarkraftinn og gefa fólki vissu um að það muni njóta ávaxta erfiðis síns. Í samhengi nýsköpunar skipta hugverkaréttindi þar mestu máli og að þjóðir búi við gott kerfi einkaleyfa og sérleyfa.
  2. Niðurgreiðslur á rannsóknum og þróun: Taylor segir að þótt fjármagn jafngildi ekki endilega árangri þá hafi flest þau ríki sem náð hafa árangri í tækni og nýsköpun búið yfir einhverskonar niðurgreiðslukerfi á rannsóknum og þróun. Að rannsóknir og þróun hafi jákvæð ytri áhrif vegna þess hve hugmyndir og tækni er auðvelt að „afrita“ og dreifa. Jafnvel þó að þjóðir búi við sterka hugverkavernd hafi góðar hugmyndir nær alltaf einkenni almannagæða og of lítið sé framleitt af þeim án niðurgreiðslna.
  3. Menntun: Öflug menntakerfi byggja upp og skapa mannauð sem að leiðir til þess að þjóðir eru í betri stöðu til þess að skapa nýja tækni.
  4. Rannsóknaháskólar: Það er ekki nóg að kenna heldur þurfa þjóðir einnig að búa yfir öflugum rannsóknaháskólum sem fást við grunnrannsóknir. Segja má að enn meiri markaðsbrestur sé til staðar við grunnrannsóknir heldur en hagnýtar rannsóknir sökum þess að á markaðslegum forsendum eru þær mjög áhættusamur bísness t.a.m. vegna þess að nær ómögulegt er að segja hvenær og með hvaða hætti einhverjum dettur í hug að hagnýta uppgötvanir grunnrannsókna.
  5. Utanríkisverslun: Fyrir mörgum er frjáls utanríkisverslun ekki augljós stoð nýsköpunarstefna en hún er þó mikilvæg. Í fyrsta lagi vegna þess að aðgangur að stærri stórum mörkuðum gerir ýmis kostnaðarsöm verkefni arðbær (t.d. þróun á nýju lyfi), það ýtir svo undir frekari sérhæfingu þjóða sem leiðir af sér frekari þekkingarsköpun á því sviði. Í öðru lagi vegna þess að tækni getur smitast á milli þjóða sem stunda viðskipti. Í fjórða lagi leysir frjáls verslun úr læðingi krafta samkeppninnar.
  6. Tengslanet: Sjötta stoðin snýr að styrkleika tengslaneta þjóða. Þessari stoð má í raun skipta í tvennt. Annars vegar í innbyrðis tengsl en í því samhengi skiptir klasamyndun höfuðmáli. Klasar hafa töluverð smitáhrif innbyrðis og þekking breiðist hratt út. Hins vegar skiptir alþjóðleg tengslamyndun einnig miklu máli. Hún skiptir máli upp á aðgang að erlendum mörkuðum, aðgang að sérhæfðu starfsafli, framleiðendum og fjármagni en ekki síður aðgang að þeirri þekkingu sem er verið að skapa í öðrum löndum.

En ef  gegnum nýsköpun og tækni er svona nokkuð vel þekkt, má spyrja sig hvers vegna þjóðir heimsins og þá sérstaklega íslensk stjórnvöld drífi ekki bara í að klára þessi verkefni?

Í bók sinni segir Taylor að of lítið sé rætt um af hverju þjóðir einsetji sér og láti það rætast að verða öflugar í nýsköpun og tækni. Hann telur að þegar utanaðkomandi ógnir séu innbyrðis deilum yfirsterkari finni ríki áræðnina til þess að ganga í verkin og ná árangri í tækni og nýsköpun. Þessar ógnir geta verið af efnahagslegum toga, snúið að varnarmálum og ýmsu öðru.

Ef það er heimfært á Ísland, þar sem fátt annað kemst að en kröfur um launahækkanir upp á tugi prósenta eru augljós hættumerki á lofti fyrir framgang nýsköpunar. En búandi á Íslandi ættum við að þekkja hversu hverful góðærin eru. Handan við hornið gæti verið næsta gjaldeyriskreppa.

Í alla staði á það enn við að við munum þurfa að auka útflutning um 1.000 milljarða á næstu tuttugu árum til þess að halda í við önnur vestræn ríki. Að það rætist ekki er kannski ógnin sem við stöndum frammi fyrir. Við ættum að geta sameinast um að hætta þessu eilífa dægurþrasi og setja það í forgang sem skiptir máli upp á framtíðina að gera.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.