Byggjum miðsvæðis

eftir Gestahöfundur

Kerfi stofnbrauta er alltaf grunnur skipulags og áður en íbúðahverfi eru skipulögð þarf að gera ráð fyrir því hvar helstu stofnbrautir eiga að liggja. Stofnbrautirnar má hugsa sér eins og slagæðar í blóðrásarkerfi, ef við líkjum borginni við mannslíkamann.

Ýmsar ókláraðar vegtengingar hafa verið inni á skipulagi Reykjavíkur í áratugi. Framkvæmdir sem taldar hafa verið nauðsynlegar, en ekki enn verið ráðist í.

Myndin hér að ofan sýnir hvernig umferðarkerfið var hugsað í aðalskipulagi Reykjavíkur 1962–1983. Þarna má sjá stofnbraut sem tengist í framhaldi af Sóleyjargötu, suður fyrir Öskjuhlíð, gegnum Fossvogsdalinn og þaðan inn á Vesturlandsveg. Þessar tengingar hafa fram til þessa dags verið taldar nauðsynlegar þó enn hafi ekki orðið af þeim.

Fossvogsbraut hefur samt fyrir löngu verið tekin út af skipulagi og ljóst er að hraðbraut um Nauthólsvík og nálægt útivistarsvæði yrði lögð í óþökk flestra borgarbúa. Því hefur um nokkurt skeið verið gert ráð fyrir göngum í gegnum Öskjuhlíðina, en þau hafa verið talin forsenda þess að framtíðaruppbygging Landsspítalans geti orðið við Hringbraut.

Í núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur er enn gert ráð þessum göngum en sú framkvæmd yrði afar kostnaðarsömu og flókin í framkvæmd. Til að mynda er erfitt að sjá fyrir sér hvernig hin nýja hraðbraut undir Öskjuhlíðina ætti að tengjast inn á Hafnarfjarðarveg.

Hvað sem því líður þá þarf að leysa umferðarvandann. Kringlumýrarbraut og Miklubraut eru fyrir löngu sprungnar. Huga þarf að nýjum tengingum til að takmarka umferðarteppur – og auka öryggi.

Líklega er lausnin á þessum vanda fólgin í því að hætta að horfa á skipulagið frá austri til vesturs, heldur þvert á landamæri sveitarfélaganna – frá norðri til suðurs. Þá blasir Skerjafjörður við okkur, en hann liggur sunnan Seltjarnarness og norðan Álftaness. Úti á firðinum eru miklar grynningar og er talið að við landnám hafi fjörðurinn verið mun þrengri og stór eyja úti á firðinum, þar sem nú eru Löngusker. Raunar máttu skerin enn teljast eyja langt fram á síðustu öld, en bændur á Seltjarnarnesi heyjuðu þar fram yfir síðari heimsstyrjöld.

Vel má hugsa sér brú yfir Skerjafjörð sem yrði að langstærstum hluta á uppfyllingum og telja má að hentugasta legan sé í framhaldi af Suðurgötu út á Löngusker og þaðan stystu leið yfir á Álftanes. Tryggja yrði rennsli undir brúna á köflum svo lífríki fjarðarins biði ekki skaða af framkvæmdinni.

Brú á þessum slóðum yrði öll láreist, ekki ósvipuð ýmsum brúm hér við land, sem eru að stórum hluta á uppfyllingum. Kostnaður yrði alltaf miklu minni en til að mynda við mögulega hábrú yfir Kleppsvík, sem hefur verið hugsuð sem fyrsti áfangi Sundabrautar.

Álftanes er að stærstum hluta óbyggt land. Með sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness varð byggðakjarninn á Álftanesi að Vesturbæ Garðabæjar. En hann gæti líka orðið svo gott sem Vesturbær eða Suðurbær Reykjavíkur. Með vegtengingu yfir Skerjafjörð yrði akstur milli íbúðahverfa á Álftanesi og miðbæjar Reykjavíkur ekki lengri en fyrir íbúa Háaleitis að skjótast niður í bæ.

Því fylgja miklir kostir að byggja ný hverfi miðsvæðis, þar sem stutt er í hvers kyns þjónustu. Þannig má draga úr umferðarþunga, auk þess sem mikilvægt er að bjóða upp á það sem raunverulegan valkost fyrir fleiri borgarbúa að ganga eða hjóla til vinnu. Miklir möguleikar eru á uppbyggingu nýs hverfis úti á Skerjafirði. Skoðum það nánar.

Eins og sjá má af sjókortinu hér að ofan myndi möguleg brú yfir Skerjafjörð skapa tengingu við Löngusker og þar með möguleika á mikilli landfyllingu í skerjunum. Þar mætti hugsa sér stórt íbúðahverfi í framtíðinni þaðan sem mætti hjóla í fimm mínútur til tíu mínútur til að sækja ýmsa stærstu vinnustað landsins, háskólana tvo, spítalann, stjórnsýsluna og alla þá þjónustu og verslun sem finna má í miðbænum.

Með vegtengingu yfir Skerjafjörð yrði stór hluti umferðar á þessu svæði tekin út fyrir byggð, en mikil mengun og ónæði hlýst af umferðarþunga í Hlíðunum. Garðbæingar og Hafnfirðingar yrðu mun skemur á leiðinni til Reykjavíkur, en brautin lendir í næsta nágrenni við stærstu vinnustaði landsins. Þar með mætti styrkja þá miklu fjárfestingu sem liggur í mannvirkjum á þessu svæði og vinna gegn þeirri þróun að verslun og þjónusta dreifist sífellt meira um höfuðborgarsvæðið, með þeim afleiðingum að reisa þarf sífellt nýjar vegtengingar, vegalengdir lengjast, þar með mengun og rekstur almenningssamgangna verður ómögulegur.

Tenging yfir Skerjafjörð og stóraukin byggð á því svæði myndi skapa manneskjulegri borg. Framtíðarhverfi borgarinnar þurfa nefnilega ekki að verða svo fjarri miðbænum. Þau mætti hugsa sér þar í næsta nágrenni úti á Skerjafirði og Álftanesi, en líka í Örfirisey og Engey.
Meira um þær eyjar síðar.

 

Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og lögfræðingur að mennt. Hann hefur stundað fræðimennsku undanfarin ár. Eftir hann liggja þrjár útgefnar bækur og fjöldi greina.