Búseti og borgarstjórnin

eftir Tryggvi Másson

Húsnæðismál báru einna hæst á góma í aðdraganda kosninga fyrr í haust. Allir flokkarnir komu með allskonar hugmyndir sem flestar voru aðeins til þess að binda slaufu yfir þann hnút sem hefur myndast. Misgóðar hugmyndir á borð við fyrirfram greiddar húsnæðisbætur og fyrstu fasteign snúast fyrst og fremst um að gera húsnæðiskaup og leigu viðráðanlegri fyrir ungt fólk, en takast ekki á við raunverulega vandamálið, framboðsskort á fasteignum.

Síðastliðin ár hefur þessi húsnæðisvandi vaxið einkum vegna tveggja ástæðna. Annarsvegar er það vegna þess að í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 stöðvuðust nánast allar byggingaframkvæmdir. Þær framkvæmdir hafa verið lengi að taka við sér og er það ekki fyrr en núna sem sjá má verulegan vöxt í byggingu íbúðarhúsnæðis. Það ber þó að hafa í huga að uppsöfnuð húsnæðisþörf síðan er enn til staðar og mun taka mörg ár að vinna upp. Hins vegar er það vaxandi fjöldi ferðamanna á Íslandi sem kýs að nýta sér gistiúrræði Airbnb eða sambærilega þjónustu. En við það hafa margar íbúðir farið úr langtímaleigu í skammtímaleigu fyrir ferðamenn.

Þetta hefur þrýst upp húsnæðisverði og á sama tíma og kaupmáttur ungs fólks hefur staðið í stað ólíkt kaupmætti annarra aldurshópa. Þessi þróun kann að spila ákveðinn þátt í því að ungt fólk býr í vaxandi mæli lengur í foreldrahúsum en áður.

Hvað hefur verið gert til að bregðast við þessu?

Það er greinilegt að þörf er á að byggja fleiri íbúðir til að létta á þeirri spennu sem myndast hefur á fasteignamarkaðnum og til þess þarf að úthluta fleiri lóðum til að byggja á. Slíkar úthlutanir  falla í skaut sveitarfélagana sem hafa á höfuðborgarsvæðinu verið framkvæmdar á grundvelli sjónarmiða um þéttingu byggðar. Í stað þess að borgin dreifi úr sér, líkt og var gert hér fyrr á þessari öld, þá er markvisst stefnt að því að nýta betur þau svæði sem eru nú þegar í byggð. Það er gott og blessað, og í raun nauðsynlegt ef höfuðborgarsvæðið ætlar einhverntímann að bjóða upp á almennilegar almenningssamgöngur. En það er annað mál.

Á sama tíma hefur húsnæðisverð nálægt miðsvæði borgarinnar hækkað hlutfallslega hraðar en í öðrum hverfum. Þetta hefur leitt til þess að þær íbúðir sem hafa þó verið byggðar eru dýrari en íbúðir sem byggðar hefðu verið í dreifðari byggðum borgarinnar. Að ógleymdri byggingareglugerðinni sem veldur því að íbúðir eru stærri en þær þurfa að vera. Því er í raun verið að byggja dýrari og stærri íbúðir en ungt fólk sækist eftir.

Dagur B. Eggertsson telur að borgin hafi tryggt nægilegt framboð af ódýrari íbúðum með því að leggja mikið upp úr því að “…byggt verði nóg af íbúðum fyrir þá sem eru efnaminni og gert það með því að úthluta húsnæðisfélögum, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, lóðir til þess að geta boðið upp á sem hagkvæmust kjör fyrir þá sem þar kjósa að búa.”

Þetta hafa borgaryfirvöld gert með því að úthluta lóðum til tiltekinna félaga sem bjóða upp á ódýr íbúðarhúsnæði fyrir ákveðna efnaminni hópa eins og stúdenta, eldri borgara, öryrkja og þá sem þurfa á sérstakri félagslegri aðstoð að halda.

Af þessu má leiða að tvö skilyrði séu fyrir því að fá úthlutaða lóð frá Reykjavíkurborg. Annarsvegar er það að félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni og hins vegar er það að félagið bjóði upp á íbúðir fyrir þá efnaminni.

Búseti og borgarstjórnin

Það er eitt félag sem hefur fengið úthlutaðar lóðir undir mörg hundruð íbúðir þrátt fyrir að uppfylla ekki seinna skilyrðið. Það félag er Búseti. Búseti býður upp á búseturéttaríbúðir sem eru eiginlegur millivegur milli leiguforms og eignaforms þar sem kaupandi leggur inn eigið fé í formi búseturéttar og greiðir mánaðarlegt búsetagjald. Með þessu móti getur kaupandi selt búseturéttinn en búsetugjaldið virkar eins og leigugjald sem er ekki hægt að selja.

Í sumar var Búseti harðlega gagnrýndur fyrir dýrt verð á nýjum búseturéttaríbúðum, sem voru byggðar á lóðum sem það fékk úthlutað frá Reykjavíkurborg. Þar sem Búseturgjaldið var frá 150.000 kr. upp í 400.000 kr. á mánuði. Það er því nokkuð ljóst að þessar íbúðir eru ekki einvörðungu fyrir þá efnaminni og hefur Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, sjálfur sagt að þessar íbúðir séu ekki fyrir þá allra efnaminnstu.

Engin rök eru fyrir því að Búseti eigi að fá að komast hjá því að borga markaðsverð fyrir lóðir líkt og aðrir lögaðilar sem hyggjast byggja íbúðarhúsnæði. Það er nokkuð ljóst að Búseti stenst ekki lengur þau skilyrði fyrir því að fá úthlutaða lóð frá borgaryfirvöldum án þátttöku í útboði. Slíkum lóðum væri betur varið í þau félög sem raunverulega bjóða upp á íbúðarhúsnæði fyrir efnaminni hópa.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.