Covid og ég

eftir Jónína Sigurðardóttir

Eins og svo margir aðrir finna fyrir þá hafa þessir fordæmalausu tímar mikil áhrif á mig. Ég man ekki eftir að hafa fundið fyrir jafn miklu álagi í vinnu, samkomubannið hefur ýtt verulega undir einmanaleikann hjá mér og foreldrahlutverkið er flóknara.

Ég er mjög þakklát fyrir að búa ekki ein. Ég bý með 11 ára gamalli dóttur minni sem er alveg komin með nóg af þörfum móður sinnar á knúsum og kúri. Móðurhlutverkið er mjög krefjandi á þessum tímum. Dóttir mín fer í skólann á hverjum degi en einungis í 3 klukkutíma og þarf því að vera ein heima í um það bil 5 klukkutíma á dag í stað tveggja eins og hún er vön. Hún er alveg ótrúlega dugleg að finna sér eitthvað að dunda við en ég finn að ástandið hefur meiri áhrif á hana en hún vill láta í ljós. Það er erfitt að geta ekki leikið við vini og vinkonur og að geta ekki mætt á æfingar. Við reynum að vera duglegar að gera eitthvað skemmtilegt saman á kvöldin til dæmis spila, púsla eða vera saman í Playstation. Það kemur þó ekki í staðinn fyrir að þurfa að vera svona mikið ein. 

Þegar stelpan mín fer að sofa á kvöldin hellist yfir mig söknuður og leiði. Það er svo ótalmargt fólk sem ég sakna og þá helst foreldra minna og bróðurdóttur minnar. Það er svo margt í lífinu sem mér fannst sjálfsagt. Eins og að kúra í sófanum með mömmu og fikta í hárinu á henni eða að fá bróðurdóttur mína í heimsókn og dekra við hana. Ég sakna svo þessara hversdagslegu hluta sem gáfu mér meiri lífsfylli en ég gerði mér nokkurn tímann grein fyrir. Stundum verð ég líka bara á heildina litið leið yfir því að þetta ástand ríki og áhrifin sem það hefur á svo ótal margt fólk. 

Ég hef alltaf verið mikil félagsvera og haft mikla þörf fyrir samveru og nánd við annað fólk. Sem betur fer umgengst ég fólk töluvert í vinnunni enda í starfi sem býður ekki upp á annað og ekki hægt að skerða þjónustu við mína skjólstæðinga. Ég starfa sem ráðgjafi á vettvangi fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Í mínu starfi verð ég vör við miklar afleiðingar vegna Covid. Aukið ofbeldi, fjölgun heimilslausra einstaklinga og meira um geðræn veikindi á meðan meðferðarstofnanir og geðdeildir taka við færri einstaklingum. Ég skil vel að stofnanir þurfi að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir smit á sínum starfsstöðum en það þarf þá eitthvað að koma í staðinn eins og að auka við viðhaldsmeðferð til þess að koma í veg fyrir lífshættuleg fráhvörf því mikill skortur er orðinn á vímuefnum.

Á þessum fordæmalausu og erfiðu tímum er ég þó þakklátari en nokkurn tímann fyrir ýmsa hluti. Ég er til dæmis þakklát fyrir að eiga fjölskyldu sem ég er í góðu sambandi við þó svo að ég sakni þeirra mjög sárt. Ég hef aldrei verið jafn þakklát fyrir að eiga heimili sem ég get þá farið í sóttkví eða einangrun í ef þess þyrfti. Ég er þakklát fyrir að hafa ekki þurft að treysta á að baða mig í sundlaugum sem nú eru lokaðar. Ég er þakklát fyrir að vera ekki í aðstæðum þar sem ég á í hættu á að vera beitt ofbeldi og að vera örugg. 

Þó svo að þetta taki á og dagarnir og kvöldin séu erfið þá er ég ótrúlega heppin með svo margt sem flestum okkar þykir sjálfsagt.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.