Bylting á besta stað

eftir Gestahöfundur

Á dögunum var stofnaður Sósíalistaflokkur Íslands og við það vöknuðu blendnar tilfinningar. Annars vegar ánægja yfir því að enn einn flokkurinn keppi um fylgi á vinstri vængnum en hins vegar óhugur um að nýr tíðarandi bíði sóknarfæris. Nafn flokksins gæti ekki gefið skýrari mynd af markmiðinu, hér á að koma á hugmyndafræði sósíalismans.

Líklega verður flokkurinn nokkuð meinlaus eins og flestir aðrir, ýmist of smár til að komast til valda eða of stór til að halda í róttæku sálina. En óhugurinn stafar mestmegnis af orðalagi leiðtogans, Gunnars Smára, þegar hann ræðir íslenskt samfélag og sósíalisma. Áhuginn á hugmyndafræði sósíalismans virðist vera nýtilkomin, eða að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hann hafi flaggað hugtakinu af einhverju viti fyrr en nýlega. Hann er fullur eldmóðs og blóðið hitnar um brot af gráðu þegar hann ræðir ójöfnuð og óréttlæti. Dálítið eins og Bernie Sanders, en að vísu einkennir þetta marga af sama skóla.

Gunnar Smári segir að við séum í „miðju blóðugu stéttastríði“ og stillir almenningi gegn auðvaldinu. Hann talar og skrifar af ákefð og maður skynjar hálfheiftarlega undirtóna. Það skiptir nefnilega máli hvernig þeir sem eru í forsvari fyrir sósíalískan flokk tala, meira en hjá flokkunum sem standa nær miðjunni. Það skiptir allaveganna máli fyrir okkur hin, saga sósíalismans er blóðug og þeir sem bera fánann þurfa að vera auðmjúkir gagnvart henni því nóg er af dæmum um hvað getur farið úrskeiðis. Þau virðist ekki vera ofarlega í huga.

Við getum rætt fram og til baka um endastöðina, sósíalíska hagkerfið (með allri þeirri eymd sem því fylgir). Við getum rætt hvort sósíalisminn sé hagkvæmur eða óhagkvæmur, hvort hann sé réttláttur eða óréttláttur. En umræðan ætti ekki síður að snúast um leiðina, hvernig við komumst þangað, og hvernig fólk sem er heltekið af hugmyndafræði réttlætir fyrir sjálfu sér alls konar ómennsku. Hugmyndafræði getur heltekið Gunnar Smára, mig sjálfan og flesta aðra.

Í umræðu á facebook-hóp flokksins um misheppnaðar tilraunir sósíalismans sagði Gunnar Smári að ekki hefði farið illa vegna þess að verkamenn sameinuðust, það hefði farið illa vegna þess að þeir hefðu ekki gert það nógu „vel, mikið og lengi“. Hvað hann meinar nákvæmlega með því er mun mikilvægara mál en gjaldþrot Fréttatímans og ógreidd laun.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson er hagfræðinemi í Háskóla Íslands og starfar sem blaðamaður hjá mbl.is og Morgunblaðinu. Hann ritstýrir Hjálmum, tímariti hagfræðinema og situr í ritstjórn Stúdentablaðsins. Helstu áhugamál eru knattspyrnuáhorf og salsa.