Daðrað við dílinn: Íslendingar og afslættir

eftir Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Ísland er einstakt að mörgu leyti. Náttúran, tungumálið, öryggið og svo mætti lengi áfram telja. Við erum líka skrítin, við setjum sósur á allt, borðum ís í frosti og erum eflaust heimsmethafar í kvarti. En eitt er mér algjörlega ómögulegt að skilja. Verðlagning á Íslandi og afsláttasýki landans.

Það er ekki hægt að fletta dagblaði á fimmtudögum og föstudögum án þess að sjá að minnsta kosti sjö síður af auglýsingum um 25% afslátt eða ,,helgarsprengju”. Ef mig vantar nýtt húsgagn, kodda eða eldhúspotta þá sit ég lafmóð við tölvuna og grandskoða samfélagsmiðla allra helstu verslana, því ég veit ég mun finna hlutinn sem mig vantar einhvers staðar á afslætti. Ef ekki, þá get ég reiknað út frá seinustu afsláttardögum hvenær næsti afsláttur er væntanlegur. Ruslpóstur sem einu sinni var sérstakt áhugamál mitt er farinn að valda mér hjartsláttartruflun því mér finnst ég alltaf vera að missa af einhverjum stórkostlegum tilboðum ef ég eyði ekki dýrmætum helgum í eltingaleik við afslætti. Íslendingar kaupa nánast ekkert á fullu verði. Ég þekki enga konu sem fer í Hagkaup og kaupir sér snyrtivörur nema þeir hafi auglýst ,,tax free” daga, sem þeir gera svona einu sinni í mánuði.

Að fara inn í málningarverslun á Íslandi eða að kaupa  heimilistæki er eins og að mæta á markað í þriðja heims ríki. Þú byrjar á því að grafa í heilabúinu eftir nafni sem þú gætir mögulega notað: ,,Ég er frænka hans Jóns – er ekki eitthvað gott verð í boði?”. Ef maður finnur ekki afsláttarkóða í einhverjum Facebook hóp þá byrjar fjörið. Prúttið. Á Íslandi prúttum við niður heimilistæki. Og málningu. Og margt fleira. Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við að ég geti gengið út úr verslun með græna málningu sem ég fékk á 40% afslætti af því ég daðraði við sölumanninn eða er frænka Jóns. Sem ég er auðvitað alls ekki.

Hvernig getur Subway boðið upp á bát dagsins á 30% afslætti? Húsgagnahöllin upp á 25% afslátt af öllu á mánaðarfresti? Hvað með 40% afsláttinn hverja helgi í Rúmfatalagernum? Og hvað er málið með þessa stöðugu kauphlaupsdaga í Kringlunni? Um leið og Kringlan auglýsir tilboðsdaga líða þrír sólarhringar og Smáralind býður á fjölskylduskemmtun með Frikka Dór ásamt því að senda mér biblíu af tilboðum.

Fyrirtæki eru farin að bjóða afmælisafslátt þegar þau eru 4 ára og hálfs árs eða þegar rekstrarstjórinn á afmæli. Útsölur nokkrum sinnum á ári eru skemmtilegar og líka skiljanlegar þegar verslanir þurfa að rýma lagerinn fyrir nýjum vörum. En allt er gott í hófi. Og við erum djúpt sokkin í óhófið.

Fyrir utan það hversu þægilegra lífið væri, væri þá ekki langbest og eðlilegast að bjóða bara alltaf upp á besta verðið sem í boði er? Verðleggja vöruna á sanngjörnu verði frá upphafi?

Það er annar punktur í þessu sem vert er að minnast á. Ýmsar rannsóknir sýna fram á að afsláttur, sérstaklega síendurtekinn, hefur neikvæð áhrif á vörumerki. Ef fyrirtæki eru stöðugt að lækka virði varanna sinna er hætt við því að neytandinn geri það sama í huganum. Eru fyrirtækin á Íslandi sem taka þátt í látlausu afsláttaræði mögulega að falla í áliti hjá þjóðinni? Hvernig kanntu að meta blómavasann þinn sem þú keyptir í sýningarsal Norr11 á fullu verði miðað við vasann sem þú keyptir í Ilvu á 30% afslætti i í tilefni af þrítugasta rigningardags ársins?

Ég er sannfærð um að þeir fjármunir sem fara í þessar reglulegu auglýsingar og afsláttardaga væri mun betur eytt í markaðssetningu með áherslu á uppbyggingu vörumerkisins, aukna þjónustu við viðskiptavininn eða enn betra, að hann færi í að lækka verðið almennt á vörunum.

Ég ætla að halda áfram að baða allt sem ég borða í bernaise sósu og fá mér ís í frosti en ég segi hér með nú afsláttarsýkinni stríð á hendur. Ég er hætt að segja sölumönnum að Jón sé frændi minn. Hætt að mæta í flegnum bolum í málningarverslanir. Ég vil frekar kaupa vörur nákvæmlega þegar mér hentar, sem ég veit að eru verðlagðar á sanngjarnan hátt og af seljanda sem ég treysti.

 

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Pistlahöfundur

Vinga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá IE Business School Í Madrid og Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming. Hún starfar í dag sem markaðsstjóri hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Áður hafði hún að mestu fengist við markaðsmál, almannatengsl og vörumerkjastjórnun ásamt því að koma að fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi.